30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

1. mál, fjárlög 1926

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get þakkað háttv. fjvn. fyrir 34. brtt. hennar á þskj. 195. Jeg veit ekki til, að neinstaðar á landinu sje komið eins langt undirbúningi hjeraðsskólabyggingar eins og í Árnessýslu. Undirbúningi þessa máls er það langt komið í Árnessýslu, að jeg vona, að ekki líði á löngu áður en við getum byrjað á skólabyggingunni, og jeg vænti því þess, að þessi styrkur falli til hjeraðsskóla Sunnlendinga. Og háttv. frsm. gat þess, að þessi fjárveiting væri ætluð hjeraðsskóla Sunnlendinga, að skilyrðunum uppfyltum, sem tiltekin eru af hálfu fjárveitinganefndar. Mjer hefði þó þótt vænna um, ef þessi liður hefði verið áætlaður eitthvað hærri, t. d. 10 þús. kr. meira, eða 30 þús. kr., því að þá yrði það ca. helmingur þess, sem með þarf til þessarar skólabyggingar samkvæmt áætlun húsameistara ríkisins. Eins og allir vita, er nú enginn skóli á Suðurlandi nema barnaskólar, og verða því unglingar úr þessum hjeruðum að fara til annara landshluta að leita sjer mentunar. Nokkrir hafa farið til Borgarfjarðar, en meiri hluti unga fólksins hefir lent í Reykjavík. Það þarf engum orðum að eyða að því, því að það mun öllum hv. þdm. ljóst, hversu holt slíkt er, eða hitt þó heldur, unglingum, sem uppaldir eru í sveit. Þó að þeir hafi farið að heiman með þeim einum ásetningi að afla sjer mentunar og gera sig hæfari í baráttunni fyrir lífinu, þá hefir oft orðið lítið úr þeirri ákvörðun þegar í kauptúnin er komið. Áhrifin, sem unglingunum mæta í kauptúnunum, eru oft á þá lund, að það, sem þeir hugsuðu sjer að starfa að áður en þeir fóru að heiman, gleymist og annað tekur við, sem má sín meira. Bæjalífið er ekki til þess fallið að menta eða þroska ungmennin Þessi mentaleit ungmenna úr sveitunun í kauptúnin verður miklu oftar til þess að losa um þá í sveitinni, og sumir, því miður líklega ekki fáir, sem koma aftur skemdir á sál og líkama, og sumir koma aldrei í sveit aftur.

Þetta hafa og erlendar þjóðir fundið, og hafa þær því lagt alt kapp á að hafa sem flesta skóla í sveitunum sjálfum og hafa talið þá alþýðufræðslu besta og hollasta, sem þar er veitt æskulýðnum, og okkar eigin reynsla, þótt lítil sje enn, bendir einnig í sömu átt. Jeg tel það því mjög vel farið, að Alþingi sýni, að það vilji vinna að þessari stefnu, og því er betra, sem meira er að gert og fyr gert í þessa átt. Þó vil jeg ekki láta leggja fram fje fyr en þau fjárframlög eru trygð, sem með þarf og krefjast má af hjeraðanna hálfu. Jeg þykist þess fullviss, að fje verði trygt til þessa skóla okkar eystra, enda þótt það kunni ef til vill að dragast sem svarar einu ári ennþá, og þó að hv. fjvn. hafi ekki lagt til að veita hærri upphæð en þá, sem nefnd er í brtt. hennar, þykir mjer mjög vænt um, að tillagan kom, og vænti þess fastlega af háttv. deild, að hún samþykki hana. Jeg hefi svo ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta, en jeg vil aðeins bendi á, að við Árnesingar erum svo heppnir að eiga innan hjeraðs ágætismann til að veita þessum væntanlega skóla forstöðu, mann, sem er svo vel til þess fallinn, að hvergi mun völ á öðrum betri. Jeg á við prófast sjera Kjartan Helgason í Hruna. Honum þarf ekki að lýsa frekar, svo vel er hann kunnur orðinn, að alkunnugt er, að rjett er það hermt, er jeg nú sagði. En þó er þar á einn ljóður, og hann er sá, að maðurinn er við aldur, 60 ára, og ef þetta mál dregst miklu lengur, eru minni horfur á, að skólinn njóti hans við lengi. En þó að það væri ekki nema um stutta stund, teldi jeg það þó vel farið, að honum mætti auðnast að veita skólanum forstöðu nokkur fyrstu árin, því að það er skólanum fyrir miklu að fá góðan mannkostamann til að hafa stjórn hans á hendi fyrstu starfsár skólans. Því hefði jeg kosið, að þessi upphæð hefði verið um 10 þús. kr. hærri, til þess að skólinn hefði getað komist á fót nú þegar, því að með því móti hefðu verið meiri líkur til, að sjera Kjartan hefði getað markað skólanum stefnu, því að sá andi, sem ríkir innan skólans þegar í byrjun, varir lengst. En góð áhrif eru í raun og veru miklu nauðsynlegri en sá fróðleikur, er nemendurnir öðlast í skólunum. Holl áhrif eru æskulýðnum lífsnauðsyn, og því þykir mjer svo mikið undir því komið, að þessi ágæti maður komi sem fyrst að skólanum, því að hann er allra manna best fallinn til að marka skólanum stefnu. Að jeg kem ekki fram með brtt. til hækkunar á þessum lið, er af því, að jeg vil fyrst sjá afdrif þessa máls í háttv. deild, og af því að allflestir háttv. þdm. þekkja svo vel til í sveitum, og bera því gott skyn á þetta mál, vænti jeg, að þeir verði mjer sem flestir sammála um, að nauðsyn beri til að láta þessa brtt. ná fram að ganga. Það þekkja vitanlega allir aðdráttarafl það, er Reykjavík hefir á unga fólkið í sveitunum, þótt lengra sjeu frá Reykjavík en þessi hjeruð austan fjalls, og jeg þekki ekki annað betra ráð til að spekja fólkið heima í sveitunum og stöðva strauminn til Reykjavíkur og annara kauptúna við sjávarsíðuna en góða skóla í sveitunum sjálfum,

