28.02.1925
Neðri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í C-deild Alþingistíðinda. (3449)

37. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Hákon Kristófersson:

Jeg lít svo á, að frv. þetta sje afkomandi eða afleiðing heimildarlaga þeirra, sem hjer voru síðast samþ. fyrir Reykjavíkurbæ. Jeg ámæli alls eigi hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) fyrir að hafa komið með þetta frv., því að það er, eins og jeg hefi þegar tekið fram, bein afleiðing af Reykjavíkurlögunum. Jeg hefi oft lýst því áður, hjer í þessari hv. deild, hvernig jeg lit á þessa togstreitu, sem nú á sjer stað, sjerstaklega milli sveita og kauptúna, um útsvarsálagningar. Jeg sje enga sanngirni í því, að þegar þessir menn eru búnir að dvelja t. d. hjer í bæ eða annarsstaðar, og hafa greitt fullkomið andvirði fyrir þau ýmsu fríðindi, sem þeir kunna að hafa notið á dvalarstaðnum, hvort heldur hann hefir verið hjer eða annarsstaðar, að svo skuli frá viðkomandi bygðarlagi vera reynt að ná sjer aftur niðri á þeim og láta þá greiða útsvar. það er þó vitanlegt, að bæirnir hafa hag af því, að þessi vinna er stunduð og rekin þaðan, hver sem hún annars er, og þessir menn eru búnir að borga áður fyrir að fá að stunda þessa atvinnu, og svo á að láta þá greiða útsvar í ofanálag, fyrir það, að það eru hlunnindi að því, að hafa þessa menn. Jeg á til dæmis við róðrar- eða mótorbáta, sem hafa uppsátur eða liggja við á einhverjum stað. Það er talsvert hagræði fyrir þá, sem næst búa, að þessu, en samt á að skatta þá fyrir þetta. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort útsvar er lagt á kaupafólk í sveitum. (JBald: Ef það er þar 3 mánuði.) Jeg er ekki eins kunnugur víða um land og hv. 2. þm. Reykv. (JBald), en þar sem jeg þekki til, á þetta sjer ekki stað. Annars skal jeg ekki fara að dæma á milli kaupstaða og sveita, en þó hygg jeg, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hafi nokkuð til síns máls, og Reykjavík til verðugs lofs skal jeg geta þess, að hún hirðir ekki meira en svo um þessi rjettindi sín; gæti vel náð gjöldum af fleiri en gert er. Jeg held, að nefndinni hefði verið í lófa lagið, hefði hún viljað, að taka þessi ákvæði öll í sveitarstjórnarlögunum til athugunar, og Reykjavíkurlögin líka; hún hefði átt að fella þessi ákvæði niður og samræma löggjöfina í þessu efni. Mjer virðist litt fylgja hugur máli hjá hv. 2. þm. Reykv. (JBald), og sýnist hann í ýmsu vera á móti anda þessa frv.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) taldi það eðlilegt, að kaupstaðirnir færu fram á að fá þessi rjettindi; þeir ættu heimtingu á að hafa tekjur af. skipshöfnum, skrásettum þar. (ÁF: Jeg sagði, að það væri ekki ósanngjarnt.) Hv. þm. veit eins vel eins og jeg og allir aðrir, hversu mikil hlunnindi það eru bæjarfjelögunum, að skrásetning skipanna er þar. Þau veita fleirum atvinnu en hásetunum; þeir, sem í landi eru og aldrei fara á flot, hafa einnig mikla vinnu þeirra vegna. Það var oft sagt frá því hjer í deildinni í fyrra, hversu mikils virði það væri fyrir Hafnarfjörð, að hafa þessi skip skrásett þar. Þau veittu svo mikla atvinnu, bæði sjómönnum og þeim, sem í landi væru, og rengdi þetta enginn þá. Menn virða eigi til fulls öll þau fríðindi, sem sjórinn færir þeim í kaupstöðunum, og þegar einhverjir koma þangað til þess að njóta einnig einhvers af þessum fríðindum, eru þeir ofsóttir með aukaútsvörum o. fl., og hafa þeir þó nóg gjöld að bera heima hjá sjer, þaðan, sem þeir koma. Menn virðast gleyma því, að það eru ýms bygðarlög, sem eru jafnrjetthá, eða ættu að vera það, og kauptúnin, til þess að njóta hlunninda þeirra, sem sjórinn veitir. Hjer eru í rauninni allir samherjar og sjórinn tilheyrir t. d. ekki fremur Reykjavík en nærsveitunum. Því má heldur ekki gleyma, að hin ýmsu bygðarlög, sem þeir menn eru komnir frá, sem stunda sjó frá þeim stöðum, sem legu sinnar vegna gera það að verkum, að skipin sumpart eru skrásett þar eða hafa þar aðsetur um vissan tíma, eru ef til vill þannig stödd fjárhagslega, að þau þurfa á öllu gjaldþoli sinna manna að halda, án þess að það sje rýrt eða skert af öðrum bygðar- eða bæjarfjelögum. Mjer virðist, eftir öllum málavöxtum að dæma, málið þannig vaxið, þó að jeg vilji sýna því alla nærgætni, að það þurfi meiri og ítarlegri rannsóknar við en það ennþá hefir fengið, og þó að mönnum kunni að virðast það hart að gengið, verð jeg að gera það að tillögu minni, að máli þessu verði vísað til stjórnarinnar, til þess að það fái þar þann undirbúning og athugun, sem það þarf með.