14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil gera mitt til þess, að umræðum verði lokið áður en fundarhlje þarf að gera, og skal þess vegna vera fáorðari heldur en þær löngu ræður hv. flm. (JBald) og aðstoðarflm., hv. þm. Str. (TrÞ), hafa gefið tilefni til.

Hv. flm. sagði, að jeg hefði tekið aftur yfirlýsinguna, sem jeg gaf hjer fyrir stjórnarinnar hönd í umræðunum um steinolíueinkasölumálið. En þetta er alveg rangt hjá honum. Jeg þurfti einungis að leiðrjetta lítils háttar misskilning hjá hv. þm. Str. viðvíkjandi till., þar sem hann skildi hana svo, að hún ætti ekki við það mál, sem fyrir lá, heldur væri verið að lýsa áformi stjórnarinnar, ef till. um að gefa steinolíusöluna frjálsa yrði feld. Jeg bjóst við, að hún yrði samþykt, og við það var yfirlýsingin miðuð; og nú hefir till. verið samþ., svo yfirlýsingin stendur sem tilkynning um áform stjórnarinnar um það, að draga inn í ríkissjóð talsverðan hluta af varasjóði Landsverslunar, sem nú stendur í steinolíuversluninni, og verja því fje í greiðslur á lausaskuldum ríkissjóðs.

Í sambandi við þetta vil jeg minnast á það, sem hv. þm. Str. sagði um það, að stjórnin, eða jeg sjerstaklega, hefði lýst ánægju yfir fjárlögunum og tekið mjög fúslega við þeim. Þetta hefi jeg ekki gert eða sagt. Jeg sagði ekki annað nje meira en það, að stjórnin hefði sjeð sjer fært að taka við fjárlögunum eins og þau eru, þótt þingið hafi hækkað útgjöldin um tæpa miljón. Að stjórnin sjer sjer þetta fært, stafar ekki hvað minst af því, að þessi urðu úrslit steinolíumálsins. Þar er stjórninni heimilað fje til umráða, alt að því eins mikil upphæð eins og útgjaldaauki fjárlaganna nemur, sem stjórnin getur varið til greiðslu lausaskulda, í stað þess tekjuafgangs, sem hefði mátt gera ráð fyrir á fjárlögunum, ef þau hefðu verið samþykt lítið breytt frá því, sem stjórnin gekk frá þeim.

Jeg skal geta þess, út af því, að hv. þm. Str. var að gefa stjórninni aðvörun gegn því að leggja fje ríkissjóðs í nokkra hættu vegna framhalds á steinolíusölunni, að jeg skal fyrir mitt leyti taka þau orð fullkomlega til greina.

Ummælum hv. 2. þm. Reykv. um verkfræðingsstörf mín svaraði jeg þegar í fyrri ræðu minni, og þarf jeg þess vegna ekki frekar að minnast á þau öfugmæli hans. í síðustu ræðu sinni bætti hv. þm. nokkru við viðvíkjandi afskiftum mínum af vatnsveitu Reykjavíkur. Jeg veit, að allir sanngjarnir bæjarbúar líta öðrum augum á verkfræðingsstöð í mín viðvíkjandi því fyrirtæki heldur en hv. 2. þm. Reykv. (JBald: Jeg fór ekkert inn á þetta). Hvað átti þá hv. þm. við með því, að vatnið hafi ekki viljað renna í pípunum? En hv. þm. er kannske farinn að sjá, að honum hefði verið sæmra að segja ekkert um þetta.

Út af útúrsnúningi hv. flm. (JBald) viðvíkjandi Krossanesmálinu vildi jeg taka það fram, að jeg benti einungis á það, að núverandi stjórn hefði lagfært við síldarverksmiðjuna það eina, sem var að lagfæra, og það voru síldarmálin.

Ummæli hv. flm. um tekjuskattinn og tóbakseinkasöluna voru ekki annað en gömul upptugga, og get jeg gengið fram hjá þeim. Um steinolíumálið er mjer sjerstök ánægja að ræða við hv. þm. í heyranda hljóði hvenær sem hann vill. Jeg get sagt hv. þm. það, út af samanburði þeim, er hann gerði á steinolíuverslun og sementsverslun, að sementið er selt með opinberlega skráðu verði, flutt um borð í framfærsluhöfn, og steinolían sömuleiðis með opinberlega skráðu verði, flutt um borð í framleiðsluhöfn í Bandaríkjunum. Landsverslun sýnist ekki hafa sýnt meiri kaupmenskuhæfileika en svo, að hún hefir keypt olíu með stórkostlegri álagningu, eingöngu vegna flutnings úr framleiðsluhöfn til annarar hafnar, sem enginn sementskaupmaður mundi gera. Það hefir aldrei komið fyrir, það jeg þekki til, í sementsverslun, að kaupandinn hafi þurft að borga 30–35% álagningu á vöruna, bara fyrir það, að hún var keypt í annari höfn en framleiðsluhöfn. Hitt er vitanlegt, að hann hefir þurft að bæta við flutningsgjaldi — og það var eðlilegt fyrir steinolíukaupanda að gera það — frá Bandaríkjunum til London. En álagningin, sem Landsverslun greiðir þarna, er þannig, að jeg get að minsta kosti fullyrt, að enginn sementskaupmaður á þessu landi hefði getað staðist stundu lengur, ef hann hefði rekið sína verslun eftir svipuðum reglum og Landsverslun hefir gert.

