08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg hefi áður minst á það við fjárlagaumræður, hve óljúft mjer væri að greiða atkvæði gegn ýmsum nauðsynlegum fjárveitingum, þótt jeg hafi orðið að gera það. Erfiðast hefir mjer þó fallið að setja mig upp á móti ýmsum verklegum framkvæmdum á ríkissjóðskostnað.

Jeg get búist við því, að hæstv. landsstjórn, og ef til vill einhverjum hv. þm., virðist það nokkuð hvatvíslegt af mjer að bera fram slíka tillögu sem þá, er hjer liggur fyrir, eins og nú standa sakir og nú eru horfur um framkvœmd verklegra fyrirtœkja af hálfu hins opinbera. Jeg vona þó, að mjer takist að færa sæmileg rök að því, að þetta er ekki eins fráleitt eins og það kann að sýnast í fljótu bragði. En til þess verð jeg þó að drepa á nokkur atriði, sem snerta hinn almenna fjárhag landsins og möguleika á því að stöðva ekki til lengdar mjög nauðsynlegar verklegar framkvæmdir í landinu, eða draga svo mjög úr þeim, sem flestum virðist nú þörf á. Vitanlega snerta þessi atriði öllu heldur óbeinlínis en beinlínis þá tillögu, sem hjer er um að ræða.

Jeg lít nú svo á, að tekjuhalli ríkissjóðs á tekjuhallatímabilinu frá 1917–23 hafi að nokkru leyti verið afleiðing af mistökum Alþingis í skatta og tollaálögum, og má nefna sem byrjun á þeim mistökum úrslitin á baráttunni um að láta dýrtíðar og gróðaskattinn ná til stórgróðans 1917. Hið sama má segja um úrslit annara tilrauna þá og síðar á þessu tímabili til þess að hækka tolla á óþörfum og ónauðsynlegum aðfluttum vörum.

Jeg er ekki að nefna þetta til þess að sakast um orðinn hlut. En hitt er það, að miklu er alvarlegra, að fenginni slíkri reynslu, ef slík mistök og önnur síst afsakanlegri gerast á þessu þingi, sem þá auðvitað mundi stuðla að enn lengri frestun nauðsynlegra framkvæmda í landinu.

Aukin útgjöld á þjóðinni og einstaklingum hennar eru jafnan viðkvæmt mál, ekki síst vegna þess, hve erfitt er að stilla í hóf um fullkomið jafnrjetti og sanngirni í þeim efnum.

Vjer stöndum líka að þessu leyti ver að vígi en flestar aðrar þjóðir, vegna fátæktar. En hvers vegna erum vjer svona átakanlega snauðir? Ekki vegna þess, að auðsuppsprettur vorar sjeu ekki nógar, saman borið við fólksfjölda. Ekki heldur vegna dugleysis eða athafnaleysis við framleiðslu auðæfanna. Þvert á móti hefir verið vitnað til þess, að vjer stæðum feti framar en aðrar þjóðir hvað snertir dugnað við framleiðsluna. Nei, fátæktin stafar hvorki af því, að auðsuppsprettur sjeu ónógar, nje af dugleysi við framleiðsluna. Menn segja, að það sje svo dýrt að framleiða, að afgangurinn verði lítill eða enginn, vegna kostnaðarins. Þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Aðalorsökin til þess, að afgangurinn verður jafnan lítill, er óhóf og eyðslusemi. Óhófleg eyðsla munaðarvara og margra fánýtra hluta, sem engum koma að haldi, glatar þannig árlega afskaplega miklu verðmœti um aldur og æfi, fyrir öldum og óbornum. Þess vegna ætti Alþingi að skuldbinda alla, eldri og yngri, sem gera sig seka um slíkt, til miklu meiri fjárútláta til ríkisins í hvert sinn heldur en nú er og lítur út fyrir að verða að loknu þessu þingi. Fyrst og fremst ætti þetta að ná til tóbaks- og áfengiseyðslu og svo til margs annars, svo að jafnan væri nægilegt fje til framkvæmda nauðsynlegra hluta, svo sem eru sjúkrahús, hafnir, vitar, vegir, brýr o. fl. Og úr því að svo er komið, að Alþingi sjer engar leiðir færar eða vill ekki fallast á að hefta munaðar- og óþarfaeyðsluna nje skattleggja hana svo að dugi til þess að halda sæmilega uppi framkvæmdum, sem ríkinu ber að annast, þá liggur það næst að fara aðra leið og snúa sjer til þeirra manna, sem með sparnaði draga saman nokkurt fje, og fá hjá þeim hagkvæm lán smátt og smátt til hinna allra nauðsynlegustu framkvæmda, sem annars yrðu að bíða, og fá það á líkan hátt og í líku augnamiði og farið er fram á í þessari till.

