14.03.1925
Efri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í D-deild Alþingistíðinda. (3302)

85. mál, orðabókarstarfsemi Jóhannesar L.L. Jóhannssonar og Þórbergs Þórðarsonar

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi orðið þess var, að til eru menn hjer á Alþingi, sem álíta ekki þörf á að athuga þetta mál. Jeg skal játa, að miðað við þá fjáreyðslu, sem er í fjárlögum hin síðustu ár, þá eru þessir 2 liðir ekki ýkjaháir. En jeg geri ráð fyrir, að nokkrum árum fyrir stríð hefði það þótt skifta máli, hvernig farið væri með 7–8 þús. kr. af landsfje árlega, og ef því væri varið til verks, þá skyldi full trygging fyrir, að við þetta verk væri unnið á þann hátt, sem vera bæri.

Nú vil jeg leyfa mjer að halda því fram, að varla nokkur þingmaður hafi í raun og veru hugmynd um, hvernig þessu orðabókarstarfi er háttað, Og enn síður hver ávöxtur muni af því verða. Og það, sem till. mín fer fram á, er að stíga fyrsta sporið í þá átt, að þingið, og síðan þjóðin, fái að vita, hvernig þessu starfi er varið, hvað mikið liggi nú þegar eftir þá, sem hafa unnið, hvað eigi að gera hjer eftir, hvenær bókina á að gefa út o. s. frv.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að þessu máli, og kem jeg fyrst að aðalorðabókarhöf.

Upptök málsins voru þau, að Jóni Ólafssyni rithöfundi var nokkru fyrir stríð veittur árlegur styrkur í fjárlögum til þess að semja íslensk-íslenska orðabók. Fjárveitingunni var svo hagað í fyrstu, að hann fjekk ekki laun sín útborguð nema að því leyti sem hann sýndi, að hann hefði unnið. Gallinn á þessu var sá, að það neyddi hann til að fullgera hefti og gefa út án þess að geta varið til þess nægum tíma. En kosturinn við þetta var sá, að þá kom ekki til mála, að útborgað væri fyrir aðra vinnu en þá, sem framkvæmd var í raun og veru. Jeg hygg, að góð úrlausn á þessu væri það, að hafa sjerfrótt eftirlit, sem ákvæði, hvað hæfilegt verk væri fyrir þau laun, sem lögð eru fram á ári hverju, og mætti svo útgáfan bíða eftir hentugleikum.

Þó að langt sje um liðið, er ekki rjett að neita því — ef maður vill skýra hárrjett frá málinu — að þessi orðabókarstyrkur er í fyrstu veittur vegna mannsins sjálfs. Hann var strax kallaður bitlingur hjer í þinginu, og þjóðin hafði þá trú, að svo væri. Það var gert til þess að láta vel gefinn og fróðan mann fá peninga fyrir starf, og því ber ekki að neita, að Jón Ólafsson vann töluvert. Fyrsta heftið var gefið út, en það er líka sá eini sýnilegi árangur af öllu því fje, sem í þetta verk hefir verið lagt. Alt það, sem gert hefir verið síðar, vita menn ekkert um.

Það er langt frá, að jeg vilji kasta steini að þeim manni, sem hefir skilið eftir sýnileg merki starfs síns, en jeg kemst ekki hjá því að geta þess, að litlu eftir að orðabókin kom út, tók einn lögfræðiprófessor við háskólann sig til og athugaði, hvort mörg orð vantaði í þetta eina hefti. Komst hann að þeirri niðurstöðu við fljótan yfirlestur, að vanta mundi að minsta kosti eitt þús. orð í heftið; en það mun ekki vera meira en 1/30 af allri hinni fyrirhuguðu bók. Sýnir þetta óneitanlega, að það hefir ekki verið tekið á þessu verki með sjerlega mikilli forsjá eða fyrirhyggju, þegar ágallarnir urðu þegar í stað svo áberandi.

