21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í D-deild Alþingistíðinda. (3340)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Jóhannes Jóhannesson:

Það er alveg rjett hjá hv. 5. landsk. (JJ), að allsherjarnefndir beggja deilda ræddu þetta mál sameiginlega og komu sjer saman um, að borin væri fram þingsályktunartillaga í þessa átt. Það lá í augum uppi, að slíku máli sem þessu yrði ekki ráðið til lykta á skömmum tíma, en hinsvegar full þörf ýmsra breytinga. Það var stungið upp á að bera fram tillögu um að vísa málinu til stjórnarinnar, en niðurstaðan varð þó sú, að leggja heldur til, að skipuð yrði milliþinganefnd, og var þá verksviðið jafnframt aukið. Jeg hafði hvorki borið mig saman við flokk minn eða stjórnina um þetta og vissi ekki, hvort stjórnin treysti sjer til þess að undirbúa málið fyrir næsta þing. En nú er komið í ljós, að hæstv. atvrh. (MG) treystir sjer til þess að annast undirbúning málsins fyrir næsta þing, og þá sje jeg ekkert athugavert við að vísa málinu til stjórnarinnar. Í þessu máli getur ekki komið til greina flokkapólitík, heldur stjettapólitík. Með tilliti til þess yrði nefnd að vera skipuð, svo að árangurs mætti vænta. Milliþinganefnd yrði að kjósa eftir þingsköpum, og yrði hún því kosin eftir flokkum, en ekki stjettum, og væri þá engin trygging fyrir því, að sæmilega yrði gætt hagsmuna allra stjetta í nefndinni eða að samkomulag næðist þar. Jeg hallast því að till. hv. þm. Vestm. (JJós), um að vísa málinu til stjórnarinnar.