22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Ágúst Flygenring:

Jeg þykist vita, að þáltill. þessi muni aðallega fram komin vegna frv., sem jeg bar fram í byrjun þings, en enn er óútrætt. Það frv. mun vera aðaltilefni till., þó ýms önnur frv. hafi komið fram um breytingar á bæjar- og sveitarstjórnarlöggjöf landsins. Þessu frv. mínu hefir ranglega verið haldið til baka, vegna sjerstaks kapps vissra sveita, sem þykjast misrjetti beittar, ef það yrði samþ. Get jeg þó eftir atvikum sætt mig við þessi málalok að þessu sinni, ef löggjöf landsins um þessi efni verður samræmd áður en mörg ár líða, því jeg þykist vita, að það muni leiða til þess, að þeim atriðum, sem fyrir mjer vöktu við flutning frv., verði skipað á viðunandi hátt. Þar sem nú má gera ráð fyrir, að öll sveitar- og bæjarstjóraarmálefni svo og fátækramálefni verði tekin til rækilegrar yfirvegunar fyrir næsta þing, þá þykir mjer rjett að gera ofurlitla grein fyrir því, hvað jeg tel óþægilegast og ranglátast í þessum efnum nú og tel því þurfa að breyta.

Fyrst verður fyrir mjer ákvæði 37. gr. sveitarstjórnarlaganna, að útsvarsskylda skuli bundin við ákveðinn fjörð eða flóa í sama sýslufjelagi. Landhelgin á að sjálfsögðu að vera öllum landsbúum jafnrjetthá, og ef svo er, þá er óviðurkvæmilegt, ef þeir einir eiga að vera út undan, sem svo eru settir, að enginn fjörður eða vík liggur að hreppsfjelagi þeirra, er þeir gætu haldið sjer á. Þetta ákvæði hefir verið sett einvörðungu af hreppapólitískum ástæðum og er ófært. Þá er ekki rjett, að lagt sje útsvar á báta, sem stunda fiskiveiðar utan heimilis síns skemur en þriggja mánaða tíma. Það er ekkert vit í því að elta menn á röndum með útsvarsálagningu, eins og sagt er að átt hafi sjer stað sumstaðar á Norðurlandi. Sá eltingaleikur líkist hreinlega ráni, og geta menn með því móti hvergi gert sjer von um að fá að vera í friði stundinni lengur án þess að greiða svo og svo mikið útsvar. Þó ekki sje annað en að bátur komi til hafnar örfáum sinnum, til þess að selja nokkrar tunnur af síld, þá þykir sjálfsagt að gera honum að greiða útsvar. Þetta er jafnlangt gengið og að leggja útsvar á mann hjeðan úr Reykjavík, sem bregður sjer vikutíma upp í Mosfellssveit til þess að heyja 10–20 hesta. Að vísu segja menn, að þetta sjeu atvinnurekendur. En hjer á landi er ekki svo gott að greina á milli vinnuþega og vinnugjafa. Það fer hvort eð er oftast nær saman hjer hjá okkur í smábúskapnum, svo að sú skifting rjettlætir þennan eltingaleik á engan hátt.

Hinsvegar er ekki allskostar rjett að binda útsvarsskyldu eingöngu við heimilisfang manna. Þá er hætt við, að menn misbrúki það ákvæði og láti skrifa sig þar, sem þeir hafa aldrei átt heima, í þeirri von að sleppa betur við útsvarsgreiðslu, enda munu slíks dæmi nú. Jeg álít, að það heimili eigi að gilda, þar sem menn hafa dúk og disk og þar sem gjaldþegninn framfærir heimili sitt.

Þessi atriði þarf fyrst og fremst að leiðrjetta, og er það lafhægt án þess að raska að nokkru aðalgrundvelli almennra rjettinda borgaranna í sveitarfjelögunum.

Að því er snertir það atriði, að skipa milliþinganefnd til að athuga þessi mál, þá get jeg lýst yfir þeirri skoðun minni, að það veiti ekki eins mikla tryggingu fyrir góðum árangri og hitt, að vísa málunum til hæstv. stjórnar. Fjöldi milliþinganefnda hefir verið skipaður á ýmsum tímum, en frv. þeirra hefir ekki verið sint frekar á nokkurn hátt en öðrum frv., sem fram hafa verið borin hjer á Alþingi, og ekki eins mikið og stjfrv. alment. Auk þess á að kjósa þessa nefnd hjer í þinginu, og er því engin vissa fyrir, að í hana veljist jafngóðir starfskraftar og stjórnin á altaf kost á að kveðja sjer til aðstoðar, en hinsvegar er alveg víst, að slík aðstoð verður altaf mun ódýrari en milliþinganefnd getur nokkum tíma orðið. Jeg legg því til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar úr því sem komið er.