27.02.1925
Sameinað þing: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (3407)

68. mál, strandferðir

Þorleifur Jónsson:

Þess gerist ekki þörf að tala mikið með tillögu þessari, því að hv. fyrsti flutningsmaður hennar, 5. landsk. þm. (JJ), tók alt það fram, sem nauðsyn bar til. En út af þeim ummælum hæstv. atvrh. (MG), að hjer væri óvenjuleg aðferð höfð, vildi jeg taka það fram, að okkur fanst ekki vanþörf vera á að vekja máls á þessu, þar sem ekkert bólaði á neinu frá stjórninni í þessa átt. Getur því ekki undarlegt talist, þó að hafið sje umtal um þetta þýðingarmikla mál.

Vænti jeg svo, að tillaga þessi verði ekki látin gjalda þess, þó að hún þyki ekki sem formlegust í eðli sínu.

Esjuferðirnar, sem ríkið kostar um þessar slóðir, eru algerlega ófullnægjandi, enda þótt þær kunni að vera þolanlegar þar, sem önnur skip fara um, eins og t.d. „Goðafoss“, sem kemur á allmargar hafnir norðanlands. (Atvrh. MG: „Goðafoss“ kemur líka víða við á Austfjörðum). Satt má það vera, en þá verða margar smáhafnir algerlega út undan, eins og t. d. Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík. (Atvrh. MG: Svo er líka um Norðurland). Jeg skal ekki fara að metast um þetta, en það er ómótmælanlegt, að samgöngurnar um suðurhluta Austfjarða eru með öllu ófullnægjandi. Það þarf ekki annað en að nefna Hornafjörð, þar sem „Esja“ kemur að ósnum eða í hann tvisvar eða þrisvar á ári. Að vísu hefir verið veittur örlítill styrkur til ferða meðfram ströndum á þessu svæði haust og vor, en sá styrkur er svo lítill, að hann kemur að litlu eða engu gagni.

Jeg held, að þótt einungis sje litið á kostnaðarhliðina, þegar um strandferðir er að ræða, ætti engum að dyljast sá óbeini gróði, sem af þessu leiðir. Flutningabrautin er sjálfgerð, og þarf engu til hennar að kosta, og það gagn, sem af strandferðunum leiðir, verður ekki með tölum talið. Hæstv. atvrh. (MG) ljest vera vantrúaður á, að það kæmist í framkvæmd, að sjerstakur flutningabátur gengi um Austfirði. Sjálfsagt hefir það töluverðan beinan kostnað í för með sjer fyrir ríkissjóð, en óbeini hagnaðurinn verður eflaust ekki svo lítill.

Eins og kunnugt er, er nú rekin mikil útgerð á Hornafirði, og eru strandferðir þangað og þaðan því bráðnauðsynlegar fjóra vertíðarmánuðina, og þá ekki síður um haustmánuðina, til að koma frá sjer afurðum og draga að sjer lífsnauðsynjar. Á Skálum á Langanesi er líka allmikil útgerð, og hafa borist þaðan kvartanir yfir samgangnaleysi.

Það þarf enginn að efast um, að þessar ferðir mundu margborga sig, þótt óbeinlínis sje. Þótt 30 smálesta bátur annist nú ferðir á þessum slóðum, þá er það fyrst og fremst ófullnægjandi og þar að auki alls ekki forsvaranlegt að nota slíkt kríli til mannflutninga í hrakviðrum á haustin. Því væri ekki úr vegi að bæta úr skák af þeirri ástæðu einni. Sennilega yrði þetta nýja fyrirkomulag nokkru dýrara. Þó mundi bátur, sem til þessara ferða væri ætlaður, spara „Esju“ viðkomu á ekki allfáum höfnum, sem hún nú kemur við á, og væri þá höggið nokkurt skarð í kostnaðinn.

Eitt er víst, að þótt ríkissjóður sje í kreppu, verður ekki úr henni bætt með því að skera við nögl sjer fjárframlög til samgangna í landinu. Það er alviðurkent og margsannað, að samgöngurnar eru aðalskilyrðið fyrir vexti og viðgangi atvinnuveganna.

Jeg vona því, að þetta mál verði þegar tekið til rækilegrar athugunar, og að mestu verði farið eftir tillögum vor flutningsmanna. Jeg skal að endingu geta þess í tilefni af ræðu hæstv. atvrh., að ef svo fer, að Austfjarðabáturinn fæst ekki að sinni, þá mun jeg fara fram á, fyrir tilmæli kjósenda minna, að styrkur sá, er veittur hefir verið undanfarið til þessara ferða, verði hækkaður upp í 15000 kr. á þessu þingi.