Þá hefir háttv. fjvn. lagt til, að Skeiðamönnum verði greiddur nokkur hluti kostnaðar við flóðgarðahleðslu, og get jeg goldið hv. fjvn. þakklæti fyrir þessa till., það sem hún nær.

En mjög hefði jeg kosið, að hv. nefnd hefði gert eitthvað frekar til þess að koma Skeiðaáveitumálinu í heild í betra horf en nú er.

Jeg held, að þessu máli væri yfirleitt fyrir bestu, að ekki yrði lengur dregið að beina því á rjetta braut, sem allir málsaðiljar gætu unað við.

Hv. frsm. (TrÞ) gat þess, að fjvn. sæi sjer ekki fært að sinna þessu máli frekar, fyr en Skeiðabændurnir sýndu einhvern lit á því að standa við skuldbindingar sínar, en enn hefðu þeir ekki greitt einn eyri af þeim skuldum öllum, sem þeir hefðu stofnað til vegna áveitufyrirtækisins.

Hinsvegar gat hv. frsm. (TrÞ) þess einnig, að þegar sjeð væri, að bændurnir ætluðu að standa við skuldbindingar sínar, þá væri nefndin þeirrar skoðunar, að ríkissjóður ætti að gera eitthvað meira fyrir þá en nú er gert.

Það er gott að eiga von á því, að hv. nefnd ætlar síðar meir að ljá bændum þessum frekara liðsinni, en til þess að vissa sje fyrir, að þetta fyrirheit verði efnt, þurfa hv. fjárveitingarnefndarmenn að eiga sæti hjer á þingi áfram og helst að vera áfram í fjvn. Við skulum nú vona, að svo verði, til þess að þeir fái tækifæri til að efna þetta fyrirheit á sínum tíma, en ekki er það þó öldungis víst, því að sitthvað getur nú komið fyrir, þótt á skömmum tíma sje.

En þetta mál er þess eðlis, að ekki er rjett að slá því á frest lengur en búið er, os enda er það alls ekki rjett hjá hv. frsm. (TrÞ), að hlutaðeigandi bændur hafi engan lit sýnt á því að standa við skuldbindingar sínar, og var þessi ásökun hv. frsm. (TrÞ) það lakasta, sem jeg hefi heyrt um mál þetta.

Bændurnir hafa fyrir löngu síðan reynt að koma málinu í það horf, að þeim væri kleift að standa við skuldbindingar sínar, en tilraunir þeirra í þá átt hafa enn sem komið er mistekist, eins og jeg nú skal víkja að.

Árið 1923 fengu þeir loforð fyrir láni til þess að greiða með vexti og afborganir af skuldum sínum, og er ekki hægt annað að segja en að þeir hafi þá staðið í skilum, enda þótt þeir hafi orðið að taka nýtt lán til þess.

