21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

98. mál, Krossanesmálið

þorleifur Jónsson:

Jeg hafði í upphafi ekki ætlað mjer að taka til máls um þessa þáltill., en það er einkum vegna ummæla hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. atvrh. (MG), að jeg segi hjer nokkur orð.

Það þarf engan að undra, þó að þingið láti mál þetta til sín taka. Það hefir vakið talsvert umtal um land alt, og einnig hefir samlandi verksmiðjustjórans í Krossanesi gefið ítarlega skýrslu um framferði verksmiðjunnar, sem hefir leitt til þess, að málið hefir verið allmikið rætt í Noregi. Er því engin furða, þó að því sje hreyft hjer á Alþingi. Hitt hefði verið furðulegra, ef þingið hefði gengið þegjandi fram hjá málinu.

Það hefir vakið mest umtal meðal landsmanna, að telja má nokkurn veginn víst, að Krossanesverksmiðjan hefir notað síldarmæliker af óvenjulegri stærð, og er talið, að hún hafi á þann hátt haft fje af viðskiftamönnum sínum.

Þetta hefir komið einna greinilegast í ljós við upplýsingar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um skýrslu þá, sem Stangeland útgerðarmaður hefir gefið norskum blöðum um málið. Hann segist hafa orðið fyrir barðinu á mælikerum verksmiðjunnar og tapað á því, aðeins á síðastl. sumri um 2000 kr.

Nú er ekki gott að segja, hvort Stangeland hefir rjett fyrir sjer, og gefur það m. a. tilefni til rannsóknarinnar að upplýsa, hvort svo er.

Þar sem forstjóri verksmiðjunnar neitar framburði Stangelands, er ekki hægt að segja fyrirfram, hvor þeirra hafi á rjettu að standa.

Þess vegna er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að Alþingi láti rannsaka málið.

Og það er svo margt fleira, sem er óupplýst í þessu máli. T. d. er það ekki upplýst, hvort sumir þeir, er sömdu við verksmiðjuna, hafi vitað, að málin, sem hún notaði, tóku 170 lítra.

Hafi verksmiðjan samið við einhverja viðskiftamenn um kaup, miðað við 170 lítra mæliker, þá er í þeim tilfellum ekki neitt athugavert, þótt mælt hafi verið í slíkum málum, en ekkert hefir enn komið fram um það.

En þetta alt er órannsakað mál. Enginn veit, hve margir hafi vitað og hve margir ekki vitað, að verksmiðjan notaði mæliker af óvanalegri stærð.

Þetta og margt fleira í þessu sambandi þarf að rannsaka til hlítar.

Hæstv. atvrh. (MG) ljet í gær þau orð falla, að þessi þáltill., sem er borin fram af hv. þm. Str. (TrÞ) og með atbeina Framsóknarflokksins, sje grímuklætt vantraust á hæstv. stjórn.

Það er að vísu svo, að stjórnir eru venjulega meir og minna hörundsárar, ef till. koma fram, sem geta orkað tvímælis í þessu efni, og hafa tilhneigingu til að álíta, að andstæðingar þeirra beri slíkar till. fram í því skyni að bregða fæti fyrir stjórnirnar.

En eins og hv. flm. (TrÞ) hefir lýst yfir, þá er tilgangur þessarar þáltill. aðeins sá, að fá Krossanesmálið upplýst.

Þá fyrst kemur till. fram, þegar nærri er útsjeð um, að hæstv. stjórn ætlar ekki að gefa þinginu skýrslu um málið ótilkvödd. Lengi var búist við því, að hæstv. stjórn gæfi skýrslu af fúsum vilja, en þar sem ekki hefir orðið af því, þá er síst að furða, þó að Framsóknarflokkurinn láti sig málið nokkru skifta. Blöð flokksins hafa rætt málið talsvert og því eðlilegt, að hann beri fram till. um, að það verði rannsakað til fullnustu.

Eins og hv. þm. Str. (TrÞ) hefir gert, get jeg lýst yfir því, að í till. felst ekkert vantraust. Það, sem fyrir flokknum vakir, er að fá málið krafið til mergjar, að svo miklu leyti sem unt er. Og það er mjög athugavert. af þinginu að hliðra sjer hjá að taka þetta mál til meðferðar, þar sem upplýst er, að a. m. k. einn maður hefir kvartað undan því að hafa beðið stórfelt fjártjón, vegna þess að verksmiðjan notaði ekki rjett mæliker. Þessi umkvörtun ein ætti að vera nægilegt tilefni rannsóknar í málinu.

Hæstv. forsrh. (JM) hefir einnig tekið fram, að till. þessi sje byrjun til vantrausts. Jeg skil ekki þessa skýringu hæstv. stjórnar á till. þar sem jeg býst við, að hæstv. stjórn hafi hreinar hendur í máli þessu, þá fæ jeg ekki skilið, hvernig hún getur tekið till. sem vantraustsyfirlýsingu, eftir að við Framsóknarflokksmenn höfum lýst yfir því, að í till. felist ekki annað en óskir okkar um að fá málið upplýst.

Ef að því kæmi, að Framsóknarflokkurinn bæri fram vantraustsyfirlýsingu á hæstv. stjórn, þá myndi hann ekki bera hana fram grímuklædda, heldur ganga hreint að verki og lýsa því í efni og orðfæri þeirrar till., að ekki væri um að villast, að vantraust væri á ferðinni. En það felst ekki í þessari till.

Hitt er annað mál, að ef rannsóknin leiddi í ljós, að afskifti hæstv. stjórnar af máli þessu væra mjög svo vítaverð, þá gæti það leitt til þess, að hún yrði að segja af sjer eða fengi vantraustsyfirlýsingu; en að svo stöddu vil jeg ekki ganga út frá öðru en að hæstv. stjórn geti hreinsað hendur sínar, og því er hjer ekki um vantraust að ræða.

Meiningin með þessari till. er vitanlega engan veginn sú, að sakfella nokkurn mann fyrirfram, heldur eingöngu að fá allar þær upplýsingar í málinu, sem unt er.

Ef það kemur í ljós, að forstjóri Krossanesverksmiðjunnar hefir haft of stór mæliker í sviksamlegum tilgangi, þá mun það sennilega leiða til sakamálshöfðunar. En um þetta verður ekkert sagt að svo stöddu.

Jeg hefði að vísu ekki þurft að taka þetta svo ítarlega fram, þar sem hv. flm. (TrÞ) hefir í fyrstu ræðu sinni sagt, að Framsóknarflokkurinn ætlaði ekki að fyrra bragði að gera neinn hvell út af máli þessu og að hjer væri alls ekki um vantraust að ræða.

Þó taldi jeg rjett, að slík yfirlýsing kæmi einnig frá mjer f. h. flokksins, svo að tilgangur hans með till. yrði síður vefengdur.

Sje jeg ekki ástæðu til að ræða mál þetta frekar. Það hefir þegar verið mikið rætt, og verð jeg að segja, að enda þótt nokkrar nýjar upplýsingar hafi fram komið við umr., þá er það rjett, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að þær upplýsingar ættu að hvetja menn til þess að krefjast fullkominnar rannsóknar í málinu.