21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (3342)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 5. landsk. (JJ) gat þess, að málum hefði oft verið vísað til stjórnarinnar áður og það engin áhrif haft. Þetta er rjett hjá hv. þm. (JJ), en hann verður líka að gæta að því, að það liggja mismunandi ástæður til þess, að málum er vísað til stjórnarinnar. Það er oft gert til þess að losna við málin úr deildinni, eða til þess að losna við að kveða upp einhvern úrskurð um þau, og verður stjórnin því að vinsa úr þeim á eftir, eftir því í hvaða tilgangi það er gert. Jeg minnist þess t. d., að til stjórnarinnar var einu sinni vísað endurskoðun á heilum lagabálki, út af einu atriði, sem ekki líkaði. En það er ekki hægt fyrir stjórn að taka tillit til slíks, enda var það ekki meining þeirra manna, sem greiddu atkv. með því, að hlaupið væri eftir því. Hún verður því að sigta úr það, sem meiningin er í raun og veru að sje gert.

Hv. þm. (JJ) mintist á útsvarsmálið, sem jeg viðurkenni að sje töluvert vandamál, og hv. þm. (JJ) sagði líka um það frv., sem jeg hefi nú komið með, að það tæki ekki málið alt í gegn. Þetta er alveg rjett, jeg var að hugsa um að gera það, en þóttist sjá, að það væri ekki til neins, þegar þingið í fyrra samþ. lög um það efni, sem jeg var óánægður með, en nú er það komið fram, að hv. Nd. vill snúa af þeirri braut, sem hún fór inn á í fyrra, en úr því að hv. þm. (JJ) er óánægður með þetta frv. mitt, er það mjög leitt, að ekki skuli hafa komið neinar bendingar frá nefndinni um það, hvað hún er óánægð með. Annars er það sjeð, að hv. þm. (JJ) telur þessa lausn mína ekki mjög slæma, því að hann kvað ekki sterkar að orði en svo, að hann væri ekki fyllilega ánægður.

Þá mintist hv. þm. (JJ) á það, að það væri óhafandi, að sjerstök löggjöf væri fyrir hvern kaupstað um þessi mál. Það er rjett, að það getur af mörgum ástæðum verið meinlegt, og þegar næst kemur fram frv. um útsvarsskyldu, verða þar að vera ákvæði, sem eru sameiginleg, en þó mun það koma í ljós, að það geta þurft að vera sjerstök ákvæði fyrir einstaka staði; má þar t. d. nefna Siglufjörð. Hv. þm. (JJ) sagðist ekki vera ánægður með, að teknir væru útskikar af málinu og þeim ráðstafað; það er í sjálfu sjer rjett, en jeg tek það fram, að stjórninni er í þessari till. falið að koma á næsta þingi með frv. um 2 ákveðin atriði, útsvarsskyldu manna og kosningar til sveitarstjórnar og bæjarstjórnar. Get jeg þó ekki talið, að hið síðarnefnda sje sjerstakt vandamál, því að jeg veit ekki til, að nein óánægja sje með núgildandi lög í því efni.

Ekki lagði hv. þm. (JJ) mikla áherslu á það, að nefndin kynni að klofna, en það hlýtur nokkuð að fara eftir því, hvernig hún klofnar, og óþægilegt þykir það að minsta kosti hjer á þingi og leiðir oft til þess, að málin eru feld, en það er einmitt það, sem erfiðast verður hjer. Í sambandi við þá nefnd, sem skipa átti í fyrra, ólaunaða og af öllum flokkum, vil jeg geta þess, að jeg veit satt að segja ekki, hvort sú nefnd, sem skipuð var, er ólaunuð eða ekki, en jeg hefi heyrt það, að sumir nefndarmenn álíti, að þeim sje ekki ætlað að fá laun, og mjer hefir altaf fundist, að sú nefnd væri vel skipuð. (JJ: Já, en frv. hennar hafa fallið). Já, þar kemur að því, sem jeg segi, að frumvörp geta eins fallið, þótt frá nefnd sjeu.

Jeg skildi hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) þannig, að hann hefði verið samþykkur því, að þessi þáltill. hefði verið flutt, til þess að sýna með henni, að það yrðu ekki tekin fyrir önnur mál um þessi efni, sem væru borin fram á þinginu, og losna þannig við að vísa til stjórnarinnar hverju einstöku máli, sem þessu væri skylt, en hefði hinsvegar viljað vita um afstöðu stjórnarinnar um það, hvort hún teldi þörf á milliþinganefnd eða ekki. Ef þetta er ekki rjett skilið hjá mjer, þykist jeg viss um, að hv. þm. (JóhJóh) muni sjálfur leiðrjetta það.