14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í D-deild Alþingistíðinda. (3282)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg skal fyrst víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh. (JM) og ræðu hans. Hann bar ekki neitt fram um það, hvernig atkvgr. í Krossanesmálinu var. (Atvrh. MG: því skal jeg svara). Jeg skildi líka hæstv. forsrh. svo, að hann væri mjer sammála og á móti hæstv. atvrh. (MG). Annað þarf jeg ekki að rekja um rœðu hans; hann var yfirleitt spakur og hafði ekki margt fram að færa.

Öðru máli var að gegna um ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), sem talaði af miklum móði og hjelt hjer aðalvarnarræðuna fyrir stjórnarinnar hönd. Mun ýmsum hv. þm. hafa fundist sem hann væri búinn að taka við stjórnartaumum. En þótt svo sje nú ekki, þá er þó sýnilegt, að stjórnin etur hæstv. fjrh. fyrir sig, eins og t. d. í steinolíumálmu, þegar hann var látinn gefa yfirlýsingu um það, hvernig stjórnin sneri sjer í því máli. Jeg skil, hvernig þetta var. Hæstv. fjrh. var í vondu skapi út af meðferð fjárlagafrv., og hæstv. forsrh. var nógu klókur til þess að sjá, að yfirlýsing þessi var svo heimskuleg, að sjer væri ekki sæmandi að bera hana fram, en gilti hinsvegar einu, þótt hæstv. fjrh. hlypi af sjer hornin. Og jeg veit, að hæstv. forsrh. hefir hlegið í hjarta sínu, þegar hæstv. fjrh. varð að taka yfirlýsinguna aftur. En hitt veit jeg, að með sjálfum sjer finnur hæstv. forsrh. til yfirdrotnunar hæstv. fjrh., og jeg get vel unt honum þess ama.

Hæstv. fjrh. byrjaði ræðu sína í gær með skáldlegri líkingu og sagði, að það væri ljeleg húsmóðir, sem framreiddi vatnsgraut með vatni út á. Jeg skil það, að hæstv. ráðh. (JÞ) muni láta vel að tala um þetta, því það minnir hann á efni, sem hrært er út í vatni og jeg þykist vita, að honum sje mjög kært. En annars er það einkennilegt, hvað honum er tamt að nota vatnið í öllum sínum samlíkingum. Þannig man jeg, að í umræðunum um vantraust 1921 líkti hann einni ræðu þáverandi og núverandi 4. þm. Reykv. (MJ) við vatn eða slepju. Vill hann líklega því fremur nota þessa líkingu um aðra, að stundum hefir það verið um hann sagt, að honum hafi gengið illa að fá vatnið til að renna í pípurnar.

Þá skal jeg víkja að því, að hæstv. fjrh. sagði, að jeg hefði farið með ósannindi í Krossanesmálinu, og hjelt því fram, að fyrverandi stjórnir hefðu ekki látið sig þetta mál neinu skifta, en nú hefði núverandi stjórn sýnt þá röggsemi að láta löggilda mælikerin í Krossanesi, til að koma í veg fyrir svik framvegis. Þetta er engin afsökun frá hans hálfu, heldur er það óbein játning um það, að svik hafi átt sjer stað í Krossanesi. Og hafi þessi svik átt sjer stað lengi áður, þá var því meiri ástæða til þess að fara hörðum höndum um þá, sem að þessum svikum kunna að hafa verið valdir. Og engin afsökun fyrir núverandi stjórn, þótt þetta hafi viðgengist undir fyrri stjórn.

