01.05.1925
Efri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3392)

121. mál, samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get vel skilið, að hv. flm. (JJ) skoði þessa ómerkilegu þáltill. sem eitthvert stórmál. Í mínum augum er till. aðeins hjegómleg ómynd, sem er borin fram aðeins til að láta bera á sjer. Það er máske vorkunn, þótt ræður hv. 5. landsk. (JJ) verði einatt mestmegnis þvaður, en að hann þurfi að láta svona skjal fara frá sjer, það sýnist mjer óþarfi. Er menn setjast niður til að skrifa, er ekki ósanngjarnt, að þeir athugi sig ofurlítið.

Hv. flm. á enga heimtingu á, að jeg fari að skrifta fyrir honum í þessu máli. Þótt jeg hafi sagt, að ráðherrarnir gætu borið fram mál, hver í sinni grein, eins og rjett er, þá kemur það ekkert þessu máli við. Jeg hefi jafnan verið járnbrautarmálinu fylgjandi og jafnvel borið fram frv. um það. (JJ: Hvar er það stjfrv.?). Annars hefði jeg helst ekki átt að eyða einu orði um þessa þáltill. A. m. k. hefði slík till. ekki átt að koma fram fyr en ekkert var annað að gera hjer í deildinni. (JJ: Er jámbrautin þá ómerkileg?).