13.05.1925
Neðri deild: 79. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Magnús Torfason:

Jeg ætla aðeins að gera grein fyrir atkv. mínu, því að jeg átti óbeint þátt í því, að þetta „ministerium“, sem við höfum, heitir „Magnússen“, en ekki „Thorlaksen“. Ástæðan til þess, að jeg hallaðist að því, að núverandi forsrh. tæki við, var meðal annars sú, að hann hafði áður verið bræðingsráðh. og farist það eftir vonum sæmilega. Hann kunni manna best að sigla milli skers og báru, og eins og þingið var þá skipað, þurfti þess með. Jeg leit svo á, eins og á stóð, að best væri að fá hægfara íhaldsstjóra, og að það yrði þjóð og þingi best, og ekki síst fyrir þá sök, að búast mátti við megnum mótblæstri, sakir jafnra flokka. Til þess að gera nú betur grein fyrir þessu, skal jeg geta þess, að á uppvaxtarárum mínum var til skip, sem hjet „Pumpustokkurinn“. þetta var besta sjóskip og farsælasta fleyta, en sá ljóður var á því, að það gat ekki hálsað nema í jómfrúleiði. Vegna þess, hve oft mistókst að hálsa, var loks alveg hætt við það og sú regla upp tekin, að „kúvenda“. En „Pumpustokkurinn“ komst leiðar sinnar samt sem áður.

Nú þóttist jeg vita, að sú stjórn, sem kæmi, þyrfti oft að halda á gætninni og „kúvenda“. Og jeg hefi það álit á núverandi forsrh., að hann kunni þá list allra manna best, sem fæðst hafa á þessu landi. Jeg segi honum þetta ekki til lasts. Hjer er krappur sjór og um að gera að nota liggjandann. Og það má segja, að það þurfti að hafa þetta lag, ef störf þingsins áttu að verða að verulegum notum og kraftar þingsins að nýtast. Því þegar þing er skipað svo jafnliða flokkum sem nú, þá hættir nytsömum málum oft til að hjaðna í framkvæmdaleysi, vegna óvildar milli flokka. Jeg treysti honum sem sagt manna best til þess að verða forsrh. allrar þjóðarinnar, en ekki eins flokks, til þess að láta deilumálin liggja, en snúa sjer að því, sem helst var samkomulag um. En þessu trausti hefir hœstv. forsrh. alveg brugðist. Jeg man eftir honum, hvað hann var grátfeginn og fagur, þegar hann settist í stólinn. Þá var það aðalefnið í ræðu hans að „treysta guði og bíða góðs“. En stjórnin hefir bara ekki gert það. Hún hefir hvorki treyst guði nje beðið góðs. Að mínum dómi hefir stjórnin unnið fleiri skemdarverk en þarfa á þingi, ef frá eru tekin einstaka smámál, sem allir voru sammála um. Jeg skal nefna Ræktunarsjóðinn. Þetta frv. hefir þingið stórlega bætt. En stjórnin hefir reynt að spilla og ná úr þeim ákvæðum, sem nýtust eru. Það hefir farið svo, að mikill tími þingsins hefir gengið í það að verja þjóðina fyrir stjórninni.

Fyrir nokkrum árum fór jeg embættisferð norður á Strandir. Þegar jeg kom á Skorarheiði og sá ofan í fjörðinn, þá var sandurinn allur hvítur. Þetta voru skjannahvítir rekadrumbar. Ef jeg lít á sögu þessa bings, þá liggja frv. stjórnarinnar hjer eins og rekadrumbar á fjörusandi. Það hefir verið talað um það bæði fyr og síðar, en jeg vil að gefnu tilefni höggva dálítið í einn drumbinn.