Hæstv. ráðh. (JÞ) kvað það skifta í tvö horn að vera að tala um Krossanesmálið og guðlastsmálið í sömu andránni. Það má vel vera, að jeg hefði ekki minst á guðlastsmálið, ef jeg hefði ekki haft Krossanesmálið til samanburðar. Annarsvegar er hjer smámál, sem stjórnin hefir höfðað gegn ungum mentamanni fyrir grein í blaði, en hinsvegar eru stór viðskiftasvik, sem eru látin óátalin. Það var því ekkert ósamræmi í minni ræðu, þótt jeg mintist á þetta tvent samtímis, því að hefði stjórnin sýnt af sjer rögg í stærri málunum, þá hefði minna verið talað um smámálin. Út af guðlastinu sagði hæstv. fjrh., að jeg vildi heldur veita Mammoni fylgi mitt en öðrum. Mun honum vera manna kunnugast um það, hvernig á að fara að því, og má hann því djarft úr flokki tala.

Þá kom hæstv. fjrh að skattalögunum, og get jeg vel skilið, að hann sje ekki ánægður með þá meðferð, er tekjuskattsfrv. hefir orðið fyrir. Jeg vorkenni honum, að hann skyldi ekki koma frv. í gegnum þingið, eins og hann ætlaði sjer, því að þegar til hv. Ed. kemur, þá kemur þessi skolli fyrir, að brestur hinn mikli flótti í lið stjórnarinnar, þegar menn fara að rýna í skattaframtalið og sjá, hve miklu munar. Þetta eitt, að hæstv. fjrh. fjekk blekt hv. Nd. til þess að samþ. frv., þótt hann hefði gleymt að afla sjer upplýsinga um málið hjá skattstofunni, gæti eitt út af fyrir sig verið nóg vantraustsefni á hæstv. stjórn. Hæstv. fjrh. mintist lítið á það, sem er aðalatriðið í þessu máli, að stjórnin var með frv. að gefa fáeinum efnamönnum eftir skatt. En flokksmönnum hæstv. ráðh. í Ed. til lofs skal það sagt, að þegar þeir sáu, hve stórgjöfull hann var, þá var þeim nóg boðið.

þá mintist hæstv. fjrh. á tóbakseinkasöluna og hjelt því fram, að í reikningum hennar væri skekkja, er munaði 1/4 miljón. Jeg vil nú segja, að best er úr því sem komið er, að reynslan skeri úr um það, hvort ríkissjóður tapar ekki á breytingunni. Og mjer kæmi það ekki á óvart, þótt það yrði 1/4 miljón, sem ríkissjóður tapar, og önnur 1/4 miljón, sem landsmenn verða á næsta ári að greiða til kaupmanna vegna hærra verðs. En þetta sýnir sig í framtíðinni.

Hæstv. fjrh. sagði, að jeg væri í sárum út af steinolíumálinu. Jeg skal játa það, að mjer þykir leitt, hvernig þessu máli er komið, þó ekki vegna flokksbræðra minna, sem hafa þar atvinnu, eins og hæstv. ráðh. hjelt fram. En jeg er í sárum út af því, að nú á að fara að ryðja um koll því fyrirkomulagi, sem hefir sýnt sig hentugt fyrir landsmenn, og verðlag á þessari nauðsynjavöru hefir verið betra en hægt er að búast við í frjálsri samkepni. Hitt hefi jeg fallist á, að í einstökum tilfellum gæti það komið fyrir, að einstakir menn á bestu höfnum landsins gætu ef til vill náð betri kjörum um steinolíukaup heldur en hjá Landsverslun, en þá mundi það ganga út yfir hina smærri, sem eru á útkjálkum landsins. Og ef einstakir útgerðarmenn ættu að geta keypt olíu beint frá útlöndum, þá yrðu bankarnir að vera ríflegri á fjárútlát en verið hefir. Og þegar Steinolíufjelagið er komið hjer inn aftur, þá verða menn að sæta því verði, sem upp er sett, hvað svo sem yfirlýsingum hæstv. fjrh. viðvíkur. Og það mun ekki hugsa um það að birgja landið að öllu leyti, og yrði því Landsverslun að sitja uppi með verstu staðina og sjá þeim fyrir birgðum.

