14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Björn Líndal:

Það hefir ekki svo ósjaldan komið fyrir hjer á þingi, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi valdið mjer leiðinda. En ekkert hefir valdið mjer eins mikillar undrunar eins og það, sem hann ræðir nú í dag. Jeg vil segja, að það þurfi töluvert mikla fífldirfsku til þess að leyfa sjer að koma með vantraustsyfirlýsingu á Alþingi, þegar það er fyrirfram víst, að það hefir ekki hina minstu þýðingu, aðra en þá að auka úlfúð og lengja þingtímann. Þó væri þessum hv. þm. dálítil afsökun í því, ef hann hefði eitthvað um stjórnina að segja og það, sem hún hefir gert á þessu síðasta ári, annað en það, sem er margbúið að tyggja upp áður. Hugsanlegt er, að hann hafi og nokkra afsökun í því, að hann mun langa til að tala eins og hann heldur, að sumt af því fólki vilji heyra, sem hlustar á pöllunum. Það mun því rjett vera, sem hæstv. fjrh. benti á, að þessum hv. þm.

Þarna stilt upp af honum verri mönnum. Jeg þykist þekkja manninn svo að greind og öðru góðu, að hann mundi alls ekki hafa gert þetta ótilknúður af öðrum. Það er líka afsökun út af fyrir sig, að hv. þm. langar til að láta ljós sitt skína, og hann vill njóta þeirrar ánægju að sitja hjer á þingi áfram. Honum er það líka vorkunn, þó að hann fylgi þeirri siðferðiskenningu, sem hans flokksmenn sjerstaklega berjast fyrir, og það er að reyna að vinna sem minst fyrir sem mestu kaupi.

Þá er hv. þm. Str. Jeg vil nú reyna að tala við hann í öllu bróðerni. Mig undrar enn þá meira hans framkoma. Hann byrjar snemma á þinginu á því að hóta vantrausti, og áður hafði hann gert það í blaði sínu. Fyrir eitthvað hálfum mánuði sagði hann mjer, að hann ætlaði að flytja vantraust. En svo þegar vantraust er komið fram, þá talar þessi hv. þm. fyrir hönd síns flokks og segir, að vitanlega sje þetta alveg þýðingarlaust, af því að það gangi ekki í gegn. Nú er mjer spurn: Hvers vegna er þessi hv. þm. kominn í skóla hv. 2. þm. Reykv., til þess að halda klukkutíma ræður, sem eru eintómar árásir á stjórnina, eftir að hann er búinn að viðurkenna, að í 95 daga hafi hann notað hvern einasta dag til þess að gera þetta sama?

Það mun líka mega finna afsökun fyrir hv. þm. Str., og hún er sú, að hann viti naumast stundum, hvað hann gerir. Jeg vil vekja athygli á því, að nú, þegar hv. þm. stóð upp, byrjaði hann á líkan hátt og hann gerir langoftast, en sú byrjun er hjer um bil svohljóðandi: Jeg ætlaði ekki að standa upp; jeg er neyddur til að taka til máls, og skal lofa því að vera stuttorður og þar fram eftir götunum. Eftir að hv. þm. byrjar með þessum formála veður hann vitleysiselginn hálfa og heila klukkutímana, án þess að hafa nokkra hugmynd um það sjálfur.

Jeg vil benda hv. þm. Str. á það, hvort hann geti ekki skilið það sem fulltrúi bændanna, hversu það er erfitt fyrir íslenska bændur að sitja hjer langt fram á sumar, eins og erfitt er með fólkshald alt um annatímann.

Til þess að sýna þjóðinni, hvernig þessi hv. þm. hefir hegðað sjer á þessu þingi, þyrfti að prenta svo mörg eintök af Alþingistíðindunum, að hægt væri að senda á hvert einasta heimili á landinu, svo að allir gætu sjeð með eigin augum, hvað þessi hv. þm. hefir gert, ekki einungis til að lengja þingið óhœfilega, heldur jafnvel að gera það stundum líkara vitfirringahæli heldur en löggjafarsamkomu. Heldur hv. þm. Str., að það sje hagræði fyrir íslenska bœndur, að þingið hagi sjer á þann hátt, sem hefir átt sjer stað í þetta sinn? Nei, það fer að verða ómögulegt fyrir nokkurn bónda að eiga þar sæti, og endalokin verða svo þau, að hann, sjálfur bændafulltrúinn, með mælgi sinni sópar öllum bændum burt úr þinginu.

Jeg mun vera í tölu efnaðri bænda, en þó hefi jeg ekki ástæður til að vera frá heimili mínu jafnlengi og nú, og mjer er það stórtjón. Jeg veit, að allir þingmenn, sem heima eiga utan Reykjavíkur, vildu svo guðsfegnir vera löngu komnir heim, enda bíða þeir beint fjárhagslegt tjón af þessu uppihaldi. En það er hv. þm. Str., sem ber höfuðábyrgðina á þessu tjóni.

Nú vil jeg með allri vinsemd leyfa mjer að skora á hv. þm. Str. að reyna að komast hjá því í framtíðinni, sem hann hefir mjög tíðkað á þessum tveim þingum, er hann hefir setið á, að gera mönnum lítt sætt hjer í hv. deild undir málæði sínu, en með tímatöfinni að gera mönnum utan af landi ómögulegt að gefa kost á sjer til þingmensku. (JBald: Þetta var nú góð ræða!). Já, hún var að minsta kosti betri en hjá hv. 2. þm. Reykv.