Þegar Jón Ólafsson fjell frá, tók annar maður við starfi þessu til að halda því áfram, Björn Bjarnason málfræðingur. Var hann án efa maður, sem öll þjóðin hefði treyst til að standa fyrir þessu verki, hefði hann haft heilsu til. Hann var ágætlega viti borinn, prýðisvel að sjer í íslensku máli og hinn mesti athafnamaður. En þegar hann tók verkið að sjer, hafði hann verið farlama eftir langvinnan sjúkdóm og hafði dvalið erlendis til heilsubótar 2–3 ár. Þar fór saman almenn viðurkenning á starfhæfni mannsins og hinsvegar þörf hans að fá lífsstarf, sem hann gæti stundað eins og heilsu hans var háttað. Hann hafði haft á hendi kenslustörf við kennaraskólann, en varð að segja af sjer sökum heilsubrests. Þegar hann hafði tekið að sjer orðabókarstarfið, fluttist hann til Hafnarfjarðar, til þess að geta lifað ódýrara, og síðan vann hann — jeg hygg hátt upp í ár — með mikilli elju að því að safna orðum. Svo kom dauðinn og kipti honum burt líka.

Þegar hann var fallinn frá, þá veitir þingið presti vestan úr Dalasýslu, Jóh. L. L. Jóhannssyni, styrkinn til að vinna að framhaldi orðabókarinnar. Og af því að dýrtíðin óx, hækkaði þetta fje talsvert mikið, þannig, að hann er nú mörgum sinnum hærri liður í fjárlögunum heldur en í tíð Jóns Ólafssonar. Litlu síðar kom annar maður enn í þetta starf, sonur mannsins, sem nú er um að ræða, Jakob Jóh. Smári. Var þá fjárveitingin hækkuð um stund. Maður þessi var ungur og hraustur, og sökum sjermentunar var hann miklu betur til starfsins fallinn. En hann komst að embætti við mentaskólann og hvarf því frá orðabókinni.

Síðan hefir þessi gamli klerkur fengið þennan styrk og án þess nokkuð hafi sjest eða heyrst frá honum nema kröfur um hærri fjárgjöld til verksins. Hin eina nýbreytni, sem varð á málinu, er sú, að ungum rithöfundi í bænum, Þórbergi Þórðarsyni, var líka veittur styrkur, en miklu minni, til þess að taka fyrir vissan hluta af starfinu. Reyndar hefir verið tekið svo laust á þessu, að það er ekki þægilegt að vita, hvort hans starf eigi að vera í beinu sambandi við hitt, eða þá sjerstakt og sjálfstætt starf. Hefir víst aldrei verið komið neinu skipulagi á það, í hverskonar afstöðu þessi tvö störf væru hvort til annars. Hæstv. núverandi stjórn hefir í fjárlagafrv. 1926 felt niður styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar, sem virðist benda á, að hún sje að gerast „krítisk“ um þetta mál að nokkru leyti. Aftur á móti hefir hún hækkað nokkuð styrkinn til aðalhöfundarins, ef svo mætti segja, frá því sem þingið ljet vera í fyrra.

Það er áreiðanlega Alþingi til lítils sóma að veita ár eftir ár fje til áframhalds þess verks, sem enginn veit hvað líður. Jeg minnist þess þó, er jeg var í fjvn. fyrir tveimur árum, að annar þessi orðabókarhöf. kom með plögg nokkur og mun hafa ætlað að gefa okkur hugmynd um verk sitt. Ekki varð úr neinni skoðun hjá nefndinni, enda var þetta á síðustu starfsdögum þingsins, og var hún önnum kafin. Í rjettu lagi var það öllu heldur verk mentmn., en ekki fjvn., að athuga slíka hluti og gefa skýrslu.

