13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3279)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Bjarni Jónsson:

Gamalt grískt máltæki segir: „panta hrei“, sem þýðir: alt er á ferð, eða: alt er samanburði undirorpið.

Mjer dettur þetta orðtak í hug út af vantraustinu, sem hjer er á ferðinni.

Við verðum að bera þá hæstv. stjórn, sem nú á að greiða atlögu, saman við væntanlega landsstjórn. Jeg hefi nú að vísu ekki heyrt enn, hverjir eigi að taka sæti í væntanlegri stjórn með hv. flm. (JBald), en sennilega verða þeir úr þeim flokki, sem ætlar að greiða þáltill. atkvæði, Jeg veit, að þeir verða ekki úr Sjálfstæðisflokknum, því í fyrra áttu jafnaðarmenn og sá flokkur, sem nú fylgir þeim að málum, kost á að styðja stjórn áfram, sem vinsælasti maður Sjálfstæðisflokksins veitti forstöðu. Þá neituðu þessir flokkar samvinnu við Sjálfstæðismenn, svo að sennilega ætla þeir sjer ekki nú að fara því á flot við þá að taka sæti í nýju stjórninni.

Jeg get mjer því til, að þeir ætli að mynda stjórn með hv. flm. (JBald): hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 5. landsk. (JJ).

Mikið hefir verið um það talað, hvort jeg muni vera með þessari vantrauststill. eða ekki. Get jeg trúað, að mönnum sje forvitni á að vita um afstöðu mína til þessa máls. En það er nú svo, að mitt fylgi er bundið við höfuðstefnu Sjálfstæðismanna og fylgi stjórnarinnar við hana. Jeg get því ekki sagt um afstöðu mína til till. fyr en jeg veit undirtektir beggja, núverandi stjórnar og væntanlegrar stjórnar, undir þessi stefnumál. Því verð jeg að fá upplýsingar hjá væntanlegum hæstv. ráðherrum sjálfum, hvort jeg á að styðja þá til valda eða ekki. Jeg verð að fá að vita, hvernig þeir muni snúast við þeim málum, sem mjer og mínum flokki eru fyrir mestu.

Á þessu þingi hafa utanríkismál vor talsvert verið rædd, bæði um sendiherra í Kaupmannahöfn og einnig aðrar hliðar á þeim málum. Stefna Sjálfstæðisflokksins hefir jafnan verið sú, að vjer höldum sjálfir á utanríkismálunum og framkvæmum að fullu fyrirmæli Sambandslaganna um þau efni. Fyrirfram er jeg ekki viss um, að tilvonandi hæstv. stjórn verði viðráðanlegri í þessum efnum en sú, sem nú situr við völd, hversu ill sem hún annars kann að vera. Í síðasta tbl. „Tímans“ er hæstv. forsrh. (JM) m. a. hallmælt fyrir að hafa „mælt fast á þessu þingi fyrir stofnun sendiherraembættis aftur í Kaupmannahöfn“. Þetta kom líka fram í ræðu ritstjórans, hv. þm. Str., svo að ef hann verður höfuðkrafturinn í nýju stjórninni, þá hefi jeg enga trú á, að hún komi sjálfstæðismálum þjóðarinnar hærra en núverandi hæstv. stjórn.

Þó jeg hafi ekki með öllu verið ánægður með svör hæstv. forsrh. við fyrirspurnum mínum, þá verð jeg að segja, að jeg var ánægður með svar hans við 9. spurningunni, en hún skifti mestu máli í mínum augum.

Sjálfstæðismenn hafa altaf farið eftir málefnum, en ekki mönnum, og svo er enn.

Hæstv. forsrh. (JM) leggur yfirleitt kapp á, að 7. gr. sambandslaganna verði framkvæmd svo sem rjettur vor stendur til, og það er mjer áhugamál.

