14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg gat þess í niðurlagi máls míns, þegar jeg gerði grein fyrir atkvæðum okkar Framsóknarmanna, að jeg byggist ekki við að taka aftur til máls. Jeg gæti líka látið það vera, en jeg kann varla við það, eftir að hafa setið undir fjórum ræðum ráðherranna og aðstoðarmanns þeirra, sem að mestu leyti var beint til mín. En jeg skal vera stuttorður.

Jeg vík þá fyrst að því, sem síðast var frá horfið, að hinni einkennilegu ræðu hæstv. forsrh. (JM). Jeg spurði sjálfan mig hvað eftir annað, hvort við værum ekki staddir um borð í Esju eða Gullfossi í veislu, sem hálfvegis var ráðgerð, og jeg væri að hlusta á skálaræðu fyrir hæstv. fjrh. (JÞ), því að þetta var skálaræða. (Forsrh. JM: Ekki fremur en ræða hv. þm. Str.) Hæstv. forsrh. vitnar í mín orð. Jeg þarf ekki að taka neitt aftur af því, sem jeg sagði um hæstv. fjrh. Jeg lofaði hann fyrir þrótt hans. Ráðherrann má gjarnan taka það sem hrós. Jeg stend við það, að jeg tel hæstv. fjrh. mestan mann síns flokks, og hann hefði gjarnan mátt verða forsætisráðherra. Nú hefir hæstv. forsrh. tekið í þetta og lýst sig undirmann hans. En enginn hefir tekið í það, sem jeg sagði, að allur dugnaður hæstv. fjrh. beindist að því að koma vondum málum áleiðis. Þannig var mín lýsing. Jeg sýndi, hvernig hann berðist fyrir hagsbótum ríkissjóðs, en hirti ekki um, þó að almenningur liði. Jeg játa yfirburði hans í flokknum, en jeg harma, að hann skuli nota þá svo illa sem raun er á orðin. Það er talað um í bók, sem hæstv. atvrh. (MG) vitnaði í áðan, að þeir, sem trúað er fyrir miklu, eigi ekki að fara illa með, og að á þeim hvíli því meiri skylda að fara vel með sitt pund.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. fjrh. Hann játaði, að rjett væri rökfærsla mín um það, hvers vegna Framsóknarflokkurinn hefði ekki komið með vantraustsyfirlýsingu, en greiddi þó atkvæði með vantrausti. Þó gat hæstv. fjrh. ekki stilt sig um að taka upp úr blöðum, miður virðulegum, slettur, sem standa þar um Framsóknarflokkinn. Hann sagði, að við fylgdum að sjálfsögðu „foringja“ okkar, hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Jeg skal leyfa mjer að minna hæstv. fjrh. á annað skifti, þegar vantraustsyfirlýsing var á ferðinni. Það var á þingi 1911, að núverandi forseti þessarar deildar (BSv) bar fram vantraust á hendur Birni Jónssyni. Þá var það Jón í Múla, sem rökstuddi afstöðu Heimastjórnarflokksins. Þá greiddi hann, Hannes Hafstein og núverandi forsrh. (JM) atkvæði með vantraustsyfirlýsingu, sem annar flokkur bar fram. Samkvæmt rökleiðslu hæstv. fjrh. ætti þá núverandi forseti að hafa verið foringi þessara þriggja manna. Hvernig gat hæstv. fjrh. dottið annað í hug en að við greiddum atkv. með vantraustsyfirlýsingunni? því þurfti hann að sletta því til okkar, að við fylgdum „foringja“ okkar, hv. 2. þm. Reykv.?

Það, sem mjer þótti merkilegast í ræðu hæstv. fjrh. og minst mun verða um alt land, var það, sem hann kom inn á afgreiðslu fjárlaganna á þessu þingi. Hann hefir altaf brýnt fyrir okkur sparsemi. En nú, þegar fjárlögin eru afgreidd með talsverðum tekjuhalla, lýsir hann ánægju sinni yfir þeim og segist fúslega taka við þeim. Hann hefir þannig lýst fjárlögunum á hendur sjer og tekur að sjer að bera ábyrgð á tekjuhallanum. Jeg hefi áður sagt, að hæstv. fjrh. væri hreinskilnastur af ráðherrunum. Hann hefir verið það núna líka, og segi jeg honum það til hróss.