Í fyrra sóttu þeir enn um liðsinni þingsins til þess að koma málum sínum í viðunandi horf, og leit þingið þá með sanngirni á nauðsyn þeirra og samþykti fyrir sitt leyti, að þeir fengju eftirgjöf á vaxtagreiðslu og afborgana um tveggja ára skeið.

Þetta hefir þó ekki verið framkvæmt enn, en mjer finst ekki óeðlilegt, að bændurnir búist við því, að orð Alþingis sjeu virt og ákvarðanir þess að einhverju hafðar.

Hinsvegar er og á það að líta, að kostnaðurinn við áveituna er þegar orðinn svo mikill, að bændunum hrýs hugur við. Þeir sjá sjer bókstaflega engan veginn fært að greiða hann hjálparlaust að öllu leyti. Ennfremur hvíla á þeim ýmsar aðrar kvaðir, sem gera þeim erfiðara að standa í skilum.

Þess vegna hafa þeir leitað til þingsins með beiðni um, að það geri þeim fært að kljúfa kostnaðinn við fyrirtækið.

Jeg held, að öllum, sem hjer eiga hlut að máli, sje fyrir langbestu, að föstu skipulagi verði komið á þetta mál, ekki aðeins hlutaðeigandi bændum, heldur engu síður bæði Landsbankanum og ríkissjóði.

Jeg get þegar lýst yfir því, eins og jeg sagði einnig í fyrra, að jeg tel als ekki ósanngjarnt, þó að Landsbankim gefi að minsta kosti eitthvað eftir á þeim gróða, sem hann hafði af afföllun veðdeildarbrjefanna, sem hann ljet af hendi, þegar hann veitti lán sitt, úr því að svo tókst til með fyrirtækið.

Kostnaðurinn er bændunum óviðráðanlegur, eins og jeg hefi marglýst yfir, og það er ómögulegt að halda því fram, að það hefði átt að meina þeim að haldi áfram verkinu, þegar það var komið svo langt áleiðis og mikið fje hafði verið lag í kostnað.

Held jeg, að ekki sje vafamál, að bændurnir sjálfir hafi allra manna mest an áhuga fyrir því að fá máli þessi komið í rjett horf, þannig, að þeir vit með vissu, að hverju þeir eigi að ganga Jeg veit, að þeir eru fúsir til að taka í sig þær byrðar, sem þeir sjá sjer frekast fært að ráða við. En þeim er vorkunnarmál, þó að þeir hafi enn ekki greitt að þessu sinni, eftir afgreiðslu málsins í undanförnum þingum.

Þá ber og að gæta þess, að þegar aðal áveituverkinu er lokið, þá eru búin þar eystra langtum of lítil til þess að bera kostnaðinn, sem áveitan hefir haft í för með sjer. Þess vegna þarf að stækka þau til muna, og var meiningin að nota gjaldfrestinn til þess.

Jeg þykist nú vita, að bent verði á, að bændurnir geti tekið ný lán til þess að stækka búin, en greitt jafnframt af áveitulánunum. En þetta er ekki mögulegt. Þar sem kostnaðurinn við áveituna er orðinn svo mikill, þá sjá bændur sjer alls ekki fært að hleypa sjer í nýjar skuldir til þess að auka bústofn sinn, og það finst mjer heiðarlegt af þeim, að vilja ógjarnan binda sjer stærri skuldabagga en þeir sjá sjer fært að standa straum af. En það á enginn víst, að sú lánsstofnun, sem nú veitti bændum þessum ný lán, fengi þau endurgreidd með fullum skilum.

Jeg held, að sú stefna, sem Alþingi tók í máli þessu í fyrra, sje hin heppilegasta, að veita bændunum gjaldfrest á áveitulánunum, til þess að þeir fái svigrúm til að stækka bú sín, en skipa málinu síðan á skynsamlegan og sanngjarnlegan hátt, með því að fastákveða, hversu mikið bændurnir eigi að greiða af lánunum og hversu mikils liðsinnis þeir megi vænta hjá Landsbankanum og ríkissjóði.

Jeg hefi átt tal við hæstv. atvrh. (MG) um þetta mál, og veit jeg ekki betur en hann sje þeirrar skoðunar, að skipa beri máli þessu á viðunanlegan hátt, og vona jeg, að hægt verði að bera fram einhverjar frekari till. í þessu efni við 3. umr.