En „Tíminn“ og hv. þm. Str. telja utanríkismálin allra mála ómerkilegust og vilja vinna á móti því, að þeim sje kipt í viðunandi horf. Telja jafnvel afglöp af hæstv. forsrh. að mæla með sendiherra í Kaupmannahöfn. Jeg er nú sannfærður um, að sá sendiherra verður skipaður aftur innan skamms, sennilega ekki síðar en þótt fjárveitingartill. mín í því skyni hefði verið samþ. þetta veit jeg að hæstv. núverandi stjórn ætlar að gera, svo jeg geri það ekki umhugsunarlaust að stuðla að falli hennar, með það fyrir augum, að önnur stjórn taki við, sem vissa er fyrir, að gefur þessum áhugamálum mínum olnbogaskot.

Mig undrar, að hv. flm. (JBald), sem er gamall sjálfstæðismaður og reyndar nýr, eins og atkvgr. um sendiherrann sýndi, skuli ekki hafa skoðað huga sinn um þetta veigamikla atriði, áður en hann vill bregða fæti fyrir hæstv. stjórn. Þó veit hann vel, að hann getur ekki fengið aðra með sjer í nýju stjórnina en andstæðinga sjálfstæðismála þjóðarinnar. Ef til vill treystir hann því, að hann verði aðalkrafturinn í nýju stjórninni, en þá mun hann fá að reyna fallvelti veraldlegra hluta, ef til kemur.

Nú vil jeg fá að vita, hvort nýja stjórnin vill t. d. senda nú þegar sendiherra til Khafnar, og hvort hún ætlar þegar frá upphafi að láta útnefna einn ráðherranna sem utanríkisráðherra, og yfirleitt að aðhyllast stefnu mína og annara sjálfstæðismanna í utanríkismálum. Ef nýja stjórnin heitir öllu þessu, þá treysti jeg henni betur en þeirri hæstv. stjórn, sem nú situr, en annars ekki.

Jeg hefi talað allmikið um „nýju stjórnina“, enda þótt hv. þm. Str. hafi lýst yfir því af hálfu þess Íhaldsflokksins, sem kallar sig Framsóknarflokk, að hann ætli ekki að taka þátt í myndun nýrrar stjórnar, eins og nú standa sakir. Jeg fæ ekki sjeð, hvernig þingflokkur getur æskt stjórnarskifta, án þess að ætla sjálfur að taka við og gera betur en fráfarandi stjórn. Því ekki getur mönnum verið alvara að kasta öllum áhyggjum á kjósendurna og baka þjóðinni mörg hundruð þúsunda kr. kostnað, sem af nýjum kosningum stafar, þegar ekkert er til að kjósa um, annað en það, að Pjetur vill verða ráðherra, af því að hann getur ekki unt Páli heiðursins. Mjer fyrir mitt leyti stendur alveg á sama, hvor þeirra er ráðherra, Pjetur eða Páll, ef ekkert stefnumál ber á milli, en ekki er sjáanlegt, að svo sje hjer, nema ef vera skyldi, að stofna ætti til 6. umræðu um Krossanesmálið, þar sem farið var fram á, að Alþingi gerði sig að opinberum rógbera.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að hæstv. stjórn hafi lifað á einum kaupamanni, sem mjer er ekki kunnugt um hver er. (TrÞ: Það vita allir aðrir.). Ef hv. þm. á við mig og reiknar mjer málfræðidócentinn við heimspekideildina og sendiherrann í Khöfn í kaup, þá verð jeg að segja, að hæstv. stjórn lifir á óeigingjörnum kaupamanni. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje fremur kaup handa mjer en hverjum öðrum sæmilegum Íslendingi, að kensla í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands sje höfð í svo góðu lagi sem föng eru á. Hv. þm. (TrÞ) ætti ekki síður en mjer að vera það áhugamál. Og ekki getur það verið kaup handa mjer, þó að jafnsjálfsagt mál fái framgang og að sendiherraembættið verði aftur stofnsett í Khöfn, því aðrir en jeg munu hafa meiri hagnað af þeirri ráðstöfun.

