24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Jeg veit ekki, hvort hún verður stutt þessi athugasemd, sem hæstv. forseti leyfir mjer að gera.

Hæstv. forsrh. (JM) beindi til mín nokkrum orðum, er hann ætlaði mjer víst að svara. En áður en jeg geri það, verð jeg að heilsa upp á sessunaut minn, hv. þm. Dala. (BJ), og leiðrjetta þennan dæmalausa misskilning, sem hann var enn að tönlast á. Það er svo langt frá því, að honum hafi farið nokkra minstu vitund fram, heldur er um sama skilningsleysið að ræða, og jafnvel magnaðra en áður.

Út af þeim tilmælum, sem háttv. þm. Dala. (BJ) beindi til mín, að jeg skyldi koma með vantraust á stjórnina, úr því jeg væri sannfærður um sekt þessa manns, skal jeg taka það fram, að þarna er háttv. þm. sekur um hinn mesta misskilning, eins og svo oft fyr. Því að þótt jeg sje sannfærður um sekt mannsins, þá get jeg þó sett mig inn í, að aðrir sjeu ekki eins sannfærðir. En rannsóknin átti að leiða sannleikann í ljós og sannfæra menn.

Þá var háttv. þm. að tala um, að ekki væri rjett að ala um of á við stjórnina að höfða sakamál á hendur mönnum. En það fer eftir því, hvernig stjórnir beita því valdi sínu, hvort rjett sje að hvetja þær eða ekki í þeim efnum. Stundum fara þœr vitanlega of skamt. En stundum aftur of langt, eins og t. d. dæmið, sem háttv. þm. tók um stúlkuna, sýnir.

Annars er altaf hætta á, að síður sje höfðað sakamál gegn þeim, sem meira eiga undir sjer, en hinum, sem minni máttar eru.

Þá ruglaði háttv. þm. því saman, hvernig höfða ætti sakamál. Til þess að höfða þau hygg jeg, að einhver skipun þurfi að koma frá stjórninni. (Atvrh. MG: Nei). A. m. k. stóð stjórnin á bak við þetta svo kallaða 25-auramál. Í því tilefni var það stjórnin, sem fyrirskipaði málshöfðunina. Stjórnin hefir þó vitanlega ekkert dómsvald og hrifsaði það ekki heldur í sínar hendur með þessu.

En hvort hún hefir ákveðið málshöfðun gegn vinnukonunni fyrir spilatökuna, veit jeg ekki. En hvað sem þessu líður, þá var það fjarstæða, sem háttv. þm. Dala. (BJ) var að tala um, að þingið væri að taka sjer dómsvald í hendur, þó að það vilji láta rannsaka mál eins og þetta fræga Krossanesmál. Þá þóttist þessi háttv. þm. ekki skilja, að kostnaður við að höfða mál gæti orðið svo mikill, að fjárhagslega borgaði sig ekki að fara í málið. En þetta veit jeg, að háttv. þm. skilur. Því að jeg er sannfærður um, að hann þekkir mörg dæmi þess, að menn hafa ekki fengið endurgreiddan þann kostnað, sem þeir hafa orðið fyrir við að fara í mál, enda þótt þeir hafi unnið það og verið dæmdur málskostnaður að nafninu til. Að það kosti ekkert að kæra, er aldrei nema satt, en það er hlutur, sem margir eru ragir við, og það af ýmsum ástæðum. Er því nauðsynlegt, að stjórnin eigi frnmkvæðið. Og það ekki síst, þegar svo stendur á, að sá, sem minni máttar er, þarf að höfða mál gegn þeim, sem meira á undir sjer.

Annars var öll ræða háttv. þm. Dala. (BJ) algerlega tilefnislaus af minni hálfu og sömuleiðis af hálfu háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Er því ekki okkur um að kenna, þó að hann hafi dregist inn í umræðurnar. Það voru ráðherrarnir, sem drógu þessa að endemum frægu dagskrá hans inn í umr.

Hæstv. forsrh. (JM) hefir áður svarað mjer út af því, sem jeg sagði í síðustu ræðu minni í garð stjórnarinnar. Það var rjett hjá hæstv. forsrh. (JM), að jeg fór ekki rjett með tilvitnanir, þegar jeg var að vitna í Bergþóru, því að hin tilvitnuðu orð mín áttu við Njál. En þó nú svo hafi verið, þá gerir það ekkert til, því að jeg tók það skýrt fram, að um samjöfnuð á manngildi væri alls ekki að ræða.

Hæstv. ráðherra endaði ræðu sína með því að víkja nokkrum orðum að mjer og stöðu þeirri, sem jeg gegni, og veit jeg ekki, hvort hann hefir með því ætlað að fara að innleiða nýjan stjórnarsið og reka af sjer það ámæli, sem þeir ráðherrarnir hafa stundum orðið fyrir, af því að þeir ljetu sig engu skifta verksvið hver annars. Því að hæstv. ráðherra veit eflaust orðið, að það sætir misjöfnum dómum og hefir hljómað illa í eyrum manna, sem svo oft hefir kveðið við nú í seinni tíð: „Jeg er ekki dómsmálaráðherra“. „Jeg er ekki atvinnumálaráðherra“ o. s. frv.

Hæstv. forsrh. (JM) vjek því að mjer, að jeg gæti frómt úr flokki talað, ef það væri satt, sem hann hefði heyrt, að jeg væri ekki farinn að koma í bankana ennþá sem eftirlitsmaður.

Um þetta hefði hæstv. ráðherra ekki átt að vera vorkunn að afla sjer upplýsinga hjá fjármálaráðherra, því að það er beinlínis í samráði við hann, að þessu hefir verið frestað núna fyrst um sinn, og skal jeg gera háttv. deildarmönnum skiljanlegt, hvernig á því stendur.

Svo er þá mál með vexti, ef fara á fram rannsókn á hag bankanna, þá verður að byggja þá rannsókn á ársreikningum þeirra. Ef rannsókn hefði því átt að fara fram á síðastliðnu ári, hefði hún orðið að byggjast á ársreikningum 1923. En eins og allir vita, og hæstv. forsrh. (JM) líka, þá hefði slík rannsókn verið með öllu þýðingarlaus, því að árið 1924 hafði svo stórkostlega breytingu í för með sjer á hag bankanna.

Jeg veit nú ekki, hvort hæstv. forsrh. (JM) nægir þessi skýring. En víst er það, að meðan jeg fæ engar ákúrur frá hinum nánasta yfirboðara mínum, hæstv. fjrh. (JÞ), læt, jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvað sagt er.

Annars skal jeg taka það fram, að þegar rætt var um stofnun stöðu þeirrar, sem jeg er í, kom það til tals í nefndinni, hvort leyfa ætti eftirlitsmanninum að sitja á þingi, eða banna. En nefndin sá ekki ástæðu til þess að banna honum þingsetu. En nú stóð svo á, að þegar jeg var skipaður í stöðuna, átti jeg sæti á þingi, og hefi því gegnt þingmannsstörfum eftir sem áður, eins og jeg tel mig líka hafa fulla heimild til.

Jeg geri nú ráð fyrir, þar sem jeg er dauður við þessar umræður nú, fái jeg ekki tækifæri til þess að svara frekari aðfinslum hæstv. ráðherra. Skal jeg því taka það fram, að jeg er reiðubúinn að svara hæstv. forsrh. (JM) við annað tækifæri, á hvern þann hátt, sem honum best líkar.