02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í C-deild Alþingistíðinda. (3451)

18. mál, fjöldi kenslustunda fastra kennara við ríkisskólana

Forsætisráðherra (JM):

Jeg gæti sætt mig við brtt. á þskj. 260. Jeg þykist geta tekið mjer til inntekta viðurkenningu hv. nefndar um það, að ekki sje í sjálfu sjer ósanngjarnt að heimta svo mikla kenslu af kennurum sem frv. fer fram á. Hitt skal jeg játa, að komið getur fyrir, að ástæða sje til, að skólastjórar fái að komast af með minni kenslu en til er tekin í frv. Skólastjórar eru oft aldraðir menn, og því ástæða til þess að fækka kenslustundum hjá þeim. Hitt viðurkenni jeg ekki, að 18 stunda kensla á viku sje of mikið, ef maðurinn er heilbrigður og í fullu fjöri. Áður hefir það verið föst regla við mentaskólann, að skólastjóri kendi minst 18 stundir á viku. Jens Sigurðsson kendi altaf 19 stundir á viku, og í þau 19 ár, sem Jón Þorkelsson var við skólann, kendi hann 18 stundir á viku að meðaltali. Næsti rektor kendi minna, enda var hann heilsuveill. Annars hafa rektorar stundum kent 22–23 stundir á viku. Og það er ekki ósanngjarnt að ætla það manni á góðum aldri. Um hina skólana er það að segja, að þar er krafan enn sjálfsagðari.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg fara ofurlítið nánar út í einstök atriði, enda þótt þetta sje 3. umr. málsins.

Því hefir verið haldið fram, að það sje ósanngjarnt að fjölga kenslustundum. En hv. nefnd hefir ekki athugað, hvað lítið er hjer um að ræða, t. d. við mentaskólann Skyldukensla er nú 24 stundir og heimavinna þar fyrir utan, og hún er oft meira en 3 stundir, eins og nefndin sagði. Samt sem áður sætta kennarar sig við þetta, að vinna meira en 27 stundir, eins og nú er. Að vísu eru þeir betur settir, sem ekki hafa stílaleiðrjettingar heima. Þetta hefir hv. nefnd sjeð, og vill því láta greiða sjerstaklega fyrir stílaleiðrjettingar. Hafði jeg satt að segja ekki hugsað mjer, að það kæmi fram í stað sparnaðar, að borga ætti kennurum meira en áður, eða með öðrum orðum, lækka kenslustundafjöldann. Játa jeg þó, að það sje sanngirni í þessu, en hv. nefnd notar það öfugt við það sem jeg geri. Þeir, sem ekki hafa heimastíla, kenna lengur en hinir.

Þetta er nú alt og sumt, sem farið er fram á um mentaskólann. Þar á móti er það dálítið meira á pappírnum hvað kenslustundum fjölgar við aðra skóla. Jeg skal taka til dæmis gagnfræðaskólann á Akureyri; þar yrði það 1 stund á dag. En þá bið jeg menn að athuga það, að þar stendur kensla 11/2 mánuði skemur en hjer. (JJ: Einum mánuði!) Jæja, við skulum segja, að hún standi einum mánuði skemur, en hvernig sem um það er, þá verður niðurstaðan sú, að tímafjöldi verður þar minni heldur en í mentaskólanum. Við kennaraskólann er munurinn lítill og er ekki rjett að halda því fram, að þar sje aðeins kent 24 stundir á viku, og höfum við deilt nóg um það atriði áður. Í skólaskýrslunni eru það taldar 27 stundir, og ef það er eigi, er skólastjórinn farinn að reikna þetta á annan veg nú en áður. Það gildir hið sama um þetta, þó það væri ekki fastur kennari, sem hafði þar 27 tíma kenslu. En það er enganvegin sanngjarnt, að eigi sje jöfnuður milli þessa skóla og Akureyrarskólans. Og þetta lagaði frv. Hvað stýrimannaskólann snertir, mun þar vera kent 30 stundir á viku af hverjum kennara, og mun svo vera um meirihluta þeirra kennara, er þetta mál snertir. En frv. fer í þá átt, að gera alla jafna, við hvaða skóla sem er, og nema á brottu misrjetti, sem átt hefir sjer stað á nokkrum stöðum.

Já, það er satt, allir kennarar eru lágt launaðir, en samkvæmt þeim allsherjar-launa-„skala“, sem nú er í gildi, eru kennarar eigi ver launaðir en aðrir embættismenn, jeg held jafnvel betur, nema skólastjórar, er koma eigi til greina í þessu sambandi, þar eð þeir hafa mjög há laun. Þetta er þó kostur við frv., og fer það þó síst lengra en forsvaranlegt er. Jeg skil þó vel aðstöðu mótstöðumanna frv., og tel hana að ýmsu leyti eðlilega, en þetta er mín skoðun á þessu máli, og verð jeg því að halda því fram, að það sje sanngjarnt og annað ekki, sem frv. fer fram á.

Hitt er annað mál, sem þm. A.-Húnv. (GÓ) tók svo illa upp fyrir mjer, er jeg sem kenslumálaráðh. ber þetta frv. fram og legg þó eigi meiri áherslu á það en svo, að mjer er það eigi fast í hendi. En það ætti að vera vel skiljanlegt, að frá sjónarmiði míns embættis er ekki hægt að leggja mikla áherslu á þetta mál, og enda þótt jeg telji frv. sanngjarnt í alla staða og gott, ef háttv. deild samþykkir það, þá legg jeg ekki meiri áherslu á það en jeg þegar hefi sagt. Frv. þetta er ekki stórt atriði, og vil jeg því ekki lengja þessar umræður meira. En vefði það vefengt, sem jeg segi, að kennarar hafi tiltölulega jöfn laun eða eigi lakari en aðrir embættismenn ríkisins, þá mun jeg geta sýnt fram á með tölum, að þetta er rjett, sem jeg hefi sagt. Það er aðeins ein stjett, sem betur er launuð, og það er læknastjettin. Læknar hafa langsamlega hæst laun allra embættismanna ríkisins.