En nú getur hv. þm. (TrÞ) reynt að ráða þennan kaupamann til sín, því jeg skal fylgja honum og hans stjórn, ef hann lofar að fylgja betur fram öllum sjálfstæðismálum þjóðarinnar en sú stjórn, sem nú situr. En það mun standa í honum, því að engan hefi jeg vitað jafnmótsnúinn öllum sjálfstæðismálum þjóðar sinnar sem hv. þm. Str., enda er það eðlilegt, þar sem hann er gamall heimastjórnarforngripur, sem hefir ekki einu sinni getað fylgst með Íhaldsflokknum, hvað þá meira.

Þá bar hv. þm. (TrÞ) á mig lof, sem jeg á ekki skilið, þar sem hann sagði, að minn stimpill væri á fjárlagafrv. því miður er þetta ekki rjett. Ef jeg hefði mátt ráða, þá hefði afgreiðsla fjárlagafrv. orðið með öðru móti. En e. t. v. er hv. þm. að syngja gamla sönginn úr „Tímanum“, að jeg sje eyðslusamur á ríkisfje. Hjelt jeg þó, að sá söngur yrði ekki sunginn hjer á Alþingi, þar sem jeg er viðurkendur mesti sparnaðarmaður þingsins. Jeg vil spara það, sem á að spara. En jeg vil ekki vera sálnamorðingi fyrir fáa aura, og jeg vil ekki heldur, að ríkið geri sig að sálnamorðingja. Og ef jeg gæti sett þann stimpil á fjárlögin, þá þætti mjer það stór kostur. En þessar litlu upphæðir, sem jeg hefi farið fram á til menta og lista, eru smáupphæðir, hreinasti hjegómi hjá því, sem margir aðrir hafa farið fram á til vissra stjetta. það er því til lítils að syngja þennan gamla söng og úthrópa mig á þennan hátt. Jeg neita því algerlega, að jeg hafi notað aðstöðu mína til þess að þröngva stjórninni. Það hefir ekki við neitt að styðjast. T. d. hjelt hæstv. fjrh. ræðu og lagðist á móti íshúsamálinu. Ekki var þar minn stimpill. það er hv. þm. Str. kunnugt um.

Hv. þm. (TrÞ) vill þingrof. Heldur finst mjer sá spámaður kynlegur, að vilja stofna til nýrra kosninga af hlægilegum ástæðum, sundurlyndi einu saman. Og til hvers? Til þess að sömu menn komi aftur. Eitt eða tvö sæti kunna að verða öðruvísi skipuð. En það verður langt þangað til nokkur stjórn situr hjer í trausti eins flokks. Það verður ekki fyr en eitthvert stórmál kemur, sem skiftir mönnum í tvo flokka.

Hv. þm. Str. sagði eitt orð satt í ræðu sinni, það, að þessir 95 dagar, sem af eru þinginu, væru ein samfeld vantraustsyfirlýsing á stjórnina. Já, þessi flokkur hefir komið því inn í hvert einasta mál. það hefir aldrei komið fyrir áður, að nauðaómerkilegt mál væri rætt í fulla 4 daga. Að þessu standa sparnaðarmenn. Hvað kostar þessi 95 daga vantraustsyfirlýsing?

Mjer er á móti skapi að þurfa að deila á hv. þm. (TrÞ), en jeg verð að gera það, þótt hann kæmi með afarmikla traustsyfirlýsing til mín sem og til hæstv. fjrh. það er eins og hæstv. fjrh. sje einn í stjórninni og jeg einn á þingi. þennan heiður get jeg ekki þegið.

En jeg ætlaði mjer að spyrja tilvonandi hæstvirta, hvort hún bjóði Sjálfstæðisflokknum betri framgang stefnumála sinna en sú, er nú situr. Jeg stend við það, að jeg hallast að henni, ef hún gerir það. En um traustið fer eftir samanburði við það, sem er. Landið getur ekki verið stjórnlaust. Þess vegna verða gætnir menn að stilla til og ekki stofna til óþarfra kosninga um mennina eina saman.