Hæstv. ráðh. (JÞ) gerði samningana við B. P. Co. að umtalsefni, en þær tölur, sem hann fór þar með, á hann eftir að sanna að sjeu rjettar, og allan samanburð á því, hvort við gætum fengið olíu ódýrari á annan hátt, vantaði alveg. En hitt þykir mjer dálítið einkennilegt, að hæstv. stjórn skuli koma með árásir á þá stofnun, sem undir hana er gefin, og reyna að gera tortryggilega skýrslu hennar um rekstur fyrirtækisins.

Þá skal jeg víkja að því, er hæstv. fjrh. sagði, að hann og stjórnin hefðu gert mikið fyrir verkamenn og sjómenn. Hann kvaðst vilia hlynna að atvinnurekendum, svo að þeir væru þess megnugir að veita verkalýðnum atvinnu. En bað er nú alkunna, að eftir því sem peningar safnast á færri hendur, því meir eru þeir notaðir til þess að þröngva kosti verkalýðsins, og jeg fæ ekki sjeð, að það efli velmegun hans. Og er kannske skattapólitík stjórnarinnar til þess að ljetta hag verkalýðsins? þar er verðtollur, gengismismunur og alt eftir þessu. Það stoðar ekki hót, þótt verkalýðurinn fyrir samtök sín fái sæmilegt kaup, ef það er alt tekið af honum aftur í sköttum, beinum eða óbeinum, og allskonar álögum. En þetta er stefna stjórnarinnar, sem hælir sjer af að vera verkalýðnum holl.

Þá hrósaði hæstv. fjrh. sjer af því, að hann hefði fengið eins mörg verkamannaatkvæði og jeg við síðustu kosningar. Hann getur nú ekki sagt um það, hve mörg verkamannaatkv. hann hefir fengið, því að það var fleiri mönnum til að dreifa á listanum en honum. En við getum tekið til dæmis kosningarnar 1921. Þá fjekk hann 14–1500 atkv., en jeg um 1800. Ef hann reiknar út eins og hann gerði í gær, þá lítur ekki út fyrir, að hann hafi þá fengið mörg verkamannaatkv., heldur hafi sárafáir fylgt honum af þeim. eins og að líkum lætur.

Þá kem jeg að því, er hæstv. ráðh. talaði um vald deildanna. Vildi hann telja Ed. jafnrjettháa um úrslit fjárlaganna og Nd. Jeg get ekki sannfærst um, að það sje rjett hjá honum. Segir hann það víst af því, að hann veit, að Íhaldið er í meiri hluta í Ed. Hann tók sem dæmi, að ef fjárlögin kæmu fyrir sameinað þing. Þá gæti Ed. ráðið því, að allar brtt., sem fram kæmu við gerðir hennar í sameinuðu þingi, yrðu feldar með jöfnum atkvæðum, 21 á móti 21. Hjer hlýtur hann að skifta eftir flokkum, en ekki eftir deildum, því þá sjá allir, að Nd. á að ráða, ef menn á annað borð sjá, að 28 er meira en 14. En annars skil jeg ekki vel, hvernig hann fær atkvæðatöluna 21 á móti 21, ef hann skiftir eftir flokkum. Mjer vitanlega eru ekki nema 20 menn í Íhaldsflokknum, og hann getur varla reiknað með atkvæði hv. þm. Dala. (BJ) í sameinuðu þingi í atkvgr. um fjárveitingar. Þetta bendir til, að einhver nýr maður hafi bæst í hópinn, ef nokkuð er að marka þessar bollaleggingar, sem annars voru ærið óljósar.

Þá mintist hæstv. ráðherra á varalögregluna og sagði, að mjer væri ýtt út á móti henni, en væri í hjarta mínu með aukning lögreglunnar. Ef hann á við, að flokksmenn mínir sjeu á móti aukning lögreglu yfirleitt, þá vil jeg benda honum á það, að í bæjarstjórninni eru 5 sósíalistar, og þeir hafa altaf verið með aukning á hinni föstu embættislögreglu bæjarins, en íhaldið barist á móti, þar á meðal ráðherrann sjálfur, meðan hann átti sæti í bæjarstjórn. Hann og hans flokksmenn vilja fá pólitíska vikapilta til snúninga, en ekkert hafa að gera með fasta embættislögreglu.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að svara hæstv. ráðherra fleiru; ástæður hans voru svo veigalitlar.

