08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í D-deild Alþingistíðinda. (3373)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Jón Kjartansson:

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu, vegna þeirra umræðna, sem fram hafa farið. Mjer skilst það vera upplýst, að einstök hjeruð muni geta fengið brýr á undan öðrum með því að kaupa ríkisskuldabrjef. Jeg verð að taka undir það með hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og leggja áherslu á að þetta er mjög óheppileg braut, sem verið er að leggja á. Það á að vera nauðsynin ein og ekkert annað, sem á að segja til um það, í hvaða röð á að brúa árnar.

Í mínu kjördæmi eru mörg stórvötn enn þá óbrúuð. Vil jeg sjerstaklega benda á Ásakvíslar, sem menn hafa búist við að fá brúaðar nú í mörg ár. Ef menn hefðu vitneskju um, að þeir gœtu fengið þær brýr með því að kaupa ríkisskuldabrjef, veit jeg með vissu, að ekki mundi standa á fjenu, því að kvíslarnar eru afarerfiður farartálmi.

Jeg trúi því ekki, að þingið vilji ganga inn á þessa braut, heldur vænti jeg þess, að það mótmæli fastlega og haldi því fram, að nauðsyn beri að skera úr í hvert skifti.