20.03.1925
Neðri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

98. mál, Krossanesmálið

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að alt, sem jeg hefði sagt í ræðu minni, hefði verið eintómir sundurlausir útúrsnúningar. En ræða hans ber vitni um annað. Hún sýndi áþreifanlega, að jeg hefi komið illa við kaun hans með því, sem jeg sagði. Alt, sem hæstv. ráðherra sagði, voru tómar afsakanir.

Þegar hann mintist á innflutning hinna útlendu verkamanna til Krossaness, þá afsakaði hann sig á sama hátt, sem hann hefir svo oft afsakað sig með áður, og sagði nú: „Jeg er ekki lögreglustjóri á Akureyri“. Hæstv. ráðherra fór þó norður í eftirlitsferð, en þó dettur honum ekki í hug að rannsaka þetta atriði, þrátt fyrir það, þó hann viti vel, að forstjóri Krossanesverksmiðjunnar hafi með innflutningi þessara verkamanna beinlínis gengið á snið við íslensk lög.

Þó að þessi verkamannainnflutningur sje hin minni hlið þessa máls, þá er hjer eigi að síður um allmikilsvert atriði að ræða, því að af innflutningi þessara 50 útlendu verkamanna hefir óhjákvæmilega leitt, að 50 innlendir verkamenn hafa orðið atvinnulausir í þeirra stað. Þetta skiftir því ekki svo litlu máli fyrir þá, sem atvinnutjónið hafa beðið.

Ekki veit jeg, hvernig hæstv. atvrh. (MG) hefir getað fengið það út, að jeg hefði tröllatrú á Morgunblaðinu. Jeg vitnaði að vísu í blaðið, en svo varfærinn var jeg að vitna ekki í annað en það, sem haft var eftir honum sjálfum, og þó jeg hefði trúað því, sem þar stóð 19. september, þá hefði sú trú orðið sjer til skammar, því að tveim dögum síðar jetur hæstv. atvrh. (MG) alt ofan í sig, sem stóð í blaðinu nefndan dag. (Atvrh. MG: Var fyrri greinin undir nafni?). Já, sama sem. Og með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp byrjun greinarinnar, þó jeg hinsvegar telji leiðara Morgunblaðsins ekki þess verða að vera að hafa þá í þingtíðindin.

Greinin byrjar þannig:

„Krossanesmálin. Viðtal við atvinnumálaráðherra. Af því að tvíburarnir „Tíminn“ og „Dagur“ og systkinin „Alþýðublaðið“ og „Verkamaðurinn“ hafa rætt töluvert um Krossanesmálin svo nefndu, hefir Morgunblaðinu þótt rjett að fá nánari fregnir um þessi mál og hefir því snúið sjer til atvinnumálaráðherra Magnúsar Guðmundssonar og spurt hann um þau. Ráðherranum sagðist frá á þessa leið“.

Síðan kemur skýrsla ráðherrans. (Atvrh. MG: Stendur mitt nafn undir greininni?). Máske hæstv. ráðherra væni ritstjórana um að hafa farið þarna með ósannindi. Ef svo er, þá verða ritstjórarnir og ráðherrann að eigast við um það.

Annað lögbrot þeirra Krossanesmanna er það, að flytja inn hinar amerísku vogir í óleyfi, þvert ofan í einkarjett löggildingarstofunnar til að flytja inn vogir.

Jeg vil nú spyrja hæstv. ráðherra, hvaða sekt forstöðumaðurinn hafi fengið fyrir það lagabrot? Ef hann svarar því ekki nú, þá upplýsist það án efa fyrir þeirri nefnd, sem rannsaka á þetta mál.

Hæstv. atvrh. (MG) vildi og afsaka sig með því, að hann hefði borið þessi mál undir kunnuga og sjerfróða menn og ekki gert annað en það, sem þeir hefðu álitið rjett. En eftir því, sem fram er komið í málinu, er full ástæða til að ætla, að hann hafi farið til þeirra einna, sem litið hafa á þessi mál eins og Krossaneshöfðinginn hefir viljað vera láta.

Þá sagði og hæstv. ráðherra, að eigandi Krossanesverksmiðjunnar væri ekkert ámælisverður fyrir það, þó að hann hefði ekki sótt um leyfi til þess að flytja inn hina átlendu verkamenn, af því að hann hefði ekki vitað, að þess hefði þurft. En getur nokkur trúað slíku? Jeg held ekki. Og jeg er nær því fyllilega viss um, að honum hefir verið fullkunnugt um, að þetta leyfi þurfti, til þess að mega flytja verkamennina inn. Og jeg trúi ekki öðru en honum hafi líka verið fullkunnugt um leyfið, sem sótt var um til stjórnarráðsins í fyrra fyrir hans hönd og í hans nafni, en hann ekki talið sjer það fullnægjandi, þar sem hann mátti ekki eftir því flytja inn nema 15 sjerfræðinga. En honum hefir fundist heppilegast fyrir sig, úr því sem komið var, að segjast ekkert um neitt leyfi vita. En það sjá allir, að atvinnurekstri hans gat staðið það á miklu að fá sjerfræðingana inn, og þess vegna trúir því enginn, að honum hafi ekki verið fullkunnugt um það, að um leyfið var sótt.

