22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Halldór Stefánsson:

það er ætlast til, að hjer verði fljót afgreiðsla á nokkrum málum, þar sem komið hefir fram tillaga um að vísa 7 frv. annaðhvort til stjórnarinnar eða skipa milliþinganefnd. Jeg vil benda á ósamræmi á þessu og því áliti, að hægt sje að komast af með, að þing sje aðeins haldið annaðhvert ár. Þingið hefir ekki tíma til að afgreiða þau mál, sem fram eru borin, þó að það komi saman á hverju ári.

Jeg vil þá minnast á einstök atriði þeirra tillagna, sem liggja fyrir í þessum frv. það er þá fyrst bæjargjaldafrv. Reykjavíkur. Jeg álít, eins og jeg þegar hefi lýst, að það frv. ætti að afgreiða og láta það ganga fram, því að með því fjellu niður ástæður fyrir nokkrum breytingum, sem farið er fram á í 3 öðrum frv. það fer fram á að sníða af broddinum á því, hversu langt er gengið í því að elta einstaklinga með útsvör. En hver sem afgreiðsla málsins verður, vil jeg láta þess getið, að það er áreiðanlega of langt gengið í þessu efni. Jeg býst ekki við, að hægt verði að losa frv. úr þessari keðju, en jeg vildi aðeins segja þetta til athugunar.

Þá ætla jeg að minnast á það, sem er aðalatriðin í frv. hv. 2. þm. Reykv. (JBald), um breytingu á fátækralöggjöfinni. Þar er farið fram á að slaka til um það, sem látið er varða rjettindamissi vegna fátækrastyrks, og í öðru lagi að rýra rjett sveitarfjelaganna til að krefjast fátækraflutnings. Það er talið mæla með þessum breytingum, að ákvæði gildandi laga um þessi atriði sje harðræði og órjettlæti gagnvart þurfamönnum, og mæli jeg ekki á móti því, að nokkuð sje hæft í því. En með tillögum þessa frv. eru einnig sett takmörk, aðeins á öðrum stað, og þá verður áfram samskonar misrjetti á milli þeirra manna, sem næstir eru takmörkunum til hvorrar handar, eins og nú. Það er sjálfsagt að setja þessi takmörk svo rjettlátlega, sem hægt er, með tilliti til allra ástæðna og afleiðinga. En jeg vil endurtaka það, að með alm. reglum er ekki hægt að setja þau takmörk, sem verða rjett í öllum einstökum tilfellum.

Það, sem hinsvegar þykir mæla á móti þessu, er það, að með því sje numinn burtu einn hemill, sem á því er, að menn leiti sjer fátækrastyrks. Jeg skal ekki fara út í, hvort það á að teljast kostur eða ókostur frá sjónarmiði þurfamanna, en jeg held, að það sje ókostur frá sjónarmiði framfærenda. Og jeg held, að það sje í þessu tilliti engu síður rjett og skylt að taka tillit til framfærendanna eins og framfæringanna. Það þekkjast mörg dæmi þess, að þegar einstakir menn þurfa fátækrastyrks í fjarlægum stöðum, er lítinn hemil hægt að hafa á, hvað útgjöldin verða mikil fyrir framfærslusveitina, og virðist oft ekki vera mikið í hóf stilt, einkum þegar litið er á, við hvaða kjör þeir eiga margir að búa, sem heima eru og leggja fram til þessa gjalds. Þá er fátækraflutningur eina aðhaldið, enda oft hægt að láta þurfalinginn fá betri atvinnu heima fyrir en hann hefir á dvalarstaðnum. Margir verða þurfandi fyrir dugleysi og viljaleysi að bjarga sjer, en heimta framfæri sitt sem sjálfskyldu af öðrum, meta þá ekki heldur mikils alm. mannrjettindi og eiga þau ekki skilin.

En hvernig sem úr þessu kann að verða leyst í framtíðinni, vil jeg benda á, hver afleiðingin ótvírætt yrði, ef allar hömlur verða numdar í burtu. Afleiðingin yrði sú, að annaðhvort yrði landið alt eitt framfærsluhjerað, ef svo mœtti að orði komast, enda væri þá engin ástæða til að vera lengur á móti, þegar allar hömlur um ásókn í fátækrastyrk væru afnumdar, eða að hver maður ætti þar framfærslurjett, sem hann á fast aðsetur eða lögheimili. Önnurhvor þessi yrði afleiðingin fyr eða síðar. Jeg er ekki að hafa svo mjög á móti þessum breytingum, heldur aðeins að benda á afleiðingarnar.

Þá ætla jeg ekki að minnast á fleiri atriði í frv., en aðeins drepa á þær tvær tillögur, sem hjer liggja fyrir, þáltill. og dagskrána.

Mjer þykir mjög tvísýnt, að málin fái betri afgreiðslu, þó að sjerstök nefnd verði skipuð til að rannsaka þau, en ef þeim verði vísað til stjórnarinnar.

Þessi mál eru ekki í eðli sínu flokksmál, en með því að skipa í þau nefnd úr öllum flokkum þingsins, er það undir eins fyrirfram búið að fá flokkslegan blæ. Sjeu þau þannig orðin flokksmál, eru engar líkur til þess, að nokkuð samræmi verði í tillögum nefndarinnar, eða að á þeim verði byggjandi fyrir heildina. Ef tillögur stjórnarinnar þættu þannig, að þær hefðu á sjer flokkslegan blæ, sem minni líkur eru til, þá er engu verra, að slegist verði um það eftir á, en að slegist verði bæði fyrirfram og eftir á. En jeg býst alls ekki við, að svo færi, þó að málunum verði vísað til stjórnarinnar. En viðvíkjandi stuðningi sýslu nefnda og sveitarstjórna, sem stjórnin gæti haft við undirbúning þessa máls, þá vil jeg taka undir með þeim, sem álíta, að meiri stuðningur sje að fá álit þeirra um frumvarp en tillögur fyrirfram. Álit fyrirfram yrði óákveðið og dreift, og yrði lítið að byggja á svörunum. Best væri að leita álits aðilja bæði fyrirfram og eftir á, en það þykir líklega ekki vera tími til þess.

Eins og ósamræmi er í því að ætlast til, að þing sje haldið aðeins annaðhvert ár, og vinst þó ekki tími til að afgreiða mál til hlítar, þó að langt þing sje á hverju ári, eins er ósamræmi í því að vilja hafa aðeins einn ráðherra, en leggja þó til að vísa til sjerstakrar nefndar máli, sem stjórnin hefir lýst yfir, að hún væri fús að taka til athugunar. Sem sagt, ef málinu verður vísað til sjerstakrar nefndar, þá verður það að skoðast fullkomin bending um það, að ekki þykir nóg að hafa þriggja mánaða þing á hverju ári, heldur þykir þurfa að vera starfandi nefnd á milli þinga, en það vil jeg ekki viðurkenna og vil því, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.