01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg vissi það ekki fyr en fundi var slitið seint í gærkvöldi, að þetta mál mundi tekið á dagskrá í dag, og þess vegna er jeg í raun og veru ekki við því búinn að tala ítarlega um málið, en jeg held, að það geri ekki svo mikið til, þar sem ákveðnar eru tvær umr. um þessa till.

Þegar sveitarstjórnar- og fátækralöggjöf landsins var skipað seinast, 1905, þá var það þannig, að milliþinganefnd, sem skipuð var 1901, hafði undirbúið málið. Jeg býst því við, að það hafi ekki getað vakið undrun hjá neinum hv. þm., þótt þessi till. kæmi fram, um að milliþinganefnd endurskoði þessa löggjöf nú.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt, hafa á þessu þingi komið fram nokkur frv. um breytingar á löggjöf kaupstaðanna, sjerstaklega um útsvarsskyldu manna þar.

Í þessari hv. deild hafa komið fram frv. um breytingu á lögum þriggja kaupstaða í þessu efni. Og í hv. Ed. hefir komið fram frv. um breytingu á lögum fjórða kaupstaðarins að því er þetta snertir. Og fara þessi frv. fram á sjerákvæði fyrir hvern kaupstað og stefna að því leyti sitt í hverja áttina. Ef þau yrðu því samþykt, mundi það óneitanlega verða til þess að koma glundroða á útsvarsskyldu manna í hinum ýmsu kaupstöðum.

Í þessu sambandi skal jeg taka það fram, að frv. um breytingu á lögum um bæjarstjórn á Akureyri kemur ekkert þessu máli við, því að það er aðeins um starfshætti í bæjarstjórninni og er því ofureinfalt mál, sem sjálfsagt er að gangi fram á þessu þingi.

Auk þeirra frv., sem jeg þegar hefi nefnt, hefir stjórnin borið fram frv. um úrskurði í útsvarsmálum. Auk þessa hafa komið fram: Frumvarp um breyting á sveitarstjórnarlögunum, frv. um breyting á fátækralögunum, sem fer fram á takmörkun á því, hvað teljast skuli sveitarstyrkur, og ennfremur frv. um bygðarleyfi, þar sem farið er fram á, að bæjar- og sveitarstjórnir fái heimild til þess að takmarka að einhverju leyti innflutning fólks. Öll þessi mál ætlast allshn. til að milliþinganefnd sú taki til athugunar, sem farið er fram á í tillögunni að skipuð verði.

Allsherjarnefnd hefir nú fengið öll þessi frv. til meðferðar. En þegar hún fór að athuga þau, varð henni fyllilega ljóst, að til þess að athuga þessi mál nægilega, svo að vit og samræmi gæti orðið í afgreiðslu þeirra, þurfti að eyða til þeirra miklum tíma, meiri tíma en allshn. hafði ráð yfir. Eina hugsanlega leiðin til þess að geta tekið þau öll til nákvæmrar yfirvegunar var því sú, að nefndin verði öllum þeim tíma, sem hún hefði yfir að ráða, til þeirra, og gerði svo ekkert annað í þinginu. En þar sem mörg önnur stórmál lágu fyrir henni, var þess tæplega að vænta, að hún gæti lagt svo mikla áherslu á þessi mál, að hún ljeti öll önnur sitja á hakanum fyrir þeim. Jafnframt leit nefndin svo á, að ekki væri hægt að taka eitt eða tvö frv. út úr, heldur yrði að athuga þau öll í einu, þannig að samræmi gæti orðið í löggjöfinni.

Hvað útsvarsskylduna snertir, er óeðlilegt, að sín reglan sje í hverjum kaupstað, og að önnur regla gildi svo í sveitunum. Útsvarsskyldan á að vera hin sama á öllu landinu.