Jeg skal geta þess, að jeg gat ekki hlustað á allar ræður hv. þm., sökum þess, að jeg var bundinn við umræður í hv. Ed., og skal jeg því láta hjer að mestu staðar numið.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þarf jeg litlu að svara. Jeg veit, að hv. þdm. hafa tekið eftir því, hversu mikill munur var á allri ræðumensku hans í þetta sinn og hans fyrri ræðu. Og það vita allir, af hverju mismunurinn stafar. Í fyrri ræðu hans voru orðin lögð honum í munn af öðrum, sem sje hans heiðarlegu flokksmönnum, en í síðari ræðu sinni sýndi hann sína eigin þingmenskuhæfileika. Hann byrjaði með því að segja það, sem hann mátti vita, að allir vissu að var ósatt, sem sje að hæstv. forsrh. hefði lýst sig sem undirmann minn. Hæstv. forsrh. er nýlega búinn að tala, og allir hinir sömu hlustuðu á hann og hv. þm. Str., en svona mikið er blygðunarleysið hjá þessum hv. þm., að jafnvel þó að hann viti, að allir viti, að hann fer með ósannindi, getur hann ekki stilt sig.

Hv. þm. hneykslaðist á því, að jeg sagði, að Framsóknarflokkurinn fylgdi foringjanum til atlögu gegn stjórninni í þetta sinn. Jeg ætlaði ekki með því að segja, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) væri foringi Framsóknarflokksins í nánara skilningi, en sá hv. þm. hefir í þessu máli komið fram sem foringi stjórnarandstæðinga sameiginlega, og hefir þar með sett sig í það virðulega sæti, sem t. d. í breska parlamentinu er viðurkent að vera hið mesta virðingarsætið næst stjórnarsessi. Þetta sæti hefir hv. 2. þm. Reykv. með fullum rjetti tekið sjer, og Framsóknarflokkurinn, sem er nú fjölmennasti andstæðingaflokkur stjórnarinnar, fylgir svo þessum foringja til atlögu. Hann fylgir honum af því, að flokkurinn hefir engar aðrar ástæður fram að færa en þær, sem hv. 2. þm. Reykv. þegar hefir flutt. En þarna skýtur skökku við um, samanburð við vantraustið á Björn Jónsson forðum, sem hv. þm. Str. var að vitna í. Því voru greidd atkv. af tveim mismunandi flokkum, og hver flokkur af sínum ástæðum, sem voru þar vendilega fram bornar, þannig, að hvorugur flokkurinn skipaði sig undir annars merki.

Um Ræktunarsjóðinn ætla jeg ekki að kýta við hv. þm. Str. Hann hefir, eins og allir vita, horft með ólund á allan framgang þess máls hjer á þingi og gert sitt til að koma þar að ýmsu, sem mátti vera til spillis.

Út af þessu vil jeg segja frá ofurlitlu atviki, sem jeg hefi ekki sagt frá áður. Gerðist það í umræðum mínum við hina ágætu nefnd, sem skipuð var af stjórn Búnaðarfjelags Íslands. Jeg sagði þeim, að þeir þyrftu ekki að vonast eftir, að jeg legði fyrir þingið frv., sem allir yrðu ánægðir með; til þess þekti jeg þingmenn of vel. Því venjan er sú, að þegar um hagsmunamál einhverrar stjettar er að ræða, þá vilja fulltrúar þeirra stjetta á þingi gjarnan fá að leggja eitthvað þar til frá sjálfum sjer. Þessari hollu reglu fylgdi jeg, og tel afgreiðslu málsins hafa tekist vel. Jeg óska einskis þakklætis, hvorki frá hv. þm. Str. eða öðrum. Mjer eru nægileg laun þær vonir, sem jeg hefi um, að þetta geti orðið landbúnaðinum að gagni. Rætist þær, þá hefi jeg fengið enn þá fyllri laun. Ef hv. þm. Str. vill fá staðfestingu á þessu, getur hann fengið hana hjá nefndarmönnunum, Thor Jensen eða þá mági sínum Halldóri Vilhjálmssyni.

Þá talaði þessi hv. þm. um hina harðvítugu íhaldsstefnu í skattamálum og fjármálum á þessu þingi. Jeg hefi nú altaf vitað, að hann ristir grynnra en hann hefir gáfur til, en að þekking hans væri svo mjög grunnfær, hafði jeg ekki haldið.

Hvað hefir þá eiginlega gerst í skattamálum nú ? Ekkert annað en lítilfjörleg breyting átekjuskattslögunum. Að öðru leyti hefir ekkert gerst annað en það, að framlengd hafa verið skattalög, sem áður giltu. Meðal þess, sem gert hefir verið í skattamálum, er ráðstöfun um, að verðtollurinn lækki frá 1. mars 1926.

Þetta eru þá öll harðvítugheitin í skattamálum á þessu þingi. Eigi hann við afgreiðslu fjárlaganna, þá ber þess að gæta, að í stað þess, sem þau voru afgreidd á síðasta þingi tekjuhallalaus, með því að stöðva allar meiri háttar verklegar framkvæmdir, þá hafa menn nú sjeð sjer fært að auka útgjöldin um 1 milj. kr., sem verja á að mestu til nytsamra, verklegra framkvæmda, þó sjerstaklega til byggingar nauðsynlegra líknarstofnana.

Hver eru þá harðvítugheitin á þessu þingi, saman borið við síðasta þing? En yfir störf þess þings lögðu hv. þm. Str. og Framsóknarflokkurinn sína mildilegu blessun.

Jeg get fullvissað hv. þm. Str. um, að hann fælir ekki kjósendur frá Íhaldsflokknum, þó aldrei nema hann berji bumbuna um hina harðvítugu skattastefnu flokksins.