Hæstv. forsrh. hefir í kvöld lýst hann sem sína eign. Jeg þarf ekki að lýsa því máli með öðru en því, að sjálft Íhaldið „væmdi við vofu slíka að gleypa“. Og það er von, því þetta er upphaf þess að innleiða hnefarjett í landinu. En með frv. sýnir líka Íhaldsflokkurinn, að honum er þrotin vörn um að fá meiri hluta í landinu, fremur en í nálægum löndum. Annars er frv. sem þetta ekki nýtt í sögunni. 1885 var flengingarfrumvarpið borið fram. Samkv. því áttu amtmenn að geta smokkað lögreglusamþykt upp á kaupstaðina án samþykkis bæjarstjórna. Og það var ekki einungis í bœjunum, sem átti að stofna lögreglulið, heldur úti í sveitunum. Þetta kom fram fyrir 40 árum og var angi af kúgunarstefnu Estrupsráðuneytisins. Það var borið fram í Ed., eins og flest skemdarfrv., en mótmælt einum rómi af þjóðkjörnum þm. og náði ekki að komast í nefnd. Þannig litu sjálfstæðismenn þeirra tíma á slík lög. Það vill nú svo vel til, að frv. um varalögreglu er borið fram á 100 ára afmæli Estrups gamla. Hvort það er gert til heiðurs honum, skal jeg ekki segja.

Það væri ástæða til þess að minnast nánar á eitt mál, guðlastsmálið, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um. Hæstv. forsrh. leit svo á, að ekki mætti treysta almenningsálitinu til þess að dæma í svona máli. Jeg held, að það sje alveg öfugt. En málið er þannig til komið, að lýsing kemur fyrir í ritdómi á skoðunum Austurlandabúa á Jahve Mósebókanna. Um hann er farið nokkuð hörðum orðum. En jeg hefi sjeð alveg samskonar lýsingu gerða alveg vítalaust af manni, sem er prestur í þjóðkirkjunni. Mig hrylti, er jeg las þá lýsingu. Georg Brandes hefir fyrir stuttu lýst Jahve, og sú lýsing er síst mýkri, og hneykslaði engan, að því er vitað er. Þess vegna furðaði mig dálítið á því, að hœstv. fjrh. (JÞ) skyldi hefjast handa til þess að andmæla þessu. Það hlýtur að vera af því, að Jahve Mósebókanna er guð að hans skapi. Jeg veit ekki betur en að sá maður hjer í bænum, sem þetta mál ætti að taka til fyrst og fremst, bœjarfógetinn, njóti almenns trausts, og hæstv. dómsmálaráðh. gat því vel látið hann um það að ákveða það, hvort koma skyldi fram ábyrgð á hendur þessum unga manni. Og það því fremur, sem jeg verð að líta svo á, að tilganginum verði síst náð með málshöfðun gegn þessum manni, ekki aðeins vegna þess, að almenningsálitinu er ætlað að dæma hann, heldur verður sú málshöfðun líka til þess að útbreiða ummælin og valda því, að miklu fleiri hneykslast en ella. Og jeg var satt að segja dálítið hlessa á hæstv. forsrh., að hann skyldi láta hafa sig til slíks. Mjer finst það svo ólíkt honum. Jeg veit og þekki það, að hann er maður miskunnsamur, og hann hefir jafnan orðið að taka það nærri sjer að refsa mönnum, og segi jeg það honum til hróss. Jeg held því, að þegar hann var að ákveða þetta, þá hafi einhver illur andi verið með honum.

Jeg get hugsað, að mönnum þyki það skrítið, að jeg skyldi hafa glæpst á því að mæla með hæstv. forsrh. í fyrra og kjósa hann fremur öðrum í þá stöðu, en til þess lágu þær ástæður, að jeg tel hæstv. forsrh. frekar vel innrættan, þegar hann fær að ráða sjer sjálfur. En hæstv. forsrh. hefir aldrei hrundinn maður verið, enda ber raun vitni, að hann hefir alveg orðið að hliðra til fyrir nafna sínum.

Hvað snertir hæstv. atvrh. (MG), þá œtla jeg ekki að snúa mjer neitt að honum. Það hefir aldrei verið siður minn að leggjast á lítilmagnann. Það er líka svo auðsjeð, að hæstv. fjrh. skoðar hann aðeins sem skrifstofudreng sinn. Að svo sje, er auðsætt af því, að hann hefir ekki einu sinni tekið til máls, þegar verið var að drepa fyrir honum hans hjartfólgnustu afkvæmi.

