21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jóhann Jósefsson:

Eins og hv. deild er kunnugt, hafa legið fyrir þessu þingi mörg frv. og brtt., sem gengið hafa í þá átt að breyta gildandi sveitarstjórnar- og bæjarstjórnarlögum svo og fátækralögunum.

Það er í sjálfu sjer vorkunnarmál, þótt þingnefndirnar hafi gefist upp við það að afgreiða öll þau mál á þessu þingi og horfið að því ráði, að hjeraðlútandi löggjöf yrði íhuguð öll í heild. Þau urðu málalok í hv. Nd., og virtust allir á það sáttir. Hitt hefir menn að vonum greint á um, hvort það skyldi gera í því formi, sem þáltill. fer fram á, eða hvort fela skuli stjórninni að láta athuga þessi mál og undirbúa fyrir næsta þing

Það er auðsætt, að milliþinganefnd, sem á að íhuga alt þetta, sem tilgreint er, fær ærið að starfa og hlýtur að kosta mikið. En af till. sjest, að ekki er ætlast til, að milliþinganefnd hafi tilbúin til næsta þings frv. nema um tvent: útsvarsskyldu og kosningarrjetti sveitarstjórna og bæjarstjórna. Með þessu er gefið í skyn, að starf nefndarinnar muni taka fleiri ár.

Hjer finst mjer nú ástæða til að athuga það, hvort hæstv. stjórn geti ekki látið þá athugun fara fram, sem nægi til þess að fullnægja þáltill., hvort stjórnin treystist ekki til þess að leggja fyrir næsta þing vel útbúin frv. um þetta tvent. Og áður en lengra er haldið vildi jeg leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. atvrh.,hvort hann treystir ekki stjórninni til þessa, með aðstoð þeirra manna, er vitrasta má telja í þessum efnum og fróðasta. Því var haldið fram í hv. Nd., að milliþinganefnd mundi kosta landið alt að 20–30 þús., og þess vegna lít jeg svo á, að nauðsynlegt sje að athuga vel hvort til alls þessa kostnaðar þurfi endilega að stofna.