01.05.1925
Efri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

121. mál, samgöngubætur milli Reykjavíkur og Suðurláglendisins

Eggert Pálsson:

Úr því að nokkrar umr. virðast ætla að verða um þetta mál, vildi jeg einnig segja nokkur orð.

Jeg hefi jafnan verið mjög fylgjandi samgöngubótum milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Suðurlandsundirlendið er að mínu áliti frjósamasti og fegursti blettur landsins. En sá hængur er á frá náttúrunnar hendi, að telja má það hafnlaust með öllu og því útilokað frá samgöngum á sjó. Það virðist því vera svo, að náttúran hafi ætlast til, að hjeruð þessi fengju samband við Faxaflóa. En eins og víða annarsstaðar, hefir náttúran þó lagt þar örðugleika í veginn, sem hún þó vafalaust ætlar oss mönnunum að yfirstíga.

Allar þær umbætur á sviði landbúnaðarins þar eystra, svo sem fyrirhleðslu við þverá, Skeiðaáveituna og Flóaáveituna, sem jeg hefi stutt, hefi jeg stutt með það fyrir augum, að járnbraut yrði lögð austur. Að mínu áliti hefði verið heimska að fleygja fje í slík fyrirtæki að öðrum kosti, og get jeg undirstrikað ummæli hv. flm. (JJ) um það. Ef járnbrautin verður ekki lögð, verða fyrirtæki þessi til þess eins, að gera hlutaðeigendur fjelausa. Má þegar sjá þess dæmi um Skeiðaáveituna. Bændur geta ekki greitt tugi þúsunda á ári hverju með því búskaparlagi, sem nú er þar. Fólk vantar til að byggja upp landið, þegar búið er að endurbæta það. Hjer þurfa því samgöngur að batna og haldast í hendur við jarðabæturnar. Að öðrum kosti er alt unnið fyrir gíg.

Vjer þar eystra höfum haft dæmi fyrir oss frá aldaöðli upp á þetta, þar sem er Safamýri. Hún hefir legið ónotuð að mestu árum saman og grasið fúnað niður, eingöngu af því, að fólk skorti til að hagnýta sjer það. Eins gæti farið um Flóann, þótt áveitan hepnist, ef samgöngur verða áfram í sama horfi og nú.

Talað hefir verið um tvær leiðir í samgöngumálunum. Önnur er sú, að leggja járnbraut austur, en hin að leggja bílvegi og nota bifreiðar til flutninga. Fyrst og fremst þarf að gera sjer ljóst, hvora þessa leið eigi að fara, en á það hefir brostið, ekki síst hjá þeim, sem mestu ráða. En þótt svo færi, að samkomulag yrði um það, að járnbrautin yrði valin, er enn um tvent að gera, hvort veita skuli einstöku fjelagi einkaleyfi til járnbrautarlagningar, í sambandi þá við fossavirkjun, eða hvort ríkið annist byggingu brautarinnar. Um fyrra atriðið er það að segja, að fossafjelagið „Ísland“ er eina fossafjelagið, sem jeg hefi getað borið traust til í þessu efni. Bæði hafði það yfir miklu fjármagni að ráða, og auk þess stóðu þeir menn að því, er treysta mátti og vænta góðs af. En við önnur slík fjelög hefir mjer jafnan þótt sitthvað athugavert. Þrátt fyrir það veit jeg, að menn eystra hafa mikla trú á fjelögum þessum og vænta mikils af þeim. Má því vera, að rjett væri að veita einhverju slíku fjelagi sjerleyfi um ákveðinn tíma og með þeirri skuldbindingu, að það hefði lagt járnbrautina á 3–4 árum, og öðrum nauðsynlegum skilyrðum, svo að í ljós kæmi, hve mikið væri á slíkum fjelögum að byggja.

Þá er hin leiðin, að ríkið sjálft annist brautarlagninguna. Þrátt fyrir áhuga minn á þessu máli hefi jeg þó ekki álitið það fært ríkinu enn sem komið er að ráðast í slíkt. Til þess þyrfti að taka lán, en áður en svo yrði gert þarf að grynna á þeim skuldum, sem fyrir eru. En undir eins og raknar úr, vænti jeg þess, að þetta mál verði tekið upp á heppilegum grundvelli.

Hvað svar hæstv. atvrh. (MG) snertir, þá er jeg ánægður með það, og ber einnig ótakmarkað traust til hinna ráðherranna í þessu máli. Að vísu veit jeg, að þeir sjá ekki fært að ráðast í slíkt fyrirtæki nú án þess að sjerleyfi verði veitt. En slíkt sjerleyfi gæti haft miklar og alvarlegar afleiðingar í framtíðinni, og þarf því að ganga að því máli með mikilli varfærni. Þótt mörgum kunni máske nú að rísa hugur við að leggja á ríkissjóð kostnað þann, sem af járnbrautarlagningu austur stafar, þá er jeg þeirrar skoðunar, að það fyrirtæki muni í framtíðinni borga sig og bera sig vel. Jeg veit, að ef slík samgöngubót kæmist á, þá á Suðurlandsundirlendið sjer ekki aðeins bjarta framtíð fyrir höndum, heldur getur líka sjálf járnbrautin orðið að beinni tekjulind fyrir ríkissjóð, ef menn vilja svo vera láta.