22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg hefi í sjálfu sjer ekki mikið að segja, því að hv. form. allshn. (MT) hefir tekið af mjer ómakið og svarað mörgu af því, sem fram hefir komið gegn skipun þessarar nefndar. Svo gerði jeg og nokkra grein þessarar till. við fyrri umr. Og jeg get ekki fundið, að það, sem jeg sagði þá, hafi verið hrakið.

Hæstv. atvrh. (MG) taldi engin vandkvæði á, að stjórnin undirbyggi þessi tvö atriði til næsta þings, sem sjerstaklega er lögð áhersla á í þáltill. að hraðað sje, sem sje um útsvarsskyldu manna og um kosningarrjett til sveitar- og bæjarstjórna. En eins og greinargerðin ber með sjer, var ætlast til þess, að mörg fleiri atriði í sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfinni kæmu til rannsóknar, ef milliþinganefnd yrði skipuð. Og það liggur nærri að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG), hvort undirbúningur þessara mála geti orðið slíkur hjá stjórninni, að líkur sjeu til þess, að næsta þing geti bygt á honum nýja löggjöf, og ennfremur hvort stjórnin geti tekið öll þau atriði til íhugunar, sem ætlast er til að milliþinganefnd annars gerði.

Eitt af þeim er t. d. viðskifti sveitarstjórna innbyrðis, og vil jeg þar sjerstaklega fyrir mína hönd minna á það, að hjer á þingi hefir verið flutt áður frv. um að veita sveitarfjelögum rjett til þess að tryggja sig gegn hættulegu innstreymi fólks úr öðrum hjeruðum.

Jeg vænti þess því, ef að því ráði verður horfið að vísa málinu til stjórnarinnar, að hæstv. stjórn taki þetta til athugunar, engu síður en margt annað, sem ætlast er til að verði tekið til athugunar.

Hæstv. atvrh. gat þess, að ef stjórnin tæki við málinu, mundi hún þurfa að kaupa sjer aðstoð. Jeg tel það vafalaust rjett. En benda vildi jeg á í sambandi við það, að hvernig sem með málið er farið, kostar það eitthvað og að kostnaður við milliþinganefnd er því ekki alger aukaeyðsla. Hæstv. atvrh. og fleiri hv. þm. hafa haldið því fram, að kostnaðarmunur yrði geipimikill á því, að fela stjórninni málið, heldur en að skipa milliþinganefnd. Jeg fullyrði ekkert um það, en jeg efa, að það sje rjett, ef alt er tekið til greina.

það er þá fyrst, að kaupa verður aðstoð, samkvæmt yfirlýsingu hæstv. ráðh. Í öðru lagi ljet hann þess getið, að hann mundi leita álits hreppsnefnda og bæjarstjórna um þetta mál. Eitthvað mundi það kosta.

En höfuðatriðið er það, að jeg óttast, ef stjórnin fer með málið, að ekki verði eins tekið tillit til hagsmuna og ástæðna allra stjetta eins og ef nefnd færi með, sú er allir flokkar ættu sæti í. Og hvað sem stjórnin legði til, þá mundi það taka þingið langan tíma að ákveða sig. Það yrði erfitt um samkomulag. En ef meðferð málsins í þinginu kostar meiri tíma, ef stjórn undirbýr það, heldur en milliþinganefnd, þá ætla jeg, að þar komi á móti ærinn hluti kostnaðar við nefndina. Jeg verð því að efast um, að það sje dýrara, að nefndin verði skipuð.

Þá gat hæstv. ráðh. (MG) þess, að núverandi sveitarstjórnar- og fátækralöggjöf hefði verið vel undirbúin á sínum tíma og reynst vel. Þetta er að vísu rjett, en ástæður allar hafa breyst síðan, svo að nú er orðin nauðsyn að endurskoða þessa löggjöf, og er það reyndar játað af öllum. Og allshn. leggur einmitt til, að þessi endurskoðun verði framkvæmd á sama hátt og löggjöfin var undirbúin, nefnilega að milliþinganefnd geri það. Sá undirbúningur var að dómi hæstv. atvrh. góður. Ef skipun milliþinganefndar var góð þá, er hún það eins nú.

þá hjelt sami hæstv. ráðh. (MG) því fram, að reynslan af milliþinganefndum væri ekki góð. Frv. þeirra væru oft ekki samþ. Þetta er rjett um sumar, aðrar ekki. Í þessu máli er reynslan einmitt góð.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) ætla jeg ekki að svara neinu. Hann talaði um, að það væri ekki eins mikil trygging, ef nefnd yrði skipuð, eins og ef málinu væri vísað til stjórnarinnar. Jeg er annarar skoðunar. Mjer virðast meiri líkur til, að starf nefndar beri árangur.

Hv. form. allshn. (MT) tók fram, að þótt hann fyrir hönd nefndarinnar hafi lagt til, að till. yrði samþ., þá væri sjer það ekki kappsmál, ef stjórnin lofaði að gera það verk, sem milliþinganefnd var ætlað. En eftir því, sem hæstv. atvrh. fórust orð, og þótt hann gæfi góðar vonir um endurbætur á þessum tveimur atriðum, þá fann jeg ekki, að hann gæfi svo skýlaus loforð, að jeg geti fallist á að taka till. aftur. Hv. þdm. verða að hafa það eins og þeim sýnist um þetta mál.

Jeg býst við, úr því sem komið er, að málið græði ekki á löngum umræðum, en mjer þótti rjett að taka þetta fram um mótbárur þær, sem fram hafa komið, úr því að jeg er frsm. nefndarinnar. Býst annars ekki við að standa í deilum um þetta.