21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (3337)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jónas Jónsson:

Þetta mál hefir þá forsögu, að allshn. hafði til meðferðar nokkuð af þessum lögum, er snerta sveitarstjórnarmál. En það varð að samkomulagi milli okkar nefndarmanna, og jeg skildi það svo, að svo hefði einnig verið milli nefndarmanna hv. Nd., að tiltækilegast væri að setja milliþinganefnd í alt málið, til þess að undirbúa löggjöf í þessum efnum.

Mjer kemur það því undarlega fyrir, að sumir nefndarmenn, þ. e. a. s. stuðningsmenn stjórnarinnar, virðast hafa horfið frá þessu og vilja vísa málinu til hæstv. stjórnar. Jeg veit ekki, hvað hv. samnefndarmenn mínir gera, en því er ekki hægt að neita, að við vorum allir sammála um þetta.

Ástæðan til þess, að jeg óskaði milliþinganefndar, var sú, að þetta er svo mikið hagsmunamál fyrir allar stjettir, og það er vonlítið, að við fáum varanlega lagagerð í þessu efni nema frá milliþinganefnd, fremur en ef einn maður fengist við undirbúninginn. Það kemur ekki af því, að jeg álíti ekki hæstv. atvrh. (MG) ef til vill hæfari flestum öðrum til þessa starfs, heldur hinu, að enginn einn maður hefir í sjer alla þá strauma, sem gera nú vart við sig í þjóðlífi voru.

Hæstv. atvrh. lítur svo á, að milliþinganefnd sje ætlað heldur lítið verk fyrir næsta þing. Þessum málum mætti þá vísa til nefndar hjer á ný, og hún gæti kveðið á um verk milliþinganefndar, þannig að ekki væri gert ráð fyrir öðru en sæmilega miklu verki.

Jeg verð að víkja að því aftur, að þegar þessi lög voru gerð, er nú standa, þá undirbjó milliþinganefnd málið. Jeg hefi spurt hæstv. forsrh. (JM) um þetta, og kvað hann verk nefndarinnar hafa tekið hluta úr þremur árum.

Þeir menn, er þá sátu í milliþinganefnd, gerðu þau lög, er enn gilda í flestum greinum og menn hafa unað allvel við, þótt breyttar ástæður og atvinnuhættir hafi nú sprengt þá umgerð.

Og nú eru kröfurnar orðnar svo margar og háværar, að það er óhjákvæmilegt að gera gagngerða breytingu á öllu kerfinu. Og það er ekki ástæða til að ætla, að þetta verði neitt auðveldara verk en það var laust eftir aldamótin. Þá höfðum við mikilhæfan mann í landsstjórn, Magnús Stephensen. Það kastar því engri rýrð á núverandi ráðh., þótt milliþinganefnd verði skipuð.

Að öðrum kosti óttast jeg, að verkið verði ekki unnið eins rækilega og með þyrfti. Stjórn hefir, eins og kunnugt er, mikið að gera, og einn maður getur varla látið koma fram þá margvíslegu hagsmuni, sem nú eru innan þjóðfjelags okkar.

Þetta hefir oft borist í tal milli mín og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), og hefir okkur komið saman um, að velja ætti nefndarmenn þannig, að tekið væri tillit til stærri bæjanna, sveitanna og kauptúnanna, og á hinn bóginn aðalstjettanna, útgerðarmanna, bænda og verkamanna.

Ef stjórnin tekur að sjer verkið, má búast við, að hún ætli sjer að fá einhvern lögfræðing hjer í bænum til þess að vinna eitthvað af verkinu fyrir sig. Það er auðvitað æskilegt að fá þetta unnið án mikils kostnaðar, og eins og hv. þm. Vestm. tók fram, yrði það ódýrara með þessum hætti en í nefnd. En það er spurning, hvort það borgar sig að hafa málið óleyst enn um óákveðinn tíma. Það er ákaflega hæpið, að hægt verði að koma svona lagakerfi, lituðu af skoðunum eins manns, gegnum þingið. Jeg vil benda á, að núverandi stjórn hefir borið fram mörg frv. á þessu þingi, og jeg þori að fullyrða, að ekkert þeirra hefir verið eins vandasamt að semja og þetta. Þó er niðurstaðan sú, að fæst af þessum frumvörpum stjórnarinnar gengur fram. En það kemur af því, að þau eru samin út frá sjónarmiði einnar stjettar. Ef hv. meðnefndarmenn mínir í allshn. hafa breytt um skoðun í þessu máli við að hlusta á ræðu hæstv. atvrh., geri jeg ráð fyrir, að nefndarskipun nái ekki fram að ganga. En þá þýðir ekki að fjölyrða um þetta, því að þá er fallinn sá grundvöllur að fá lausn á málinu með samkomulagi flokkanna.