22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mig minnir, að við fyrri umr. þessa máls spyrði hv. 2. þm. Rang. (KIJ), hvort stjórnin treysti sjer til að undirbúa þessa löggjöf fyrir næsta þing, eða óskaði fremur milliþinganefndar. Jeg álít, að stjórnin geti ekki sagt, að hún treysti sjer ekki til að gera þetta, eða að sjerstök vandkvæði sjeu á að undirbúa löggjöf þessa, svo að leggja mætti frv. fyrir næsta þing um þetta efni. En hitt þykir mjer þó rjettara að taka fram, að jeg tel ekki ósennilegt, að stjórnin muni þurfa að kveðja sjer einhverrar aðstoðar í þessu efni, en ofætlun ætti henni ekki að vera að ljúka undirbúningi málsins fyrir næsta þing.

Jeg skal heldur ekkert fullyrða um það, hvort undirbúningur stjórnarinnar yrði eins góður og fullkominn eins og hjá milliþinganefnd. Það er ekki mitt að dæma um það, en mjer þykir þó sennilegt, að svo gæti orðið.

Annars tel jeg líklegt, að stjórnin geti unnið þetta starf, en slæ þann varnagla, að vel geti farið svo, að kaupa þurfi einhverja aðstoð.

Jeg býst við, að ef stjórninni yrði falið að gera þetta, þá yrði sú leið farin að senda fyrirspurnir til sveitar og bæjarstjórna um, hvaða atriði þurfi sjerstaklega að endurskoða eða breyta. En jeg tek undir það, sem hv. 2. þm. Rang. (KIJ) sagði um fátækralöggjöf okkar og sveitarstjórnarlög, að til þeirra hefði verið svo vel vandað í öndverðu, að búast mætti við, að margt yrði tekið upp að nýju, en hinsvegar ekki að undra, þó að lög, sem staðið hafa um 20 ára skeið, sjeu í einhverjum atriðum orðin á eftir tímanum.

Þá býst jeg við, að samfara nefndarskipuninni hljóti að verða töluverður kostnaður, vafalaust meiri en ef stjórnin á að undirbúa málið. En vel má vera, að hv. þm. líti svo á, að svo miklu meiri trygging verði fyrir góðum undirbúningi, ef milliþinganefnd verður skipuð í málinu, að þeir horfi ekki í þann kostnað, sem sú leið hefir í för með sjer, umfram það, sem stjórnin e. t. v. þarf að greiða fyrir aðstoð við undirbúning málsins. Út á það skal jeg ekkert setja, enda má vel vera, að jeg geti ekki verið allsendis óvilhallur dómari í því efni.

Eftir umr., sem hjer hafa orðið um útsvarsálagningu hinna einstöku bæjar- og sveitarfjelaga, þá skilst mjer, að ekki muni stjórninni ókleift að undirbúa það mál fyrir næsta þing og koma á samræmi í þeim efnum, er menn megi vel við una.

þá er annað atriði, sem hv. allshn. óskar sjerstaklega, að væntanleg milliþinganefnd taki til meðferðar, sem sje löggjöfin um kosningarrjett til bæjar- og sveitarstjórna. Við fyrri umr. spurðist jeg fyrir um það, hvort hv. allshn. ætlaðist ekki til, að löggjöfin um þetta efni yrði samræmd, sjerstaklega með tilliti til yngri laga, og þætti mjer gott að heyra álit hv. nefndar um það.