21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

98. mál, Krossanesmálið

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hæstv. forsrh. (JM) hefir nú sagt það, sem þarf að segja um hina rökstuddu dagskrá hv. þm. Dala (BJ), og við það hefi jeg engu að bæta. Vitaskuld kemur það mál honum mest við, en ekki mjer, og úr því að hann svo fúslega hefir gengið inn á að taka á móti dagskránni, þá get jeg vitaskuld gefið sömu yfirlýsingu frá minni hendi. Jeg sje ekki, að neitt það felist í dagskránni, sem jeg get ekki felt mig við.

En út af því, sem hv. þm. A.-Sk. (þorlJ) sagði, í sinni mjög svo hógværu ræðu, um það, að hann hefði búist við því, að stjórnin kæmi fram með skýrslu um málið á þinginu, þá verð jeg að segja nokkur orð. Jeg áleit altaf, að málið yrði flutt á þinginu einmitt af flokki hv. þm. (þorlJ). Jeg gerði ráð fyrir, að flokkurinn mundi skapa úr því eldhúsdag, og var ljóst, að hann var að búa sig undir eitthvað slíkt. Var jeg því við því búinn að gefa slíka skýrslu, sem jeg hefi gefið, undir eins og málið kom til umræðu. Að koma fram með hana fyr hugði jeg ekki að við þyrfti, enda var mjer frá upphafi dagljóst, að Framsóknarflokkurinn mundi bera fram málið, meðal annars af því að jeg vissi, að miðstjórn þess flokks hafði sent till. um málið á þingmálafundina út um land.

Mjer skildist á ræðu hv. 1. þm. Árn. (MT), að jeg í svarræðu minni hefði gert honum eitthvað rangt. Það var síður en svo meining mín, og hafi mjer viljað það til af einhverjum misskilningi, þá bið jeg hann velvirðingar á því, og ætti þá það mál að vera gleymt. En jeg gat nú ekki betur fundið en að nokkur þjóstur væri í hv. þm. (MT) út af þessu máli. Honum fjell illa, að jeg skyldi hafa verið að vasast í þessu máli, en það verður ekki skilið á annan hátt en þann, að honum falli yfirleitt illa, að jeg skuli vera ráðherra. Því að jeg trúi því illa, að það sje af eintómri umhyggju. Hann sagði að vísu undir þinglok í fyrra, að hann bæri traust til mín, en það var svo lítið, að jeg trúi því ekki, að hann beri nú mikla umhyggju fyrir mjer. (MT: Jú). Nú, náttúrlega verð jeg að trúa því nú, þegar hv. þm. (MT) segir það, að þetta tal hans sje alt af einskærri umhyggju sprottið.

Hann kvaðst ekki hafa farið illum orðum um valdsmannastjettina í landinu. Gott var, að hann meinti ekki orð sín svo, en jeg vildi taka málstað hennar, af því að mjer þótti kenna hjá honum hnútna í hennar garð, sem ekki væri rjett að kasta hjer fram. Svo þótti honum sem jeg hefði um of hlýtt á fortölur þeirra manna, sem kunnugir eru framkvæmdarstjóranum í Krossanesi. Sjálfur þekkir hann manninn ekki nokkurn skapaðan hlut, en vill samt, að jeg taki mikið tillit til þeirra orða, sem hann segir um hann. Kemur mjer þetta kynlega fyrir. Hv. þm. (MT) sagði, að jeg hefði átt að senda sýslumanninn eftir skránum. Jeg sagði í gær, að framkvæmdarstjórinn sagði, að hann gæti ekki sent þær inn á Akureyri vegna þess, að þær væru notaðar í verksmiðjunni daglega. Synd mín er þá sú, að jeg fór með sýslumanninum til þess að athuga þær. Og jeg verð að segja, að í mínum augum er það engin stórsynd.

Jeg býst ekki við, að hv. þm. (MT) trúi því, þótt jeg segi honum frá því, hvort jeg hafi verið að leika dómsmálaráðherra þar norður frá eða ekki. Er best fyrir hann að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra sjálfan, hvort jeg sletti mjer fram í hans störf. Hv. þm. (MT) var að tala um, að jeg hefði ekki átt að skifta mjer af málinu. Gat sú ásökun hans ekki bygst á öðru en því, að hann teldi, að jeg hefði ekki vit á málinu, og því vildi jeg í svarræðunni sýna hv. þm. (MT) fram á, að jeg teldi mig bera fult skyn á þessi mál. Hv. þm. (MT) var mjög móðgaður yfir því, að jeg vildi, áð hann færði rök fyrir þeirri staðhæfing sinni, að framkvæmdarstjórinn hefði hætt að greiða mönnum uppbót eftir að jeg kom. En hv. þm. (MT) hefir ekki heimild til að álykta slíkt nje leyfi til að bera fram slíka ákæru nema hann rökstyðji hana. En það gerði hann hvorki fyr nje síðar. Hann kvaðst hafa talað um þetta við einn heiðarlegan mann — jeg veit ekki, hve marga óheiðarlega — en í því felst vitanlega engin sönnun. Hv. þm. sagði, að það væri nauðsynlegt að ná í sönnunargagn í málinu. Jeg skal viðurkenna það. En hvað er betra sönnunargagn en það, að mælikerin voru löggilt eftir meðaltali þeirra? Það er besta sönnunargagnið. Því að með því er slegið föstu, að málin voru misstór. Og þótt einhver færi í mál, gæti hann aldrei fengið meira en það, sem svaraði til þessa meðaltals málanna, hver svo sem málshefjandi yrði. (MT: Hann getur fengið meira). Nei. Jeg get eins vel sagt um þetta eins og hv. þm. (MT). Jeg er líka gamall dómari og lögfræðingur og hefi engu síður vit á þessu en hann. Hv. þm. (MT) var að tala um það, að það væri dómsmálaráðherrans að fyrirskipa sakamálsrannsókn. Það er alveg rjett. En þá skýtur það skökku við, að hann skuli taka því illa, er jeg segi honum, að jeg sje ekki dómsmálaráðherra, og skuli hann því, ef honum líki illa við gerðir mínar í málinu, fara til hæstv. dómsmálaráðherra.

Hv. þm. (MT) hættir altaf við að vilja víkja við orðum. Hann kvað mig hafa sagt, að hv. þingmenn mundu misbrúka skjölin. Það hefi jeg aldrei sagt, heldur hitt, að það mætti misbrúka skjöl, og það, að jeg býð hv. þm. (MT) að sjá skjölin, sannar ekki, að jeg telji hann ekki geta misbrúkað þau, heldur hitt, að jeg ætla ekki, að hann vilji gera það.

Að síðustu sagði hann, að þessi till. væri til þess, að málið yrði rannsakað. Það er nú einmitt það sem jeg get aldrei skilið. Hún getur ekki heldur orðið til að undirbúa rannsókn, vegna þess, að slíka rannsókn er ómögulegt að gera nema á miklu víðtækari grundvelli en kostur er á hjer á Alþingi. Jeg veit, að hv. þm. (MT) veit þetta vel og skilur það.

Jeg vildi gjalda hv. þm. (MT) líku líkt. Jeg ætla ekki nú að sýna honum neina ókurteisi, úr því hann gerði það ekki að fyrra bragði, og mæli því ekkert orð, sem getur stygt hann nú.