22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3325)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jón Baldvinsson:

Af því að þetta er líklega síðasta tækifærið fyrir mig til að tala í þessu máli, þangað til það kemur frá hinni væntanlegu milliþinganefnd eftir ár eða meira, vildi jeg segja nokkur orð, því að jeg býst ekki við, að Alþýðuflokkurinn eftir atkvæðamagni eigi rjett á að koma manni í þessa nefnd.

Jeg skal fara fljótt yfir sögu og sleppa að minnast á ýmislegt, sem jeg var ósamþykkur í ræðum þeirra hv. 2. þm. Rang. (KIJ) og hv. þm. Barð. (HK). Sá síðarnefndi fór óvægilegum orðum um starf allshn., og tel jeg þau ummæli hans ómakleg og ekki á neinum rökum bygð. Sú nefnd hefir haft einna mestu starfi að sinna, og hún hefir afgreitt mörg mál, þó að tími sje takmarkaður, þar sem þingfundir eru venjulega langir. Jeg tel því alveg ástæðulaust að ásaka nefndina.

Það, sem jeg legg mesta áherslu á í starfi væntanlegrar nefndar og óska að verði afgreitt sem fyrst, er að gera ákvæði um útsvarsskylduna og um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfjelög. Einnig tel jeg fátækramálin í fremstu röð mála, sem þarf að taka fyrir.

Það er þetta þrent, sem fyrst og fremst verður að taka til meðferðar og úrlausnar og taka tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa síðustu 10–15 ár. En það er ekki vandalaust að leysa þetta vel af hendi, og það er rjett hjá hv. 2. þm. Skagf. (JS), að skoðanirnar eru mismunandi. En það er ekki rjett ályktað af því, að best sje að hafa menn úr einum flokki í nefndinni. Þá er hætt við, að þingmenn úr öðrum flokkum rísi upp á móti, vegna hagsmuna þeirra stjetta, sem þeir bera fyrir brjósti. Því er ekki besta ráðið það, að fyrirfram sje ákveðið, að þeir menn verði í nefndinni, sem fyrirfram eru á eitt sáttir, heldur að taka hina með. Þá mætti fremur gera ráð fyrir viðunanlegum árangri.

Ef allir flokkamir kæmu sjer saman um væntanleg frv. milliþinganefndarinnar, þá er víst, að þau yrðu að lögum, og þá yrði sennilega til þeirra vandað. Jeg býst ekki við, að minn flokkur fái að eiga fulltrúa í þessari nefnd, og kannske enn þá síður af því, að hv. 2. þm. Skagf. hefir lagst á móti mjer og mínum tillögum um breytingar á fátækralögunum. Jeg álít samt, að gott væri, að þessi skoðun ætti fulltrúa í nefndinni, því að hún mun ryðja sjer til rúms og sigra. Fátækralögunum verður fyr eða síðar breytt í þessa átt. En það er misskilningur hjá hv. þm. (JS), að jeg mundi endilega taka þetta sæti. Jeg mundi alls ekki taka það, þó að Alþýðuflokkurinn fengi að hafa fulltrúa í nefndinni.

Að því er snertir útsvarsskylduna, verður að taka tillit til ýmsra aðilja. Reykjavík hefir nú, að því er útsvarsálagninguna snertir, fengið samsvarandi ákvæði og sveitirnar höfðu áður. Jeg er ekki ósamþykkur því, að verkamenn og sjómenn sjeu undanþegnir útsvörum annarsstaður en þar, sem þeir eiga lögheimili. En það verður að gæta þess, að bæjarfjelögin sjeu ekki svift of miklum tekjum. Lögin mega ekki vera svo úr garði gerð, að myndast geti umhverfis bæina sveitarfjelög, sem njóta alls góðs af þeim, en bera ekki byrðar þeirra á neinn hátt. Í veg fyrir þetta mun komið með ákvæðum, sem gilda í Reykjavík, en hafa verður gát á þessu víðar.

Um kosningarrjettinn til bæjarstjórna er það að segja, að hann er nú orðinn eins rúmur og kosningarrjettur til Alþingis var fyrir skömmu. En það er ekki nóg. Aldurstakmarkið er enn of hátt. Rjett væri að miða við 21 árs aldur, enda er sú regla víða komin á.

Hvort sem þessi nefnd verður sett á laggirnar eða ekki, getur ekki hjá því farið, að mál þessi verði tekin til yfirvegunar og breytt í betra horf. Árangur yrði vafalaust bestur, ef flokkarnir störfuðu saman, því komið væri þá í veg fyrir mótspyrnu síðar. Hv. 2. þm. Skagf. viðurkendi þetta í raun og veru, því hann talaði um, að stjórnin gæti einnig haft menn úr öðrum flokkum sjer til aðstoðar, og viðurkendi þannig nauðsyn á samvinnu flokkanna. (JS: það er annað að ráðgast um). Ef meiningin er sú, að aðeins eigi að heyra álit annara flokka, án þess að taka tillit til þess, þá gef jeg lítið fyrir þesskonar samvinnu.

Jeg get nú lokið máli mínu. Vildi aðeins taka fram það, sem jeg nú hefi sagt, af því að Alþýðuflokkurinn hefir ekki atkvæðamagn til þess að koma manni í nefndina.