Það ber mikið á milli, sem vonlegt er, um skoðun mína og hæstv. stjórnar um stefnur til þess að afla ríkissjóði tekna. En um eitt verulegt atriði er jeg henni þó samdóma, og það er að taka ekki nýtt erlent lán til þess að borga með lausar skuldir, svo að á þann hátt mætti losa nokkurt fje til verklegra framkvæmda. En hitt tel jeg alveg sjálfsagt, að taka hagkvæm lán hjá landsmönnum sjálfum, þegar svo stendur á, sem um er að ræða í þessari tillögu, fyrirtæki, sem gefur margfaldan arð fyrir alda og óborna og gefur mönnum alveg sjerstakt tækifæri til þess að spara eitthvað miður nauðsynlegt og leggja fjeð til ávöxtunar á tryggan hátt.

Um aðalefni till. um brúna á Hvítá ætla jeg að vera fáorður. Það er langt síðan hjeraðsmönnum fjær og nær brúarstæðinu var ljóst það mikla hagræði, sem brúin mundi veita í nútíð og framtíð. Sýslurnar báðar hafa með styrk úr ríkissjóði lagt fram mikið fje til vegagerðar báðumegin brúarstæðisins. Vegamálastjóri landsins hefir um fjöldamörg ár stutt hugmyndina um framkvæmd í þessu efni og glætt vonina um skjótari úrslit en nú virðast vera horfur á. Hjeraðsmenn eru yfirleitt sparsamir á alla ónauðsynlega hluti, en aftur á móti vanir við framkvæmdir varanlegra verklegra umbóta, eins og raun ber vitni um fyrir þá, sem ferðast þar um eða eru þar nokkuð kunnugir. Það er því eðlilegt, að þeir, sem mestra hagsmuna mundu njóta af því, að þessi brú kæmist á, sjeu dálítið óþreyjufullir, eftir því sem það dregst lengur, enda hafa hjeraðsmenn notað hvert tækifæri til þess að koma óskum sínum og kröfum í þessu máli á framfæri við alla þá, sem á einhvern hátt hafa verið eða eru líklegir til þess að þoka því áfram. Meðal annars hafa á flestum þingmálafundum í hjeraðinu, a. m. k. á seinni árum, verið samþyktar áskoranir til þingsins um að koma brúnni sem fyrst á. Þannig hefir verið í hvert sinn, sem jeg hefi haldið þingmálafund, eða við önnur tækifæri, er jeg sem fulltrúi hjeraðsins hefi búist til þings. Þá hefir verið ýtt undir mig til þess að gera mitt til þess að fá málinu hrundið í framkvæmd.

Meðal annars hefi jeg bygt mína till. á því, að á meðan brúin var á sýsluvegi, þá voru hjeraðsmenn reiðubúnir til þess að leggja fram fje að sínum hluta til fyrirtækisins, og mundi á þann hátt hafa liðið styttri tími þar til fyrirtækið komst í framkvæmd, ef ekki hefði bilað það, sem mest reið á, en það var gjaldþol ríkissjóðs til þess að standast kostnaðinn að sínu leyti. En nú og á síðastliðnu ári hefir verið góðæri, og jeg lít svo á, að nú reyni á þrek hjeraðsmanna til þess að gera sjálfir sitt til þess að koma þessari margendurteknu ósk í framkvæmd. Og jeg lít ennfremur svo á, að hjer sje hentugt tækifæri fyrir stjórnina til þess að koma fram umbótum og verklegum framkvæmdum, þrátt fyrir erfiðleika ríkissjóðs, svo að hægt verði að halda lengra á þeirri braut, sem komið var út á áður en kreppan skall yfir.

Jeg vil nú ljúka máli mínu um þessa till. með því að óska þess, að hv. deild taki henni vel og sömuleiðis hæstv. stjórn. Með því að flytja hana hefi jeg gert mitt til þess að ýta undir málið og færa það feti nær því að komast í framkvæmd en annars. Mjer er það ljóst, eins og jeg hefi nú skýrt frá í þessum fáu orðum, að þess er naumast að vænta, að ríkissjóður ráðist sem stendur í stórvirki eins og þetta af eigin efnum. Jeg giska á það, að hv. þdm. sje kunnugt um það svona hjer um bil, hvað slíkt kostar. Að vísu er ekki búið að rannsaka það til hlítar. En hitt er víst, að horfur eru á því, að þetta mundi enn dragast lengi, þrátt fyrir góðan hug þings og stjórnar, ef ekki verður tekinn sá kostur að fá lán hjá góðum mönnum málinu til framkvæmdar. Og eftir því, sem jeg veit best, þá hygg jeg, að stjórnin hafi sjálf, eftir óskum og þörfum ýmsra landshluta, tekið upp þann kost að láta ýms hjeruð hjálpa sjer sem mest sjálf, svo að það sannaðist, að þing og stjóra hjálpar þeim, sem hjálpa sjer sjálfir. Að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að vænta þess, að till. mín verði samþ. af hv. deild.