Þá skal jeg víkja að hv. þm. Dala.(BJ). Mjer kom það undarlega fyrir sjónir, hvernig hann snerist í þessu máli. Hann vildi forvitnast um, hverjir ættu að taka sæti í hinni nýju stjórn. Það vill nú svo einkennilega til, að hv. þm. Dala. hefir áður flutt vantraust á stjórnina, eins og jeg, og jeg hefi sniðið mig nokkuð að dæmi hans. Jeg hafði með vilja enga greinargerð, svo að hver gæti greitt atkvæði frá sínu sjónarmiði. Hv. þm. Dala. fór að á sama hátt 1921. Ef hv. þm. Dala. var þá spurður, hver ætti að taka við, svaraði hann, að hann gæti ekki um það sagt fyr en þetta væri útkljáð og búið að samþykkja vantraustið. Jeg verð nú að svara honum því sama, en mjer finst bara undarlegt af hv. þm. Dala. að spyrja, er hans fordæmi er fylgt. Ef vantraustsyfirlýsingin verður samþykt, finst mjer eðlilegast, að nýjar kosningar fari fram. En jeg gat þess líka í fyrri ræðu minni, að jeg vildi, að þessi stjórn færi frá völdum, þó að önnur íhaldsstjórn tæki við, því að verri gæti hún aldrei orðið. Jeg skal játa, að það var ekki að litlu leyti vegna þess, að jeg las umræðurnar um vantraustið 1921, að jeg bar þessa vantraustsyfirlýsingu fram, er jeg sá, hverju forsætisráðherrann þáverandi, sem enn er forsætisráðherra, svaraði hv. þm. Dala. Mjer skildist það á hv. þm. Dala. í gær, að hann styddi núverandi stjóra, meðan enginn byði betur. Nú skal jeg í þessu sambandi leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp kafla úr ræðu hæstv. forsrh. (JM), er hann svaraði hv. þm. Dala. á þingi 1921. En hann er svohljóðandi:

„Það er satt, að jeg hefi aldrei óskað eftir stuðningi frá þeim flokki, sem hv. þm. telst til, eða er foringi fyrir. Og þótt mjer geti þótt vænt um stuðning einstakra manna úr þeim flokki, þá vil jeg segja hv. þm. (BJ) það, að jeg mundi álíta mig á skakkri braut, ef hann styddi mig“.

Þetta segir nú forsrh. 1921. Nú er það sannað í málinu, að hv. þm. Dala. styður stjórnina, og því er stjórnin, eftir orðum forsrh., á skakkri braut. Og sú stjórn, sem er á skakkri braut, á að víkja frá völdum. Það verður ekki lengra vitnað en í ummæli forsrh. sjálfs. Hann játar það, að hann sje á skakkri braut, og jeg skil ekki í því, eftir því sem komið er á daginn, að hann geti haft nokkuð á móti því, að vantraustsyfirlýsingin verði samþykt.

Hv. þm. Dala. setti hugsjónir sínar á uppboð. Einn — tveir — og — býður nokkur betur? Mjer þótti þetta leitt, ef hann talaði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, vegna gamals velvilja, er jeg ber til þess flokks. En sem betur fór, var svo ekki, því að annar maður úr þeim flokki hefir nú talað og lýst sig algerlega ósammála hv. þm. Dala. Því er þessi uppboðsauglýsing aðeins upp á hans eigin reikning. Jeg þarf honum engu meiru að svara, jeg geri ekkert boð í hann, jeg býst ekki við að mynda stjórn og þarf ekki, frekar en hv. þm. Dala. 1921, að benda á menn til þess að fara með völdin.