Þá kvað hæstv. ráðherra upp úr með það, að hann skoðaði tillögu þessa sem vantraust. En jeg hafði engin orð um það. En eftir orðum hans má líklega gera ráð fyrir, að stjórnin segi af sjer, verði tillagan samþykt, og það skyldi ekki hryggja mig. En vel má vera, að hæstv. stjórn hafi svo sterkan meiri hluta, að hún þurfi ekki að óttast það.

Annars er jeg mjög hræddur um, að enn þá sje margt í þessu máli, sem á eftir að upplýsast. Að minsta kosti kendi mjög missagnar í skýrslu hæstv. ráðherra. Þó í litlu væri, fór hann með rangt mál, þegar hann sagði frá löggildingu mælikeranna á Flateyri. Hann sagði, að eftirlitsmaðurinn hefði farið vestur og norður um land og löggilt mælikerin á Sólbakka. En þetta er rangt Mælikerin voru send hingað suður og löggilt hjer. En eftirlitsmaðurinn fór suður og austur um land, en ekki norður um, eins og hæstv. ráðherra sagði.

Þó í litlu sje, eru þetta skakkar upplýsingar og eru því einn naglinn í líkkistu þá, sem hann er að smíða sjer í þessu Krossanesmáli.

Þá var hann að víkja því til mín, út af því, sem jeg sagði um rannsókn í þessu máli, að jeg mundi ekki vilja fá óvin minn til þess að rannsaka hjá mjer brauðgerðina. Og af sömu ástæðum vildi stjórnin ekki fá óvini sína til þess að rannsaka þetta Krossanesmál.

Það get jeg sagt hæstv. ráðherra, að jeg væri ekkert hræddur við slíka rannsókn. Brauðgerð mín stendur undir eftirliti þeirra manna, sem það eftirlit er falið, og að auki undir eftirliti embættismanna bæjarins. Er því hjer ólíku saman að jafna. En hæstv. ráðherra virðist mjög hræðast slíka rannsókn. Má vera, að hann óttist, að nýjar upplýsingar kunni að koma fram, upplýsingar, sem hann kærir sig ekki um að komist fyrir almenning. Hann vill því láta nægja þær upplýsingar, sem hann getur gefið Íhaldsmönnum á flokksfundi. En þó verð jeg að segja, að íhaldsmenn sjeu nægjusamir, ef þeir láta sjer það nægja í slíku stórmáli sem þessu. Annars lítur það svo út hjá hæstv. ráðherra, að hann telji Íhaldsmenn svo múlbundna hjá stjórninni, að þeir megi ekki hafa aðrar skoðanir en þær, sem hann telur góðar og gildar.

Þá mintist hæstv. ráðherra á þessar amerísku vogir, sem forstöðumaður Krossanesverksmiðjunnar hefði fengið síðastliðið sumar, og vildi gera það að stóru atriði til þess að sanna, að maðurinn hefði ekki viljað svíkja málin eða hafa af viðskiftamönnum sínum viljandi. En þarna skjátlast hæstv. ráðherra herfilega, því þetta sannar alls ekki það, sem hæstv. ráðh. (MG) vildi vera láta, heldur jafnvel miklu fremur hið gagnstæða. Úr því að vogir þessar voru svo flóknar vjelar, að sjerfræðing þurfti til að koma þeim saman, verður flestum á að halda, að á þeim hefði verið hægt að „snuða“ svo verulega hefði um munað, þegar. hægt var að gera það svo mjög með einföldum síldarmálum, eins og raun hefir á orðið. Þetta bendir því ótvírætt í þá átt, að nú hafi átt að fara að „svindla“ í enn þá stærri stíl en gert var áður með stóru síldarmálunum.

Nei, því verður ekki neitað, að allar þær upplýsingar, sem hæstv. ráðherra hefir gefið í þessu máli, eru mjög á huldu og að sumu leyti tómur útúrsnúningur, mest bygður á skýrslum, sem framkvæmdarstjóri Krossanesverksmiðjunnar hefir gefið honum, enda hefir hæstv. ráðh. orðið sjer til minkunar fyrir þær, þar sem hann hefir orðið að leiðrjetta opinberlega það, sem hann var áður búinn að segja sjálfur.