08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skildist á hv. 2. þm. Rang. (KIJ), að hann teldi mig hafa samið við hv. þm. Borgf. (PO) og lofað honum brúnni á ákveðnum tíma. Það er ekki rjett, að jeg hafi sagt þetta. Jeg gat þess, að hv. þm. Borgf. hefði átt tal við mig um málið, og jeg sagði hv. þm. Mýra. (PÞ), að ef hann vildi vita, hvað gerst hefði í því, gæti hann fengið þá vitneskju hjá mjer eða hv. þm. Borgf. Jeg kvað málið enn þá vera óútkljáð, og jeg vænti þess, að það hafi ýmsir heyrt, þótt hv. 2. þm. Rang. (KIJ) og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) hafi misskilið það, að jeg tók það skýrt fram, að samþykt þessarar tillögu mundi engin áhrif hafa á málið, frekar en það, að stjórnin mundi íhuga, hvort taka skyldi lán til þess að framkvæma þessi mannvirki örar en fjárveitingar fjárlaganna heimila. Annað fje en veitt er í fjárlögum hefir stjórnin ekki til þessara framkvæmda. Jeg veit ekki til, að það sje venja að ráðstafa fjárveitingum áður en fjárlögin hafa verið samþ., og vil jeg vísa því algerlega frá mjer, að jeg hafi það gert.

Jeg læt það ekki skifta mig neinu, hve margar þingsályktunartillögur kunna að koma fram í þessu máli. En hitt vona jeg, að hv. þm. skilji, að ekki verður auðið að fullnœgja öllum með þeirri fjárveitingu, sem nú er í fjárlagafrv.