14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (3291)

137. mál, vantraust á núverandi landsstjórn

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. atvrh. (MG) þarf jeg litlu að svara. Jeg vil bara minna hann á, að í Krossanesmálinu valt á hans atkvæði. Og það mun venja annarsstaðar, er ræðir um mál, sem sjerstaklega snertir einn ráðherra, að sá hinn sami láti þá vera að greiða atkvæði. Svo var og í Danmörku í vetur. í fólksþinginu var borin fram tillaga, sem vítti gerðir eins ráðherrans. Ráðuneytið gerði tillöguna að fráfararatriði. Og tillögunni var vísað frá, en sá ráðherrann, sem hlut átti að máli, greiddi ekki atkv. Og svo átti heldur ekki að vera hjer. Og þetta skilst mjer einnig að hæstv. forsrh. hafi gengið inn á.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vil jeg svara því, að jeg gerði ekki verkfræðingsstarf hans að umtalsefni, af því að hann var ekki inni þá. Það var ekki af því, að jeg teldi mjer það ekki fullheimilt, því flestöll verkfræðisstörf sín hefir hann unnið fyrir hið opinbera. Og þau liggja því undir dómi almennings.

Jeg vil nota tækifærið og koma lítið eitt við hv. þm. Ak. (BL), úr því hann, móti venju sinni, er við. Það kemur ekki sjaldan fyrir, að hann sprettur upp með hvelli, alveg eins og tappi ár sódavatnsflösku. Og síðan byrjar sama athöfnin hjá báðum: þingmaðurinn freyðir, og flaskan freyðir. En svo hjaðnar alt niður vonum bráðar. Það er líka svo, að í hvert skifti sem hv. þm. Ak. (BL) stendur upp, þá standa allir flokksmenn hans á öndinni um, að hann geri nú einhvern „skandala“. Það er altalað, að forseti sameinaðs þings hafi frestað fundi í steinolíueinkasölumálinu, af því að hann þorði ekki að hleypa hv. þm. Ak. (BL) að.

Annars ætla jeg að láta hv. þm. (BL) einan um aðdróttanir sínar. Þær eru svo óþinglegar, að jeg skil ekki annað en forseti hafi einhvern tíma tekið í hnallinn þegar minni þörf var á.

Þá vil jeg að lokum beina því til hæstv. forsrh., er hann sagði, að ummælin, er jeg las eftir hann frá þinginu 1921, sjeu þýðingarlítil og lítið spaugileg, hvort honum finnist það svo ákaflega þýðingarlítið, þegar búið er að sanna með eigin orðum forsrh., að stjórnin sje á skakkri braut. Jeg álít það ekki þýðingarlítið, en hitt get jeg fallist á, að það sje „lítið spaugilegt“.