Jeg ætla ekki að fara inn á einstök atriði. Út af því, sem hæstv. fjrh. sagði viðvíkjandi tekjuskattsfrv., að rjett væri að gefa fjelögunum ívilnun frá óvenjulega harðri skattalöggjöf, skal jeg minna hann á, að það er hæstv. atvrh. (MG), sem hefir komið á þessari óvenjulega hörðu skattalöggjöf. (Atvrh. MG: Já, á mjög örðugum tímum fyrir ríkissjóðinn). Síðast kom hæstv. fjrh. með nokkuð, sem jeg skildi ekki. Hann minti á ummæli hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) um Ræktunarsjóðinn. Jeg vissi ekki vel, hvað hæstv. fjrh. meinti. Jeg held, að hann hafi viljað segja, að hann hafi fengið þarna lof, og ætlað að státa af því að hafa unnið mikið þarfaverk. Jeg verð að segja, að mjer þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn og skíturinn með, eins og hæstv. atvrh. (MG) sagði svo fagurlega áðan, ef hæstv. fjrh. œtlar að eigna sjer þetta mál. Allir vita, að upptökin voru stofnun búnaðarlánadeildarinnar. Síðan sendi stjórnin Búnaðarfjelagi Íslands frv. um nýja veðdeild. Stjórn Búnaðarfjel., sem jeg á einn sæti í af þeim, sem hjer eru, skipaði nefnd til þess að bæta um þetta frv., sem öllum kom saman um að væri óhæfilegt. Stjórnin feldi svo úr því frv. það, sem mest var um vert, en jeg bar fram annað frv., sem líklegt var til gagns. Útkoman varð sú, að flest, sem gott er í þessum lögum, er komið úr mínu frv. Því þykir mjer skrítið, þegar hæstv. fjrh. (JÞ) fer að státa af þessu máli. Jeg ætla ekki að státa af minni hlutdeild. Jeg get sagt, að mjer þykir gott, hve langt hæstv. fjrh. hefir látið teygjast, en jeg þoli ekki að heyra, að hann eigni sjer þetta mál, því að minst gott hefir hann til þess lagt og síst óneyddur.

Jeg þarf aðeins að drepa á Krossanesmálið. Við Framsóknarmenn flytjum ekki þessa tillögu og þurfum ekki annað en að gera grein fyrir afstöðu okkar. En það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. svo einkennilegur hlutur, að jeg verð að minnast á hann, og leyfi mjer svo að heimfæra aftur orð úr bókinni, sem hæstv. atvrh. (MG) vitnaði í. Jeg hefi aldrei sjeð glöggar en hjer, hvernig mönnum getur þótt sómi að skömmunum, þegar ráðherrann var að lýsa því, hve embættisbræður hans hefðu gengið vel fram í Krossanesmálinu og kipt þar öllu í lag. En sannarlega hefir stjórnin í því máli ekkert gert annað en hylma yfir svikin og breiða yfir allar skammirnar.

Jeg stóð annars ekki upp vegna þess, sem ráðherrarnir sögðu, heldur vegna ummæla hv. þm. Dala. um afstöðu mína og flokksbræðra minna. Það, sem virtist hneyksla þennan hv. þm. (BJ) mest, var það, að jeg skyldi víkja að því, að fara þyrftu fram nýjar kosningar. Það var sparnaðarmaðurinn úr Dölum, sem lýsti því yfir, að hann væri á móti nýjum kosningum af sparnaðarástæðum. Jeg hefi ekki nent að fletta upp í blöðum eða Alþingistíðindunum. En jeg gæti bent á fjölmarga staði, þar sem hv. þm. Dala. leggur áherslu á, hve nauðsynlegt sje að fá að vita vilja þjóðarinnar. Nú er svo komið, að þessi hv. þm. vill ekki nýjar kosningar vegna kostnaðarins. Jeg skal taka það fram, að jeg lái ekki hv. þm. Dala., þó að honum sje illa við nýjar kosningar. Eftir framkomu hans hjer á þingi þarf enginn að óttast þær meir en hann. Hv. þm. (BJ) nefndi líka aðra ástæðu, þá, að hjer væri ekki um nein stefnumál að ræða. Mjer þykir einkennilegt, að reyndur og gamall þingmaður skuli mæla svo. Ekki mundi hæstv. fjrh. hafa sagt þetta. Skattamál og fjármál eru aðalstefnumál í öllum löndum. Aldrei fyr hefir komið fram hjer eins harðvítug íhaldsstefna í fjármálum og skattamálum og nú. Því hefir aldrei verið eins rík ástæða og nú til þess að spyrja þjóðina, hvort hún vill halda þessari stefnu framvegis. Mjer þykir sorglegt, þjóðarinnar vegna, að hún skuli þurfa að stynja undir þessu stjórnarfari enn um hríð. En hinsvegar játa jeg, að hún verður búin að átta sig betur eftir að svipan hefir dunið á henni í tvö ár.

