22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í D-deild Alþingistíðinda. (3324)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Magnús Torfason:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar lengi. Eftir ummæli hæstv. atvrh. (MG) í síðari ræðu hans þarf jeg þess ekki.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) fann að framsögu framsögumannsins, skal jeg leyfa mjer að geta þess, að sumt, sem hann sagði, var sagt fyrir eigin reikning, eins og hann gat um. Hann kom með atriði, sem lítið var minst á í nefndinni og ekki tekin afstaða til.

Viðvíkjandi því, að vísa þessu máli til stjórnarinnar og að hún geti aflað sjer aðstoðar, skal jeg benda á, að hún hefir mörgum öðrum verri aðstöðu í þessu máli. Jeg vænti þess, að aðstoðarmenn stjórnarinnar verði helst teknir hjer í Reykjavík, en jeg hjelt, að hv. 2. þm. Skagf. væri engin sjerstök ánægja að því, að á frv. væri Reykjavíkurstimpill.

Jeg skal aðeins benda á, hvað grundvallaratriðið er í þessu máli. Það er vitanlega þetta, að mönnum þykir ástandið illþolandi og vilja fá því breytt. En allshn. leit svo á, að breyting mundi ekki ná fram að ganga, eins og þingið er samsett, og að ekki mundi annað á vinnast en að vekja deilur og tefja þingstörfin. Jeg álít rjettara að láta ekki þau mál koma frá nefnd, sem engin von er um að gangi fram. Hæstv. atvrh. hefir lagt í vald deildarinnar, hvort þessi nefnd skuli samþykt eða ekki. Þeir, sem ánægðir eru með fátækralögin og engu vilja breyta, kæra sig sennilega ekki um, að nefnd sje sett á laggirnar, en hinir, sem breytingu vilja, fylgja þá till. Jeg er ekki í neinum vafa um, að enda þótt hæstv. atvrh. kæmi með sæmilegt frv., mundi það ekki ganga fram í báðum deildum, eins og þingið er samsett. Til þess að virkileg breyting fáist gerð, þarf að komast á samkomulag milli flokkanna.

Því hefir verið slegið fram, að nefndin gæti klofnað. Þetta getur vel verið. En fyrir klofning væri ekki girt, þó að stjórnin bæri fram frv. Hann kæmi aðeins í ljós síðar.

Jeg skal minna á, að tilskipun um sveitarstjórn var gefin út 1872. Um aldamótin var síðan sett nefnd til þess að undirbúa fátækralögin. Síðan eru liðin 25 ár, og á þessum tíma hafa orðið miklu meiri breytingar en næstu 28 ár á undan. Það er því líklegt, að full þörf sje orðin á endurbótum, enda sjest það líka af því, að á hverju þingi rignir frv. um þetta efni. Það hefir verið kastað nokkrum hnútum að allsherjarnefnd í umræðum þessa máls. Jeg geng fram hjá þeim, því það er ekki vani minn að deila á hv. þm. En jeg get lýst því yfir, að það eru aðeins örfá mál, sem nefndin hefir ekki gengið frá, og þeim er þannig varið, að jeg hygg, að sú sje skoðun meiri hl. deildarinnar, að þau eigi ekki að ganga fram.