08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3371)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Klemens Jónsson:

Þar sem farið er að ræða um brúargerðir alment, verð jeg að leggja þar nokkuð til málanna. Jeg hefi ekkert við það að athuga, að Hvítá sje brúuð sem allra fyrst, því að mjer er vel kunnugt um, að á því er mikil þörf. Heyrðist mjer hæstv. atvrh. (MG) ekki hafa neitt við það að athuga, heldur skildist mjer af orðum hans, að hann gæti vel fallist á þessa tillögu, og það ekki af þeirri ástæðu, að hv. þm. Mýra. (PÞ) flytti hana nú, heldur hefði verið ákveðið fyrir mánuði, í samráði við hv. þm. Borgf. (PO), að brúin skyldi gerð og verkið framkvæmt með því að selja hjeraðsbúum ríkisskuldabrjef. (Atvrh. MG: Nei, nei!). Jeg gat ekki skilið orð hæstv. ráðherra öðruvísi, enda er það ljóst, að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hefir skilið þau eins og jeg. Og jeg verð að taka undir með þeim hv. þm., að jeg kann illa við þessa aðferð. Mönnum í mínu kjördæmi hefir alls ekki komið til hugar að fara svo að. Jeg get vel skilið, að hv. þm. V.-Húnv. fari á stúfana og heimti brýr á árnar í Vestur-Húnavatnssýslu, þar sem margar ár í kjördæmi hans eru óbrúaðar enn þá, en standa þó í brúalögum. Og jeg vænti þess, að háttvirtir þingmenn lái mjer ekki, þótt jeg komi á eftir með brú á Bakkakotsá. Þessi brú er í brúalögum og í aðalpóstleiðinni austur í Skaftafellssýslu. Áin er mjög slæmt vatnsfall, jafnvel um hásumar. Jeg hefi ekki farið yfir hana nema í júlí og ágústmánuðum, en jafnan þurft að fá fylgd.

Þegar þess er gætt, að á þessi er í aðalpóstleiðinni austur í Skaftafellssýslu og í miðri blómlegri og fjölbygðri sveit, vænti jeg, að hv. þdm. geti skilið nauðsynina á því, að hún verði brúuð. Og fari svo, að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) fái því komið fram, að allar ár í hans kjördæmi verði brúaðar á næstunni, sem jeg veit að mikil nauðsyn er á og skal ekki mæla á móti, þá verð jeg að krefjast brúar á Bakkakotsá hið allra fyrsta.

Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að eftir að jeg kom á þing bárust mjer áskoranir frá íbúum Eyjafjallahreppa um að reyna fá brú á þessa á sem fyrst. Jeg sá mjer þó ekki fært að fara fram á fjárveitingu í þessu skyni, og hitt kom mjer ekki til hugar, að snúa mjer til hæstv. atvrh. Aftur átti jeg tal við vegamálastjóra, og kvað hann það ákveðið, í hvaða röð ætti að gera þær brýr, sem væru í brúalögum. Þó gæti það nokkuð farið eftir upphæð þeirri, sem veitt yrði í fjárlögum til brúagerðar, en gerði þó ekki ráð fyrir, að þessi brú yrði með þeim fyrstu. En verði farið að taka aðrar brýr út úr rjettri röð, þá verð jeg, eins og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), að flytja þingsályktunartillögu um það, að brú sú, sem jeg hefi getið um, verði gerð á næsta sumri, eða ekki síðar en árið 1927.