21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

98. mál, Krossanesmálið

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. Str. (TrÞ) reyndi að rekja muninn á sinni tillögu og þeirri dagskrá, sem jeg ber fram. Þá taldi hann það grunsamlegt, að stjórnin vildi ekki taka á móti rannsóknarnefnd til að rannsaka hennar eigin gerðir. Jeg sje enga ástæðu til þess, þar sem stjórnin hefir gefið hjer skýrslu í heyranda hljóði og boðið hverjum þm. sem er að sjá öll þau skjöl, sem fyrir liggja um málið. Þá er aðeins eftir eitt, nefnilega að hún stæli undan skjölum, en þá finst mjer vera of langt gengið í tortrygni við þá menn, sem stjórnina skipa, og allar aðdróttanir að stjórninni um, að hún hafi gert eitthvað saknæmt, hljóta að verka út á við þannig, að menn sjeu ekki ugglausir um, að stjórnin haldi uppi lögum í landinu. Þess vegna hefi jeg aðeins reynt að stilla hjer ófriðaröldur og láta mönnum skiljast, að allir geta náð sínum rjetti. Það er ekki venja, að Alþingi heimti sakamálsrannsókn á hvern mann, sem kann að vera brotlegur, enda þykir mjer það „seint um langan veg að spyrja sönn tíðindi“.

Jeg hefi því með tillögu minni reynt að beina hugum manna að málefninu sjálfu. Jeg skil ekki, hvernig hv. 3. þm. Reykv. (JakM) vill láta liggja í tillögunni vantraustsyfirlýsingu á hæstv. stjórn. Ef honum er annara um stjórnina en mjer og þykir henni með þessu misboðið, getur hann greitt atkvæði á móti. Annars hjelt jeg, að hæstv. stjórn væri einfær um að sjá, hvað væri vantraustsyfirlýsing og hvað ekki.

Spurningu hv. 8. þm. Reykv. um, hvernig jeg vilji að rannsókn fari fram, svara jeg því, að jeg vil, að hún fari fram eftir landslögum og málavöxtum.