21.04.1925
Efri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í D-deild Alþingistíðinda. (3345)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) var að minnast á mál, sem vísað hefði verið til stjórnarinnar á þingunum 1923 og 1924.

Það er aldrei nema rjett, að til hennar var vísað málum, sem gengu út á breytingar á sveitarstjórnarlöggjöfinni. En ef búist er við, að milliþinganefnd þurfi mörg ár til þess að undirbúa slíka löggjöf, þá er ekki hægt að ætlast til, að stjórnin geti gert það á einu ári. Annars skal jeg geta þess, að ekki eru enn þá komin svör frá nærri því öllum sýslunefndum viðvíkjandi þeim atriðum, sem leitað var álits þeirra um.

Þessi hv. þm. (GÓ) þóttist skilja mig svo, að jeg vildi fá að fjalla um þessi mál. Þetta er alveg rjett. Jeg tel það beinlínis embættisskyldu mína, ef þingið vill fela mjer það. Annars lít jeg svo á, að þetta geti ekki verið flokksmál, og það var það ekki heldur í Nd., og það gleður mig, að hið sama er hjer upp á teningnum, enda mun allshn. neðri deildar ekki hafa ætlast til, að það væri flokksmál, því að formaður hennar tjáði sjer það í ljettu rúmi liggja, hvort því væri vísað til stjórnarinnar eða milliþinganefndar.

Ef jeg legg ekki fyrir næsta þing frv. til laga um þau tvö atriði, sem jeg hefi áður nefnt, þá má hv. þm. A.-Húnv.(GÓ) bera mjer á brýn brigðmælgi. Og jeg vona, að jeg geti lagt fram frumvarp, sem hann að miklu leyti geti felt sig við.