Nú vildi jeg þessu næst benda á það, að svo framarlega sem þessi styrkur er nokkuð annað en persónustyrkur eða eftirlaun hvað snertir síðari manninn, verða menn að gera sjer glögga grein fyrir, hverskonar starfsemi hjer er um að ræða. Jeg býst við, að sumir hv. þm. þekki stóru Oxfordorðabókina ensku. Það má nefna hana í sambandi við okkar bók, því þó við sjeum margfalt minni þjóð en Englendingar, þá er okkar mál stórt sem þeirra. Til að gefa dálitla hugmynd um, hverskonar tökum er tekið á svona verki erlendis, má nefna það, að yfir orðabókina hefir verið settur einn hinn ágætasti málfræðingur Breta, próf. Craigie. Hann hefir haft fjölmarga sjerfræðinga sjer til hjálpar og þar að auki óteljandi samstarfsmenn úti um alt land til að safna orðum. Ekki einungis hefir hann og hans aðstoðarmenn gengið í gegnum allar höfuðgreinir enska málsins og sýnt myndir orðanna á öllum öldum, heldur hafa þeir líka svo að segja dregið botnvörpu þekkingarinnar í þessu efni yfir það talaða mál alstaðar í landinu, og líklega í nýlendunum líka, til þess að bókin nái yfir málið bæði sögulega og eins og það er talað nú.

Hvort erum við að gera hliðstæða orðabók? það þurfti að gera sjer ljóst í upphafi, og þeirri spurningu má til að fara að svara.

Ef við erum að gera vísindalega orðabók yfir alt málið frá byrjun og eins og það er nú, þá er það feiknaverk, sem krefst starfskrafta margra manna og kostar mörg hundruð þús. kr. Væri ekkert viðlit að hafa yfir því starfi mann, sem ekki er hreint og beint sjerfræðingur í málinu. Vil jeg í því efni vísa til ummæla hæstv. forsrh. (JM), er hann taldi nauðsynlegt, að það væri sprenglærður málfræðingur, sem kendi þessum fáu piltum málfræði við háskólann. Sje þetta rjett, þurfum við æði mikils við, þegar semja skal bók, sem á að vera minnismerki máls okkar í margar aldir, og fyrst og fremst þarf slíku verki að vera stjórnað af sjerfróðum manni.

Þó að við hefðum notið lengur Björns Bjarnasonar, sem eftir okkar mælikvarða uppfylti skilyrðin, hefði orðið að kosta miklu til aðstoðar með honum, og útgáfan hefði svo kostað afskaplegt fje.

Jeg hygg þess vegna, að hv. deild geti ekki annað en viðurkent, að ef verkinu skal haldið áfram, verður að íhuga, hvernig á að vinna það. En ef þetta er persónulegur bitlingur, þá þarf auðvitað ekkert að athuga málið; þá þarf ekki annað en að launa manninn það sem eftir er æfinnar og láta þar við sitja. Geri jeg ráð fyrir, að atkvgr. skeri úr um það, hvernig menn líta á þetta atriði. Alþingi, sem leggur fram fjeð til samningar þessarar bókar, ber skylda til þess að sjá um, að unnið sje að henni eftir forsvaranlegu skipulagi.

Jeg hygg nú, að hv. þdm. sje ljóst orðið, hvað jeg er að fara í þessu efni. Jeg er að reyna að fá úr því skorið, hvort það sje alvara hjer á bak við, eða hvort þetta er alt saman bitlingur, grímuklæddur undir formi vísindalegrar orðabókar. Þó jeg ekki fari út í það nú, þá er óneitanlega margt, sem bendir í þá átt.

