27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (3404)

68. mál, strandferðir

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get tekið undir það, sem hv. aðalflm. þessarar tillögu (JJ) tók fram í byrjun ræðu sinnar, að það sje óvanalegt að bera fram þáltill um svona efni, tillögu, sem gengur út á að skora á ríkisstjórnina, að hún í samráði við forstjóra Eimskipafjelags Íslands og samgöngumálanefndir Alþingis taki til athugunar, hvort ekki sje tiltækilegt að breyta skipulagi strandferðanna nú á þessu ári og framvegis, þannig að fjölga hraðferðum „Esju“, að halda úti hæfilegu skipi til strandferða og flutningaferða milli Hornafjarðar og Austfjarða, að láta „Suðurland“ fara að minsta kosti einu sinni í mánuði strandferð um Breiðafjörð og að leigja ca. 300 smálesta skip til flutningaferða með ströndum fram frá septemberbyrjun til ársloka.

Jeg lít nú svo á, að tillaga þessi sje alveg óþörf, því að stjórnin hefir verið og er fús til að ræða um þetta við samgöngumálanefndir þingsins, eins og hún hefir altaf gert. Jeg sje því ekki, að tillagan hafi aðra þýðingu en þá að benda á þessar leiðir, sem alls ekki eru nýjar. En það hefði mátt gera eins vel með einföldu brjefi. Jeg læt mjer því í ljettu rúmi liggja, hvort tillaga þessi verður samþykt eða ekki, því að það, sem tillagan fer fram á, verður tekið til athugunar, að svo miklu leyti sem það er hægt, hvort sem hún verður samþykt eða ekki.

Úr því að hv. flm. (JJ) fór nákvæmlega inn á hvern einstakan lið tillögunnar, skal jeg með fáum orðum gera hið sama, og tek liðina eftir þeirri röð, sem þeir eru í tillögunni.

Í A-lið er farið fram á að fjölga hraðferðum „Esju“. Þar til er því að svara, að stjórn Eimskipafjelagsins hefir þegar gert uppkast að áætlun fyrir þetta ár. Er þar gert ráð fyrir hraðferðum, sem taka rúma viku, með viðkomu á 13 stöðum. En ætlist hv. flm. til þess að fá hraðferðir, sem taki ekki nema 7–8 daga, með viðkomu 25–30 höfnum, vil jeg benda honum á, að slíkt er ómögulegt, því að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelags Íslands hefir leitt rök að því, að skipinu veiti ekki af þessum tíma til þess að koma á allar þessar hafnir, án þess þó að tefja nokkurn hlut og með því að sigla jafnan með fullri ferð. En eins og vitanlegt er, fer ekki svo lítill tími til að flytja úr og í skipið á höfnum farþega og flutning. Er þá sjáanlegt, að 7–8 dagar til slíkra ferða er alt of stuttur tími, alt að þriðjungi of stuttur. Uppkast þetta að áætlun „Esju“ er jeg fús til að afhenda samgöngumálanefndum þingsins.

Að hraðferðirnar beri sig betur en hinar strandferðirnar, eins og hv. flm. (JJ) vildi halda fram, held jeg, að ekki sje rjett, og byggi jeg það á reikningi „Esju“ fyrir síðastliðið ár. Hugmyndin um þessar hraðferðir er bygð á því, að tafsamt sje fyrir skipið að koma á margar hafnir og taka þar flutning. En þess ber að gæta, að 1924 eru flutningsgjöldin aðaltekjugrein skipsins, því að þau nema þá 165 þús. kr., en fargjöldin 132 þús. kr. Hjer verður því fyrst og fremst að athuga, hvort gjaldið fyrir flutninginn vegur ekki á móti töf skipsins. Og í öðru lagi verður að taka tillit til þess, að oft er mjög mikil þörf fyrir að koma flutningi á milli hafna, alveg eins mikil og að flytja farþega, og þegar skipið er komið á höfnina, er töf við að taka slíkan flutning oft sáralítil, því venjulegast er hann fluttur út í sömu ferðinni og póstur og farþegar. Get jeg því ekki annað sjeð en það sje hyggilegra að láta sama skipið taka farþega og flutning en að láta annað skip koma rjett á eftir til þess að taka slíkan flutning. Jeg sje því ekki, að það sje fjárhagslega hyggilegt að hugsa sjer yfirleitt hraðferðir til fólksflutninga, með fáum viðkomustöðum, og annað skip, sem tíni upp flutningsgóss, enda mundi þetta hið versta, sem hægt væri að gera þeim, sem búa í nánd við smáhafnirnar, t. d. á Húnaflóa, Skagafirði og Vestfjörðum. Ef alltíðar Esjuferðir eru af þessum höfnum teknar, hafa þær aðeins „Goðafoss“ til þess að halda uppi ferðum, og það eru einmitt slíkar hafnir, sem hafa mest gott af „Esju“. Það væri því spor aftur á bak, ef aðeins ætti að láta „Esju“ koma við á stærri höfnum, jafnvel þótt einhver flutningsdallur ætti að koma við á smáhöfnunum.

Annars getur það verið álitamál, hvað kallað er hraðferðir. En jeg skil, að hjer sje átt við ferðir, sem taka 7–8 daga hver, með viðkomu á 13–15 höfnum.

