06.03.1925
Neðri deild: 27. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

73. mál, selaskot á Breiðafirði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Dagskrá sú, er hv. þm. Dala. (BJ) spyr um, var afgreidd til atvinnumálaráðuneytisins 3. apríl f. á. En 7. s. m. skrifar ráðuneytið sýslunefndum Snæfellsnes-, Dala- og Barðastrandarsýslna og leitar álits þeirra um málið. Að vísu var ekki í dagskránni farið fram á að bera mál þetta undir sýslunefnd Barðastrandarsýslu. En af því að stjórnin var svo vel að sjer í landafræði, að hún vissi, að Barðastrandarsýsla lá sömuleiðis að Breiðafirði, þá bar hún mál þetta undir sýslunefnd þeirrar sýslu einnig. En svar hefir ekkert komið þaðan.

Með brjefi, dags. 31. maí f. á., tilkynnir sýslumaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu: „Sýslunefndin samþykti með 6 atkvæðum af 12 að mæla með frv. eins og það liggur fyrir“.

Svar sýslumannsins í Dalasýslu hljóðar svo: „Sýslunefndin leggur eindregið til, að frumvarpið verði sem fyrst að lögum. Samþykt í eigu hljóði“.

Þetta mun vera það, sem hv. fyrirspyrjandi vildi fá að vita. Vænti jeg því, að þetta nægi.