08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (3364)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það liggur í augum uppi, að þegar málið í heild verður tekið til athugunar, þá koma þær ár líka til greina, sem hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) talaði um. Ennfremur má minnast á það, að fjárveitingu í þessu skyni í fjárl. 1926 hefir enn ekki verið ráðstafað. En þess má vænta, að áður langur tími líði verði ákvörðun tekin um það, hvernig þessu fje verði varið. Verður væntanlega tilefni til að ræða það síðar. En jeg hefi ekki fært þetta enn þá í tal við vegamálastjóra og hefi yfirleitt ekki viljað gera neitt, sem gæti valdið því, að togstreita um þetta byrji nú strax hjer á Alþingi. En ef halda á fjárveitingum fjárlagafrv. innan vissra takmarka, þá er erfitt að strá loforðum til beggja handa. Jeg get persónulega lýst yfir því, að mjer mundi verða mikil gleði að því, ef hægt væri að ljúka byggingu allra þessara brúa á næstu 2–4 árum. En hinsvegar er ómögulegt að segja, hverjar ár og á hvaða ári hver um sig verði bygð.