Fyrir stuttu var fátækralögunum breytt á þann hátt, að sveitfestistíminn var styttur úr 10 árum niður í 4. Afleiðingar af þessari breytingu eru ekki farnar að koma til fulls í ljós enn. En gera má ráð fyrir, að breyting þessi hafi mikil áhrif að ýmsu leyti, svo mikil áhrif, að nauðsyn beri til að gefa framfærsluhjeruðunum rjett til íhlutunar um það, hverjir eigi að eiga kost á að vinna sjer inn sveit og hverjir ekki. Margir líta svo á, að það sje ranglátt og ómannúðlegt að svifta þá menn mannrjettindum, sem fyrir óviðráðanlegar orsakir verða styrkþurfar. En yrði að því ráði horfið að breyta löggjöfinni í þessu efni, mundi það hafa mikil og margvísleg áhrif, og má ekki hrapa að slíku. Ef fátækralögunum ætti að breyta í verulegum atriðum — og kröfurnar verða altaf háværari um, að það sje gert — þá mundi það mál þurfa mjög vandlegrar íhugunar við, því þó að það kunni nú að þykja einfalt mál að setja í lögin ákvæði um það, að sveitarstyrkur, sem veittur er vegna atvika, sem hlutaðeigandi getur ekkert ráðið við, skuli ekki vera þess eðlis, að styrkþegi missi rjettindi við að þiggja hann, þá er þó víst, að vél þarf að athuga, hvernig því verði best fyrir komið, og hver áhrif það eigi að hafa á viðskifti sveitarstjórnanna innbyrðis. Líka getur verið álitamál, hvort um slíkan styrk, sem ekki væri talinn fátækrastyrkur, ættu að gilda sömu reglur og um annan sveitarstyrk, hvort sami kröfurjettur ætti að fylgja honum á hendur framfærslusveit, eða hvort önnur ákvæði ættu að vera um það. Þá þarf og líka að athuga, á hvern hátt framfærslusveit eigi að hafa heimtingu á, að þurfamenn sjeu fluttir til hennar, því eins og hv. deildarmönnum mun kunnugt, er farið fram á í frv. um breyting á fátækralögunum, að þurfamenn geti neitað að láta flytja sig á framfærslusveit sína. Býst jeg því við, að ákvæði um þetta atriði þurfi nákvæmrar athugunar við, og að ekki megi hrapa að slíkum breytingum.

Eitt er það enn í þessu máli, sem altaf er að verða meir og meir áberandi. Það er hið mikla misrjetti, sem á sjer stað að því er snertir fátækraframfærsluna, hvað hún kemur misjafnt niður á hinar einstöku sveitir. Og þó mun með töluverðum rjetti mega líta svo á, að fátækraframfærslan sje í raun og veru alþjóðarmál. Því að fyrir fátæklingunum er sjeð vegna heildarinnar, þó að sveitirnar sjeu af praktiskum ástæðum látnar hafa framkvæmdina á hendi og jafnframt bera kostnaðinn. En það er kunnugt, að það er feikilega misjafnt, sem sveitirnar þurfa að leggja fram í þessu skyni. Þannig getur t. d. oft viljað til, að tveir menn, sem eru jafnt efnalega stæðir, beri svo misjafnt útsvar, að annar greiði 100 kr., en hinn 300 kr., þó að þeir sjeu nágrannar og lönd þeirra liggi saman, aðeins ef landamerki jarða þeirra eru jafnframt hreppamerki. Þetta er ekki sanngjarnt, og því er vert að athuga, hvort ekki er hægt að finna heppilega leið til þess, að fátækraframfærið komi jafnara niður en verið hefir hingað til. Í þessu sambandi vil jeg minna á, að til síðasta þings leituðu þrír hreppar um styrk, vegna þess að fátækraframfærslan var alveg að sliga þá.

Til þess nú að athuga öll þessi mál, svo að hægt sje að skapa löggjöf, sem eigi við núverandi ástand í þjóðfjelaginu og samræmi sje í, telur allshn. nauðsynlegt að skipa milliþinganefnd, eins og till. fer fram á.

Þá vil jeg geta þess, að þótt till. þessi sje borin fram af allshn. þessarar deildar, þá er það með fullu samþykki allshn. Ed. því að þegar allshn. Nd. fór að athuga þessi mál og sá, hversu mikinn tíma afgreiðsla þeirra tók, þá bar hún tillögu þessa undir allshn. Ed., og hún fjelst á hana í öllum atriðum.