Jeg ætla að víkja að einu atriði enn, til þess að lofa mönnum að brosa. Hv. þm. Dala. (BJ) fetti sig og sagði: „Hjá okkur Sjálfstæðismönnum er það altaf stefnan, sem ræður“. Já stefnan sú hefir nú verið greinileg, t. d. í verslunarmálunum og í tekjuskattsmálinu, Krossanesmálinu o. fl. Af því að í hlut á gamall og elskulegur kennari minn ætla jeg ekki að hafa um þetta harðari orð. (BJ: Enga hlífð þess vegna). Jeg hlífi hv. þm. sem gömlum kennara, eins og hann segist hlífa mjer sem gömlum lærisveini. Hjer er bara um uppboð að ræða. Hv. þm. bauðst til þess að fylgja mjer, ef jeg vildi fylgja honum í sendiherramálinu o. fl. En hv. þm. gleymdi því, að jeg lýsti því yfir, að þó að vantraustið yrði samþ., mundum við ekki vilja mynda stjórn, af því að við gœtum ekki myndað styrka stjórn. Því þýddi ekkert fyrir hv. þm. (BJ) að bjóða mjer sig, því hann vissi, að jeg mundi ekki vilja hann. Hann mintist aftur á, að hann hefði boðið þetta sama í fyrra. En hann vissi, að við vildum ekki starfa með honum að stjórnarmyndun, og jeg hjelt, að jeg þyrfti ekki að segja honum, að við viljum það ekki enn og gerum ekki ráð fyrir að vilja það síðar.

Fyrir þessi fáu orð, sem jeg ljet falla í garð hæstv. atvrh. (MG), hefir hann haldið yfir mjer langa ræðu, og það leyndi sjer ekki, að það voru talsverð særindi undir í þeim orðum, og sannaðist þar hið fornkveðna: Svíður sárt brendur. Þau orð, sem jeg ljet falla, voru aðallega í þá átt, að jeg kendi í brjósti um hæstv. atvrh., og jeg get gjarnan. látið það í ljós aftur, að jeg kenni í brjósti um hann fyrir það hlutskifti, sem hann hefir valið sjer á Alþingi. Þótt jeg standi í deilum við hæstv. atvrh., þá skal jeg játa, að mjer er persónulega hlýtt til mannsins, og jeg hefði mjög gjarnan kosið, að hann hefði valið sjer betra hlutskifti um þau mál, sem hafa legið fyrir þessu þingi. Hæstv. atrvh. veit, hvernig hans framkoma á þessu þingi verkar á álit hans úti um landið, og að það hefði verið heillavænlegra fyrir hann, hefði hann látið sannfæringu eina ráða í ýmsum málum — því jeg veit, að hann hefir sannfæringu einhversstaðar í fórum sínum — en hefði ekki lotið annarlegu valdi. (Atvrh. MG: Veit hv. þm. betur um sannfæringu mína en jeg sjálfur?). Hæstv. atvrh. hefir sjálfur sagt frá sannfæringu sinni í tóbakseinkasölumálinu. Hann bar sjálfur fram frv. um einkasöluna, og síðan, þegar hún er búin að standa nokkur ár, lýsir hann því yfir, að allar vonir sínar um hana hafi ræst. Við 1. umr. þess máls segist hann aðeins greiða atkv. með til 2. umr., sem altaf þýðir á þingmáli, að þm. er mótfallinn málinu. Svo við 3. umr. veltur úrskurður málsins á hans atkv. (Atvrh. MG: Jeg greiddi ekki atkv.) Nei, hæstv. atvrh. greiddi ekki atkv., en það þýddi í raun og veru sama sem mótatkvæði gegn einkasölunni í þessu tilfelli. Við getum náttúrlega deilt um það, hvor okkar hæstv. ráðherra sje kúgaðri, en jeg skírskota til hv. deildarmanna og allra áheyrenda, hvort hægt sje að sýna utan á sjer öllu greinilegri merki kúgunar en hæstv. atvrh. hefir sýnt í tóbakseinkasölumálinu. Sama má segja að ætti sjer stað í steinolíumálinu, þótt það kæmi ekki eins ljóslega fram, en hann sýndi það sjerstaklega með því, að hann, sem hefir þessa stofnun undir sjer, segir ekki eitt einasta orð við þessar umræður. (Atvrh. MG: það var nógur vaðall í þeim umræðum). Satt var það, að umræður urðu langar, en mjer finst samt sem áður, að sá ráðherrann, sem er yfirmaður einhverrar stofnunar, eigi að leyfa sjer að tala, þegar um hana er rætt, ef hann hefir einhverja skoðun á málinu. Þetta má merkilegt heita, sjerstaklega af því, að hann varð til þess að koma því máli í gegn. Fleiri dæmi þessu lík gæti jeg tínt til, en hirði ekki um það að sinni.

