21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3241)

98. mál, Krossanesmálið

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki mörgu að svara hæstv. atvrh. (MG). Hann fór eins og köttur í kringum heitan graut í svari sínu til mín. Sem gamall málaflutningsmaður fór hann marga útúrdúra, færði orð mín úr samhengi o. s. frv.

Hann byrjaði á að segja, að hann hefði ekki farið norður til þess eins, að athuga þetta Krossanesmál. Það voru heldur aldrei mín orð. Mjer var vel kunnugt um það, að hann fór einnig í öðrum erindagerðum.

Þetta út af fyrir sig skiftir þó ekki miklu. Það, sem mjer þykir að, er það, að hann skyldi nokkurn tíma sjálfur fást við málið, í stað þess að láta undirmenn sína gera það.

Þá sagði hæstv. atvrh., að jeg hefði gefið sýslumannastjett vorri slæman vitnisburð. Jeg gerði það ekki. Jeg sagði aðeins, að það hefði aldrei orðið annar eins hvellur, þótt einhver sýslumanna vorra hefði rannsakað málið og þótt gera það sljólega. Þessi ummæli mín bar ekki að skoða sem niðrun fyrir stjettina í heild, heldur aðeins þetta: Það er víða pottur brotinn, og menn eru misjafnir í henni sem öðrum stjettum.

Út af þessu er tilefni til að minnast á, að það er verra að hafa hendur í hári brotlegra manna í litlu landi en stóru. Sá, sem lögin brýtur, og sá, sem laganna skal gæta, þekkja hvor annan, og menn ganga ekki með eins köldu blóði til refsingar við menn eins og í stóru löndunum. Og jeg get ekki varist því, að mjer finst hæstv. atvrh. hafa verið fulltrúgjarn á orð þeirra, sem í vináttu voru við Krossanesmanninn.

Þá kvað hæstv. atvrh. mig hafa ákært sig fyrir að hafa verið sýslumanninum í Eyjafirði samferða. Mjer datt ekkert slíkt í hug, veit að það er góður maður og gegn, en atvrh. hefði átt að láta sýslumanninn fara með málið eftir venjulegum málagangi.

Jeg hefi aldrei sagt eitt orð um það, að hæstv. atvrh. hafi ekki fyrir kunnleika sakir verið fær um að fást við málið. Eftir þeim gögnum, sem fram hafa komið, kvaðst jeg ekki vita, hvort hann hefði verið að leika dómsmálaráðherra. Það vildi jeg fá að vita. Og hitt einnig, hvort hann hefði gert það í umboði dómsmálaráðh. því hefir hann ekki svarað.

Hver rjeð því, að ekki var höfðað sakamál? Því hefir hann ekki svarað heldur. Jeg hefi litið svo á, að ef eitthvað þessu líkt kæmi fyrir, þá skýrðu hinir ráðherrarnir dómsmálaráðh. frá og hann rjeði svo, hvort sakamál skyldi höfða. Þetta forðaðist hæstv. atvrh. að tala um. Eftir því sambandi, sem er á milli ráðherranna, bjóst jeg ekki heldur við, að öðruvísi færi.

Þá fór hæstv. atvrh. að brýna mig á því, að hann hefði betur vit á dómsmálum en jeg. Hann var að því líka í fyrra. Jeg svaraði því þá, að jeg bæri engar brigður á lagakunnáttu hans. Er hjer misjafnt að hafst. En alósæmilegt er fyrir ráðh. að nota þinghelgina til að krukka í embættismann.

Jeg gat þess, að mönnum hafi þótt erfiðara að fá bætur hjá Krossanesmanninum eftir komu ráðh. en áður. Hæstv. atvrh. sagði, að jeg yrði að sanna þetta. Nú kastar fyrst tólfunum, ef þingmaður á að fara að færa sjerstakar sönnur á mál sitt hjer í salnum. Frekar verður ekki krafist en hver þingmaður tali eftir bestu vitund og sannfæringu. Jeg lagði áherslu á það í fyrri ræðu minni, hve erfitt væri að sanna skaða sinn í svona löguðum málum. Þá þyrfti að safna sönnunargögnum hvaðanæva að. En í sakamáli væri það hægara. Þá gæti dómarinn tekið öll gögn, hvar sem þau væru. Hinu hefi jeg ekki mótmælt, að það þarf oft meira til þess að koma fram sakarábyrgð á hendur manni en fá skaðabætur.

