22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3447)

101. mál, sveitarstjórnar, bæjarstjórnar- og fátækralöggjöf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla, að jeg hafi tekið það skýrt og greinilega fram í dag, að jeg fyrir mitt leyti legðist ekki á móti því, að nefnd yrði skipuð, því að það liti út eins og einhverskonar hroki frá minni hálfu, ef jeg teldi, að jeg gæti undirbúið málin eins vel og milliþinganefnd. Það, sem mjer því finst að hv. þd. þurfi að afgera, er það, hvort hún býst við að fá málið betur undirbúið með því að milliþinganefnd geri það eða stjórnin geri það, en taka jafnframt tillit til þess kostnaðarmismunar, sem hlýtur að verða við þetta tvent. Það liggur í hlutarins eðli, að jeg get ekki staðhæft að undirbúa þetta mál betur en milliþinganefnd. Það gæti að vísu verið, að mjer virtist svo, sem mín frv. væru betri en þau, sem kæmu frá nefndinni, en jeg yrði ekki einn dómari um það. Það er auðvitað hv. þd., sem verður að skera úr þessu. En hinsvegar verð jeg að segja, að jeg tel, að engin stjórn geti lýst því yfir, að hún geti ekki undirbúið svona mál. Mjer finst, að það sje sjálfsögð krafa til hverrar stjórnar, að hún geti undirbúið hvaða mál sem er, og að hún geti ekki að óskertum heiðri sínum lýst yfir, að hún sje ófær til þess. Hvað mig snertir persónulega, getur mjer náttúrlega ekki verið það óþægt verk, að milliþinganefnd sje skipuð, því ef jeg á að undirbúa málið, hlýtur það að valda mjer mikils erfiðis. En spurningin, sem hv. deild verður að leysa úr, er þessi: Býst hún við að fá málið því betur undirbúið með því að milliþinganefnd sje skipuð, sem nemur því, hve kostnaðurinn verður meiri en ef stjórnin fer með málið? Jeg hefi marglýst því yfir, að jeg vil ekki kveða upp dóm í þessu efni. En þótt nefnd sje sett, liggur það vitaskuld í hlutarins eðli, að það getur ekki verið nein trygging fyrir því, að málið gangi fram eins og nefndin gengur frá því. Og ef menn úr fleiri en einum flokki eru í nefndinni, kann hún að klofna, og þá er ósýnt um, að menn sjeu nokkru nær. Hvort frv., ef stjórnin semdi þau, mundu verða samþ. af Alþingi, skal jeg láta ósagt. Vitaskuld er engu hægt að lofa um það.

Verði nefnd skipuð, er eðlilegast, að hún taki öll þau verkefni til meðferðar, sem hv. allshn. hefir bent á, eins þau, sem á að vera búið að leysa úr fyrir næsta þing. Því þótt ekki megi ætla, að hún hafi þá lokið öllum störfum sínum, getur hún þó verið búin að einhverju. Það má vel vera, að ekki megi mikið byggja á svörum bæjarstjórna og sýslu- og hreppsnefnda við þessi mál. Jeg hefi engar glæsivonir gert mjer um það út af fyrir sig. En jeg verð þó að segja það, að mjög víða í sveitum landsins eru menn, sem fengist hafa við oddvitastörf um langan aldur. Þeir eru allra manna kunnugastir því, hvað helst muni vera athugunarvert í þessum málum. Ef þeim þættu einhver ákvæði verulega slæm, þá er jeg viss um, að þeir mundu ekki telja eftir sjer að stinga niður penna svo sem eina klukkustund til þess að skýra frá þeim og leiða athygli að þeim. Og þótt ekki svaraði nema helmingur þeirra, sem spurðir væru, þá mundu þó koma nokkrar leiðbeiningar um það, hvaða gallar væru helstir á fyrirkomulaginu eins og það er nú. Jeg get vel ímyndað mjer, að fjölmennu kauptúnin mundu og skýra frá, í hvaða efnum sveitarstjórnarlögin væru orðin óhentug fyrir þau. Sveitarstjórnir og fleiri hafa oft verið spurðar um slík mál, og sjaldan hefir minna en helmingur þeirra svarað, oft upp undir 2/3. Jeg á því bágt með að trúa, að ekki mætti fá nokkrar leiðbeiningar um þessi mál úr þeirri átt.

Út af orðum hv. 1. þm. Árn. (MT) vildi jeg leiða athygli manna að því, að jeg ætlast ekki til þess, að sýslu- og hreppsnefndir komi með lagagreinar, því síður heil frv., heldur aðeins að þær sendi nokkrar línur, 1–2 arkir, um það, sem þeim þætti ilt í lögunum og vildu fá breytt í eina eða aðra átt. Jeg geri alls ekki ráð fyrir, að þær komi með till. um alla hluti viðvíkjandi þessum málum, heldur aðeins drepi á það, sem þeim finst sjerstaklega athugavert.