Jeg skal játa það fúslega, að jeg hafði talið það alveg víst, að við í Framsóknarflokknum mundum koma með vantraustsyfirlýsingu. Jeg taldi það svo víst, af því að jeg er í eðli mínu svo bjartsýnn, að jeg vildi alls ekki trúa því, að landið ætti að búa lengur við þessa mjög svo óhæfu stjórn, sem jeg trúi að sje. Jeg hafði það traust til míns gamla vinar, hv. þm. Dala., að jeg vildi ekki trúa því, að hann ljeti sig henda þau ósköp á gamalsaldri að halda lífinu í slíkri stjórn. Svo kom það á daginn, að hv. þm. Dala. sýndi sig í verkinu vera svo rótgróinn íhaldsmann, sem hægt er að vera, í skattamálum og fjármálastefnu, þó að hann sje eyðslumaður. Jeg játa, að þarna hefi jeg orðið fyrir vonbrigðum.

Þótt jeg væri búinn að gefa í skyn, að jeg mundi koma með vantrauststillögu — þó sagði jeg það ekki berum orðum — þá fanst mjer við nánari athugun rjettara að gera það ekki, af því að jeg vissi, að hún mundi ekki ganga fram. Jeg taldi rjettara af mjer sem þingmanni að vera ekki að stofna til þess að lengja þingið. En það, sem hefir breyst hjá mjer, er það, að von mín hefir brugðist sjerstaklega um hv. þm. Dala. Af því tek jeg mína stefnu, og hæstv. ráðherra getur ásakað mig fyrir það, ef hann vill.

Jeg hefi tilhneigingu til að víkja að mörgum atriðum, sem hæstv. atvrh. hefir vikið að, en ætla að sleppa því, nema rjett einu. Hæstv. atvrh. var að státa af sínum stjórnarafrekum og kvað stjórnina hafa komið fram mörgum málum. Hæstv. atvrh. má minnast þess, að merkustu málin, sem stjórnin, hefir komið fram, eru þau, að rífa niður verk hæstv. atvrh., sem hann vann þegar hann var fjrh. á sinni tíð. Merkasta málið, sem hæstv. stjórn hefir stutt, er afnám tóbakseinkasölunnar, sem hæstv. atvrh. var frumkvöðull að. Líkt má segja um afnám steinolíueinkasölunnar, sem hæstv. atvrh. var einn höfundur að. (Atvrh. MG: Var jeg höfundur að steinolíueinkasölunni?). Hæstv. atvrh. mun að vísu ekki hafa skrifað fyrstu drættina að þeim lögum, en hann var frsm. þess máls í þinginu, og það var aðallega hann, sem gerði grein fyrir tilgangi þess fyrirkomulags, og fylgdi málinu mjög fast.

Hæstv. atvrh. endaði með tilvitnun úr Vídalínspostillu, um það, þegar andskotinn setti brillur á rjettarins nasir, og vildi heimfæra til mín. Enginn maður á Íslandi er frægari fyrir það, hvernig hann hefir látið setja brillur á sínar nasir, heldur en hæstv. atvrh, þegar hann fór sína frægu ferð norður í Krossanes.