Þá kem jeg að sjálfu háfjallinu, hæstv. fjrh. Honum verður ekki brugðið með rjettu um athafnaleysi, en frekar um það, að athafnirnar sjeu misjafnar. Jeg sagði um hann í fyrra, er jeg kom af þingi, að hvað sem öðru liði, þá færi enginn í skúffuna hjá honum. En nú get jeg ekki sagt það sama. Að vísu er hann enn sparnaðarmaður á smámuni, en jafnframt hefir hann gerst djarftækur og seilst djúpt í vasa landssjóðs um fríðindi handa vinum sínum. Á jeg hjer sjerstaklega við tekjuskattsfrv. hans. Það hefir verið sagt áður og var nú endurtekið af hæstv. fjrh., að það væri ekki honum að kenna, hvað tekjuhallinn væri nú mikill á þessum fjárlögum, sem nú er verið að afgreiða. En jeg held, að hann eigi samt mesta sök á því, vegna þess, að eftir það, að hann bar fram tekjuskattsfrv. sitt, þá hættu þingmenn að taka sparnaðarhjal hans alvarlega. Þegar hann átti frumkvæði að því að fleygja burt úr landssjóði yfir 1/2 miljón kr., þá virtist þingmönnum, að þeim væri ekki eins skylt að spara. Úr því hæstv. fjrh. fleygði krónunni, þá fanst þeim sjer ekki skylt að spara eyrinn. En það, sem jeg hefi sjerstaklega út á hæstv. fjrh. að setja, er þetta, að hann hefir án neinnar nauðsynjar afnumið steinolíu- og tóbakseinkasöluna, og þá fyrtöldu á þann hátt, að varla má þinglegt kalla. Jeg skal ekki tefja tímann með því að fara nú út í það mál. Það væri að bera í bakkafullan lækinn. En það dylst engum, að sökin í þessu atriði er mest hjá hæstv. fjrh., því þótt annar maður sje að nafninu forsrh., þá er hann í raun og veru höfuð stjórnarinnar.

Eins og menn vita, er þetta þing sögulegt fyrir þau mörgu stjfrv., sem hafa verið drepin, en þó hafa mörg stjfrv. gengið í gegnum þingið. Í öðrum löndum er það siður, þegar stórmál eru leidd til lykta, að stjórnin leitar eftir því, hvernig þjóðin lítur á slíkar ráðstafanir. Nú verður því ekki neitað, að stjórnin hefir brotið á bak aftur ýms stefnuatriði fyrverandi stjórna, og því hefði ekkert legið nær en það, að hún kveddi sjer nú hljóðs og óskaði þess, að þjóðin dæmdi um það, hvort hún hefði gert rjett eða rangt. En stjórnin hefir nú lýst yfir því, að hún vilji ekki efna til nýrra kosninga. Og af því vil jeg draga þá ályktun, að hún líti sjálf svo á, að verk hennar sjeu ekki vel þokkuð með þjóðinni. Því jeg er ekki í neinum vafa um það, að ef hún teldi sig vel þokkaða með þjóðinni, þá mundi hún undir eins skjóta sínum málstað undir hana, til þess að fá sterkari aðstöðu en hún á nú að fagna. Þetta er líka eðlilegt, því stjórnin hefir ekki fylgt hugsjónum og stefnu Íhaldsflokksins yfirleitt, heldur aðeins þess hluta flokksins, sem ríkastur er og mest hefir völd. Hún mun því fara nærri um það, að það sje ekki holt fyrir hana að leggja sig á skurðarborð þjóðarinnar.

Út af þessu, sem jeg hefi nú sagt hjer, þá er það sjálfsagt, að jeg get ekki annað en greitt atkvæði með þeirri till., sem hjer er fram komin. En því vil jeg lýsa yfir, að jeg hefði langhelst kosið, að stjórnin hefði, án þess að til vantrausts kœmi, leyst upp þingið. En til þess er hún ófáanleg, og verð jeg þá að líta svo á, að með þessu hafi hún dæmt sig sjálf.