Þó að jeg sje í mentmn., get jeg ekki sagt, að jeg skoði mig neinn sjerfræðing í þessu orðabókarmáli. En jeg mun síðar gera grein fyrir, hvers vegna við getum hver og einn lagt eitthvað til athugunar á þessu máli. Jeg get hugsað, að sagt verði, að við höfum hjer ekkert vit á. En er þá hv. deild svo sjerfróð í þessu efni, að hún geti greitt atkv. sitt um að veita á ári hverju til þessa verks þúsundir króna? það er hrein og bein mótsögn, að nefnd í þinginu geti ekkert sagt af viti um málið, en þó geti deildin greitt atkv. um málið órannsakað. Þótt við hjer í hv. deild sjeum ekki málfræðingar, ber okkur skylda til, í þessu máli eins og öðrum, að reyna að nota þá vitsmuni, sem við höfum, til að skilja málin og ráða þeim til lykta.

Jeg hefi hugsað mjer, að ef till. verður samþ., yrði þannig á þessu tekið, að þessir tveir menn, sem vinna að orðasöfnuninni, kæmu á fund nefndarinnar, eins og altítt er hjer, og gæfu henni skýrslu yfir vinnubrögð sín, hve miklu þeir hefðu þegar afkastað og hvað þeir ætluðu framvegis að gera. Þetta held jeg að megi með sanngirni gera ráð fyrir, að hlutaðeigendur gætu. Ennfremur er ekki ómögulegt, að nefndin gæti, af þeim sýnishornum, sem fyrir lægju, fengið hugmynd nokkra um, hvað mikil vinna liggur í því, sem búið er, og yfirleitt hvernig verkið hefir gengið. Og mjer skilst, að þetta muni ekki vera þessum mönnum móti skapi, því mig rekur minni til, að annar þessi orðabókarhöf. hefir viljað sýna þinginu, hvað eftir hann lægi. Tel jeg víst, að hinn mundi fús til þess líka. Ennfremur væri ekki ósanngjarnt, að þessir tveir menn gerðu áætlun um verkið í heild og að Jóh. L. L. Jóhannsson sendi þinginu áætlun um það, hvað mikinn mannafla og hvað mikinn tíma hann teldi þurfa til að ljúka bókinni, eftir þeirri stærð, sem hann áætlar, og hver hún er. Væri þá hægt að fara nærri um það nú, hvað bókin mundi kosta prentuð. Sama gildir auðvitað um alþýðuorðasöfnunina. En nú gæti vel farið svo, að nefndinni og deildinni þætti þessi rannsókn ekki nóg og óskaði, að sjerfræðingar athuguðu það betur. T. d. gæti verið ákaflega gagnlegt að fá álit Jóns Ófeigssonar, ef hann væri hjer í bænum. Líka gæti hugsast, að eftir að mentmn. hefði athugað málið, þá legði hún til, að heimspekisdeild háskólans, Jóni ófeigssyni og Geir Zoega rektor væri falið að gera áætlanir og koma með tillögur um framtíðarskipulag á þessu máli, sem næsta þing gæti bygt á.

Jeg hefi nú rakið þetta mál allítarlega. Jeg hefi sýnt, hvernig styrkurinn hefir verið veittur fimm mönnum frá byrjun. Jeg hefi og sýnt fram á, hvernig 1. og 2. maðurinn dóu frá starfinu, og að sá þriðji fjekk betra embætti og hvarf því frá starfinu. En tveir sitja enn þá, og annar þeirra á samt eftir till. hæstv. stjórnar að hætta starfinu. Ennfremur hefi jeg sýnt fram á, hvernig svona starf er framkvæmt erlendis hjá einni stærstu þjóð heimsins. Þar er verkið unnið undir umsjón hins besta sjerfræðings, sem hægt er að fá í þeirri grein, með mikilli vinnu og miklum tilkostnaði. En þingið veit ekkert um þetta starf hjer, veit ekkert, hvort mikið er gert eða ekki neitt. Tilgangur tillögu minnar er því sá, að ganga úr skugga um þetta.

Jeg geri nú ráð fyrir, að skynsamlegast verði, að fullnaðarrannsókn verði að vísu skotið á frest nú, en síðar falin hinum bestu sjerfræðingum, sem hjer er völ á, og þeir leggi aftur skýrslur og tillögur fyrir næsta þing.