08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

117. mál, brúargerð á Hvítá í Borgarfirði

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Till. þessi finst mjer í raun og veru ekki gefa tilefni til slíkra umræðna, sem hjer hafa fram farið, því hjer er ekki farið fram á annað en að gera sjerstaka tilraun til þess að vita, hvort hjeraðsmenn sjálfir vilji ekki leggja talsvert á sig til þess, að þessi brú komi þeim mun fyr en ella getur orðið. Jeg get ekki felt mig við, að þannig sje litið á, að þessi aðferð sje alveg einstaklega órjettlát, eins og komið hefir fram hjá sumum hv. þdm. Jeg verð að halda því fram, sem og hæstv. atvrh. (MG) hefir sjálfur sagt, að það geti verið, að því verði ekki ráðið sjerstaklega til lykta, hvaða brýr verði að koma fyrstar í röðinni, enda þótt slík till. sem þessi verði samþykt, heldur aðeins að þetta gæti orðið til þess að flýta þeim framkvæmdum, sem til nauðsynlegra umbóta teljast, bæði þessum og öðrum. Með till. þessari er aðeins farið fram á, ef unt væri að koma einhverju til leiðar með því að leita undirtekta hjeraðsmanna, svo að verkið yrði hafið. En ef þessi tilraun hepnast ekki, þá verða framkvæmdir auðvitað að bíða betri tíma. Það er ekki eins og þingið fari með till. beint að ákveða, að þetta skuli gert, að verkið verði hafið 1926; en ef það tækist að útvega slík lán, þá væri þó nokkru nær, að það yrði heldur fyr hafist handa heldur en annars.