01.05.1925
Efri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

121. mál, samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vona, að ekki þurfi að vera miklar deilur um þetta mál. Mjer virðist vera samkomulag um það að skoða þáltill. þessa sem fyrirspurn, og hefi jeg svarað henni sem slíkri.

Jeg vil þá víkja að spurningu hv. 1. landsk. (SE) um það, hvort stjórnin hugsaði sjer að veita leyfi til að hagnýta sjer fossaorkuna án þess að bera það undir þingið. Um það hefir engin ákvörðun verið tekin. En um heimildina til þess get jeg vísað til fossalaganna, því að þar er víða gert ráð fyrir, að stjórnin veiti sjerleyfi. Hins vegar hafði jeg hugsað mjer, ef til kæmi, að stjórnin mundi í veitingu sjerleyfa fara eftir frv. því um vatnsorkusjerleyfi, sem 8 síðustu stjórnir hafa lagt fyrir þingið. Hefi jeg litið svo á, að hver stjórn mundi vítalaus af þessu, þar sem allar stjórnir, og þar á meðal hv. 1. landsk. (SE), hafa bundið sig við það frv. í meginatriðum, með því að leggja það fyrir þingið. En þar sem nú þetta frv. liggur enn fyrir þinginu og vonandi verður nú samþykt, er óþarft um þetta að ræða frekar, því að frv. sker úr, hvenær stjórn á að veita sjerleyfi og hvenær Alþingi.

Hv. flm. (JJ) taldi sig að vísu ekki fyllilega ánægðan með svar mitt, en þó svo, sem við mátti búast af ákveðnum stjórnarandstæðingi.

Ástæðan til þess, að hæstv. fjrh. (JÞ) er ekki staddur hjer, er sú, að hann er bundinn við umr. í Nd. Það munaði satt að segja litlu, að jeg væri einnig fjarverandi við þessa umræðu, því að jeg hafði ekki búist við, að málið yrði tekið svo fljótt fyrir. (JJ: Jeg bjóst ekki heldur við því). Þá var ekki von, að fjrh. vissi um það. En þótt hann sje ekki viðstaddur hjer nú, veit jeg, að áhugi hans á þessu máli er hinn sami og fyr. Hann hefir verið framkvæmdarstjóri Flóaáveitunnar og ber það fyrirtæki mjög fyrir brjósti. En eitt aðalskilyrðið fyrir því, að það fyrirtæki komi að fullu gagni, eru bættar samgöngur austur.