27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (3406)

68. mál, strandferðir

Tryggvi Þórhallsson:

Aðeins stutt athugasemd til varúðar, ef tillaga þessi verður samþykt, því að þó hún bindi ekki enda á þetta, má gera ráð fyrir, að verði hún samþykt, hafi hún áhrif á, hvernig strandferðum verði skipað framvegis.

Þótt við eigum nú vitanlega allir að vera þingmenn fyrir alt landið, ber okkur og jafnframt skylda til að sjá um, að ekki sje gengið á rjett þeirra hjeraða, sem hafa sent okkur.

Nú er svo um mitt hjerað, að það hefir ekki fengið þumlungslangan spotta af akvegi og verður því að hafa alla sína aðdrætti á sjó. Þar sem því ekki verður bygt þar á öðru en strandferðunum, á það fulla kröfu á, að þær verði þar sem hagstæðastar. Jeg vil því beina því til hæstv. stjórnar og hv. samgöngumálanefnda, að ef fara á að taka strandferðirnar til athugunar nú og gera á þeim gagngerðar breytingar, þá verði það ekki gert á þann hátt, að slík hjeruð sem þetta missi nokkurs í, því að samgöngurnar þar mega síst vera verri en þær eru nú. Að síðustu get jeg tekið undir það með hæstv. atvrh. (MG), að þörfin fyrir að koma flutningi milli hafna á Norðurlandi er mikil. Vænti jeg því, að sú aðferð verði ekki viðhöfð hjer að taka lambið frá fátæka manninum og slátra því fyrir hinn ríka.