Hv. flm. (JJ) mintist á, að það væri leiðinlegt að horfa á útlend skip taka farþega og flutning að norðan og flytja hingað suður. Þetta er alveg rjett. En það er nú svo, að fólk vill eðlilega helst fara með því skipinu, sem fljótast er í förum. Á þessu er ekki hægt að ráða bót með öðru móti en því að hafa skip, sem gengi milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefði ekki aðra viðkomustaði en t. d. Ísafjörð og Seyðisfjörð. Ætti nú að haga ferðum „Esju“ þannig, hefði hvorki Húnaflói, Skagafjörður eða Vestfirðir neitt gagn af henni. En það eru einmitt þær hafnir, sem hugsað er fyrir með strandferðunum, því að þær eru einmitt gerðar sjerstaklega vegna slíkra hafna. Því að stóru hafnirnar hafa nógar ferðir, þó að „Esja“ sje ekki látin koma þar við. Á smáhöfnunum er vöruflutningurinn vitanlega stundum til skaða og tafar fyrir fólkið, en oft er þó, eins og jeg tók fram áðan, fólk og flutningur flutt fram í sama bátnum, og verður því töfin við að taka flutninginn tiltölulega lítil.

Þá kem jeg að B-lið tillögunnar, um að halda úti hæfilegu skipi til strandferða og flutningaferða milli Hornafjarðar og Austfjarða, alt að Skálum á Langanesi. Mjer skildist svo á hv. flm., að hann hefði það eftir framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands, að hann væri þessu samþykkur. (JJ: Ekki langt frá því). En jeg talaði við framkvæmdarstjórann í morgun, og sagðist hann ekki mundu setja sig á móti þessum ferðum, ef þingið vildi kosta til því, er þyrfti til að halda þeim uppi, en það mundi verða frá 40–50 þús. kr. Annars fanst honum nóg að láta bát ganga frá Hornafirði til Austfjarða, bát, sem gæti flutt vörur og farþega í leiðina fyrir „Esju“. Þetta hefir og verið gert undanfarið, þó að styrkurinn til þess væri lítill síðastliðið ár, en það var líka lítið fje, sem var til skifta.

Þessi liður tillögunnar er því aðallega útgjaldaliður, og þýðir því ekki að ræða um hann frekar, því að ekki verður ákveðið nú, hvort fje verður veitt í þessu skyni.

Þá er C-liður tillögunnar, að láta „Suðurland“ fara a. m. k. einu sinni á mánuði strandferð um Breiðafjörð. Út af þessum lið skal jeg taka það fram, að það er þegar búið að semja við stjórn Eimskipafjelags Suðurlands um ferðirnar til Borgarness. En það er ekki því til fyrirstöðu, að skipið geti farið þessar ferðir til Breiðafjarðar, og var búið að taka upp samninga við stjórn fjelagsins áður en tillaga þessi kom fram, einmitt um þessar ferðir. Hafði stjórnin sent erindi til samgöngumálanefnda þingsins, þar sem farið var fram á að fá heimild til að semja við stjórn Suðurlandsfjelagsins um 10 ferðir til Breiðafjarðar, gegn ákveðinni þóknun fyrir hverja ferð. Var þetta gert til þess að reyna að losa „Esju“ við að fara inn á Hvammsfjörð. Síðast í morgun talaði jeg við formann fjelagsins, og eru miklar líkur til, að saman gangi með samningana. Spurningin er aðeins sú, hvort hann getur búið til áætlun, sem hægt verður að ganga inn á.

Það er rjett hjá hv. flm., að samgöngurnar við Breiðafjörð hafa verið frekar slæmar, þó að sjerstaklega hafi svo verið fyrir vesturpart hans. En að þar hafi engar samgöngur verið síðastliðið ár, er alls ekki rjett, þar sem bæði „Esja“ og „Svanur“ gengu þangað, og „Skaftfellingur“ var styrktur þangað eina ferð, auk þess sem Flateyingum var greiddur dálítill styrkur til flutninga frá landi út í Flatey.

Um síðasta lið tillögunnar er það að segja, að jeg hygg hann fyllilega á rökum bygðan. Stjórn Eimskipafjelags Íslands telur fulla nauðsyn á að fá lítið flutningaskip, sem gengi frá 1. október til miðs desembers, til þess að ljetta undir flutninginn með „Esju“. Hefir því framkvæmdarstjóri fjelagsins snúið sjer til Noregs og leitað tilboðs um slíkt leiguskip, en ekki fengið enn þá fullnægjandi svar, aðeins brjef, sem skýrir frá, að enn þá hafi ekki tekist að útvega það. Kostnaðinn við þetta áætlar framkvæmdarstjórinn 20–25 þús. kr. Verði nú að þessu horfið á þessu ári, er sýnilegt, að fjárhæðir þær, sem veittar eru til strandferða, verða alt of litlar, því jeg geri ráð fyrir, að verði þetta ákveðir fyrir árið 1926, þá eigi og hið sama að gilda fyrir árið 1925. Verður því að leita aukafjárveitingar fyrir þeirri fjárhæð, sem væntanlega þarf að greiða umfram það, sem veitt er.

Að síðustu skal jeg geta þess, að mjer er alveg sama, hvort tillaga þessi verður samþykt eða ekki, því að jeg tel hana þýðingarlausa, að öðru leyti en því að vekja til umhugsunar um þessi atriði. Geta má og þess, að til orða hefir komið að senda póstmann með „Esju“, til þess að sjá um, að pósturinn úr henni komist reglulega í land, því að á því hefir þótt bera, að í raun og veru hafi oft farið í land á höfnum meira af pósti en fara hefir átt þangað, en ekki verið hægt að koma honum til baka, af því að skipið hefir staðið svo stutt við. Hefir svo stundum þurft að senda þetta með landpóstum, sem vitanlega hefir haft aukakostnað í för með sjer.