08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í D-deild Alþingistíðinda. (3438)

122. mál, útsalaá Spánarvínum í Vestmannaeyjum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi leyft mjer að flytja þessa fyrirspurn til stjórnarinnar út af erindi, sem mjer hefir verið sent frá bæjarstjórninni í Vestmannaeyjum. Eftir því, sem þar kemur fram, er það ljóst, að bæjarstjórnin er yfirleitt mótfallin því, að útsalan á Spánarvínum haldi áfram í Eyjunum, og um 1000 manns hafa tjáð sig sammála bæjarstjórninni, samkv. skjali, sem mjer hefir borist. Á síðasta þingi komu fram í þessari hv. deild samskonar tilmæli frá Siglfirðingum, og var flutt þáltill. í tilefni af þeim áskorunum. Út af þeirri reynslu, sem þá fjekst, hefi jeg ekki sjeð mjer fært að flytja þáltill. um þetta mál, en talið rjettara að fara fyrirspurnarleiðina. Vitaskuld er það öllum vitanlegt, að það, að þjóðin hefir orðið að leyfa innflutning þessara svonefndu Spánarvína, stafar af nauðungarráðstöfun annarar þjóðar. Hvernig varið er þessum samningum milli þessarar erlendu þjóðar og okkar þjóðar, er mjer ekki fullkunnugt. Þess vegna flyt jeg þessa fyrirspurn. Jeg býst og við, að það sje ætlun annara, er losna vilja við Spánarvínin, að Spánarsamningarnir sjeu ekki svo úr garði gerðir, að nauðsynlegt sje að hafa útsölu á vínunum á öllum þeim stöðum, þar sem hún er nú. Að því er Vestmannaeyjar snertir, þá væri það mjög æskilegt, að hægt væri að hafa einhverjar hömlur á vínsölunni, einkum á vetrarvertíðinni. Þá getur það verið mjög óheppilegt, að menn geti náð sjer þar í vín alveg takmarkalaust. Eins og hv. þdm. vita, koma þangað á vertíðinni menn úr öllum hjeruðum landsins, margir ungir og efnilegir menn, og að mínu áliti væri það mjög æskilegt, ef hægt væri að leggja einhverjar hömlur á útsöluna með Spánarvínin í Eyjunum þann tímann, sem þar er margmennast.

Þegar stjórnin neyddist til að leyfa innflutning Spánarvína, voru menn sjer þess meðvitandi, að annar aðalatvinnuvegur landsins var í hættu, vegna ráðstafana þeirra, er Spánverjar höfðu gert.

Þingið var svo að segja á einu máli um það, að of hættulegt væri að komast í tollstríð við Spánverja. En það hefði mátt leyfa innflutning á vínum án þess að setja upp útsölustaði hingað og þangað, og veit jeg ekki, hvers vegna það var gert, eða hvort Spánverjar hafa krafist nokkurs í því efni. Það mundi hafa mikil áhrif á vínnautn úti um land, ef vínin væru aðeins seld hjer í Reykjavík og menn yrðu að panta þau hjeðan.

Því hefir verið haldið fram opinberlega fyrir skemstu, að þessi tilhögun með útsölustaði sje ekki nauðsynleg vegna samninganna við Spánverja. Ef hún er ekki nauðsynleg — sem jeg vona að hæstv. stjórn upplýsi — og sjái stjórnin sjer fært að breyta um fyrirkomulagið á útsölu vínanna, þá væri það að mínu áliti mjög æskilegt og nauðsynlegt, að svo væri gert.