Hæstv. atvrh. sagði í fyrstu ræðu sinni, eins og jeg hefi áður minst á, að hann hefði ekki haft ástæðu til þess að höfða mál á móti manninum. En í sjálfu sjer skiftir það ekki svo miklu máli, hvort hann fann ástæðu til þess eða ekki, því að síðasti dómari í þessu efni var vitanlega hæstv. dómsmálaráðherra (JM). Jeg held, að jeg hafi tekið það skýrt fram í fyrri ræðu minni, að jeg væri ekki hjer að dæma nokkurn mann og að það eina, sem jeg vítti hæstv. stjórn fyrir eða virtist athugavert við gang málsins, væri það, að hún hefði ekki látið rannsaka það svo sem bæri. Lengra gekk jeg ekki í minni ræðu.

Þá var hæstv. atvrh. að segja það, að eftir minni skoðun ættu útlendingar að sæta öðrum lögum en innlendir menn. Jeg talaði alls ekki á þann veg. Þvert á móti gaf jeg fyllilega í skyn, að ástæða væri til að höfða mál gegn útlendum sem innlendum, sem kunnugt væri um að misjafnt hefðust að, og skal jeg reynast síðastur manna í því að vilja draga úr, að hafðar sjeu hendur í hári slíkra manna.

Hæstv. atvrh. var hræddur um, að skjölin yrðu misbrúkuð, en bauð mjer samt að sjá skjölin, og þakka jeg honum vitanlega mjög vel það traust, sem hann sýnir mjer með því að undanskilja mig því ámæli sínu, að jeg muni misbrúka kunnugleika minn á skjölunum. Hinsvegar verð jeg að segja, að mjer þykir það ekki rjett að bera það fram úr ráðherrastól, að þingmenn misbrúki þau skjöl, er þeir fái í hendur, og finst mjer hæstv. atvrh. (MG) gefa þinginu heldur slæman vitnisburð með þessu. Get jeg og hugsað mjer, að slíkt myndi ekki auka virðingu þingsins, ef satt væri.

Viðvíkjandi því, sem altaf er verið að klifa á, að ekki hafi komið fram nein kæra í málinu, þá vil jeg bæta því við, að mjer er kunnugt um, að menn, sumir hverjir, voru ráðnir í því að fara í mál við þennan Krossanesmann, en hættu við það, af því að þeir vildu bíða og sjá, hvort þingið skifti sjer ekki af málinu. Og veit jeg, að menn eru tilbúnir í það að fara í einkamál við framkvæmdarstjórann undir vorið, þó þeir viti, að það muni torsótt, af því að þeir eiga svo erfitt með að ná í sannanir.

Þá er það eitt höfuðatriði, sem jeg get ekki verið hæstv. stjórn samþykkur í í þessu máli. Hún vill, að mjer skilst, koma þeirri stefnu á, að hið opinbera skifti sjer ekki af öðrum glæpum en þeim, sem kært hefir verið yfir. M. ö. o. ef einhver stelur, þá á ekki að rannsaka mál hans nema hann hafi verið kærður. Í þessu tilfelli horfir svo við, að vitanlegt er, að viðkomandi maður hefir haft af öðrum, en það er eftir að rannsaka, af hvaða hvötum eða í hverjum tilgangi hann hefir gert það, og til þess er engin önnur leið en sakamálsrannsókn. Það eru altaf afarmörg tilfelli, sem maður getur vitað um, að glæpur hefir verið drýgður, sjerstaklega þeir, sem heyra undir svika-para- graffana, en alt er undir hinu komið, að maður geti fengið fulla vitneskju um, að það hafi verið gert í sviksamlegum tilgangi. Slík rannsókn er það, sem á að fara fram eftir þeirri þáltill., er hjer liggur fyrir, og í till. liggur ekkert annað.

Með lítilli líkingu lýsti jeg því, hvernig hæstv. stjórn hefði staðið í upphafi þessa máls. Lýsti jeg henni þá sem reistum víghesti, en ef jeg ætlaði mjer að dæma um, hvernig stjórnin fór út úr málinu, mundi líkingin æði sunddregin.