Jeg get nú vel búist við, að einhver kunni að segja, að þótt ekki hafi verið tími til að athuga þessi mál til hlítar á þessu þingi, þá hefði verið einfaldari leið að vísa þeim til stjórnarinnar heldur en að fara að skipa milliþinganefnd. Þetta má vel vera. En án þess að jeg vantreysti stjórninni í þessu efni, þá er það nú svo, að ýms mál, sem til hennar hefir verið vísað, hafa ekki komið frá henni aftur. Og minnist jeg í því efni frumvarps um breytingu á kosningalögunum; sem vísað var til hennar á síðasta þingi, en ekki hefir bólað á síðan.

Þó að stjórnin hefði nú viljað taka þetta mál til athugunar og leggja það fyrir næsta þing, hefði allshn. tæplega getað fallist á það, því að hún lítur svo á, að milliþinganefnd hafi miklu betri tök á að rannsaka málið til hlítar. Auk þess lítur nefndin svo á, að í milliþinganefnd eigi að eiga sæti fulltrúar þeirra aðilja, sem hjer eiga hlut að máli, til þess að þeim gefist kostur á að athuga þessi mál. Þyrfti nefndin því að vera þannig skipuð, að í henni ættu sæti: Maður, sem væri sjerstaklega kunnugur í kaupstöðum, í öðru lagi maður, sem væri sjerstaklega kunnugur í kauptúnum, og í þriðja lagi maður, sem væri vel kunnugur í sveitum. Á þennan hátt verður að teljast, að rjetti hvers aðilja væri best borgið.

Í tillögunni er farið fram á, að nefndin verði að mestu skipuð eftir hlutfallskosningu Alþingis, og má því ef til vill segja, að engin trygging sje fyrir því, að fulltrúar þessara alilja komist í nefndina. En mjer finst, að því verði að treysta, að þingflokkarnir sýni þann skilning í þessu máli, að þeir velji þann hluta nefndarinnar, sem þingið á að kjósa, með þetta fyrir augum.

Jeg býst nú ekki við, að annað verði haft á móti nefndarskipun þessari en það gamla, að það verði óþarflega kostnaðarmikið. En þá vil jeg benda á, að það verður líka dýrt að ræða öll þessi mál hjer, jafnilla undirbúin og þau eru. Er því ekki að vita, hversu margir dagar færu til þess. Get jeg því vel búist við, að aukakostnaðurinn við nefndarskipunina verði ekki svo mikill, þegar þessa er gætt, því eftir því, sem málin eru betur undirbúin, þarf þingið minni tíma til að ræða þau og afgreiða.

Eins og kunnugt er, var það milliþinganefnd, sem skipuð var 1901, er undirbjó núgildandi sveitarstjórnar- og fátækralög. Og því verð jeg að halda fram, að frá 1901 og til þessa tíma hafi orðið eins miklar breytingar á þjóðlífinu og voru þá orðnar frá því að eldri lög voru sett. Er því frá því sjónarmiði sjeð engu minni ástæða til þess að endurskoða lögin nú en var 1901, enda sýnir það sig og best í því, að altaf eru að verða háværari raddir um að fá þessari löggjöf breytt að ýmsu leyti.

Jeg vænti þess, að undir umræðunum um þessa till. geti komið fram ýmsar góðar bendingar frá hv. þm. um þessi mál, sem geti orðið til leiðbeiningar fyrir þessa fyrirhuguðu nefnd.

Þá er eitt aðriði, sem jeg vildi minnast á, en jeg því miður verð að tala um eingöngu fyrir reikning sjálfs mín, því að nefndin hefir ekki haft tækifæri til að láta álit sitt í ljós um það atriði.

Þótt farið sje fram á í till., að nefnd þessi sje skipuð samkvæmt hlutfallskosningu sameinaðs Alþingis, þá vona jeg, að hún verði skipuð þannig, að hún hafi sem víðtækasta þekkingu á högum þjóðarinnar. Væri því æskilegast, að flokkarnir beiti ekki afli við kosninguna, til þess að í nefndinni geti líka átt sæti fulltrúar þeirra flokka, sem ekki hafa afl til að koma manni að, ef kröftum er beitt á annað borð.

Jeg álít því, að vel færi á, að samkomulag gæti orðið um þetta atriði og að allir flokkar þingsins ættu fulltrúa í nefndinni. Hjer ætti ekkert pólitískt reiptog að komast að, en aðaláherslan lögð á það að vinna gagn og ráða heppilega fram úr þessu máli.