Mjer þætti leitt, ef Alþingi skildist svo við þetta mál, að hlutaðeigandi bændur gætu ekki látið sjer afgreiðslu þess lynda, og þá ætti illa við heitið, sem þessari samkomu hefir stundum verið valið: bændaþing, ef það sinnir engu liðsbón heils sveitarhjeraðs, sem svo nauðulega er statt. Þá á jeg bágt með að sjá, að þingið hafi mikla þekkingu á málefnum bænda, eða vilja til að rjetta þeim hjálparhönd. En jeg vil ekki efast um, að þingið vill hjálpa þessum bændum, og það sje af misskilningi einum, ef það verður ekki gert í þetta sinn.

Auðvitað þykist jeg vita, að enginn heimsbrestur yrði, þó að bændur þessa hjeraðs flosnuðu upp frá búum sínum, en ekki tel jeg það þinginu vansalaust, ef til þess kemur.

Jeg minnist eins atviks, þar sem landið lagði margar milj. kr. í hættu til þess að bjarga við einni atvinnugrein, sem stundum að minsta kosti hefir verið þessu þjóðfjelagi einna mest til meins allra þeirra atvinnugreina, sem hjer eru stundaðar. Og þá finst mjer illa viðeigandi að vísa á bug styrkbeiðnum þessa atvinnuvegar, landbúnaðarins, þegar hann er hjálpar þurfi, þar sem þjóðin hefir þó hingað til að mestu leyti lifað á honum og þar sem aldrei verður talið, að þjóðfjelaginu í heild stafi annað en gott af þessum atvinnuvegi.

Jeg hefði aldrei viljað láta mitt atkvæði falla landbúnaðinum til óhagræðis, jafnvel þótt jeg væri ekki fulltrúi bændakjördæmis. Jeg hefi áður sem þingmaður Reykvíkinga átt kost á því að ljá honum lið, eitt sinn þegar svo á horfðist, að heil sveit legðist í auðn fyrir ágang vatna.

En vitaskuld er jeg ekki síður fús til að ljá landbúnaðinum liðsinni mitt nú, þar sem jeg er fulltrúi bænda og hefi þar að auki ástæður til að þekkja betur til þar eystra en flestir aðrir háttv. þm.

Jeg vænti þess því, að hv. fjvn. og hv. deild ljái máli þessu lið, ef til þess kemur við 3. umr., að frekari till. verði fram bornar, og mjer þykir leitt að heyra ummæli hv. frsm. (TrÞ) og hv. nefndar í nál. sínu.

Það er engu líkara en hv. fjvn. vilji stimpla alla þá bændur, sem hjer eiga hlut að máli, sem svikara. Til þess er allsendis engin ástæða, og enda mun hv. nefnd þess ekki megnug að færa sönnur á þessar aðdróttanir.

Því að þótt bændurnir hafi ekki greitt fyrir síðastliðið ár, þá stendur það í beinu sambandi við ákvarðanir síðasta þings og þá von þeirra, að bankinn veiti þeim eitthvert liðsinni.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði að sinni, en vonandi gefst mjer tækifæri til að víkja nánar að því síðar.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á till. hv. fjvn. um bryggjugerðir. Til þeirra leggur hv. fjvn. til, að varið verði 15000 kr., en gerir hinsvegar engar till. um, hvar bryggjur skuli gerðar. Jeg hefi í rauninni ekkert við það að athuga, þó að sá maður, sem þessi mál hefir með höndum, geri till. hjer að lútandi, en jeg er í vafa um, hversu langt þessi upphæð muni ná, hvort ekki sje svo brýn þörf að umbæta ýmsar bryggjur, að fjárveiting hv. nefndar hrökkvi skamt. Það var aðeins þessi athugasemd, sem jeg vildi gera um þennan lið.

Loks vil jeg minnast lítið eitt á nokkrar brtt., sem jeg á, sumpart einn og sumpart ásamt öðrum hv. þm., á þskj. 235.

Þá skal jeg fyrst nefna brtt. um að hækka styrk til Ungmennafjelags Íslands um 500 kr., en til vara um 300 kr.

Eins og kunnugt er, nær fjelagsskapur þessi um alt land og er mjög fjölmennur, enda vinnur hann að ákaflega þörfum og góðum málefnum. Jeg þekki þennan fjelagsskap frá fornu fari, nú í seinni tíð einkum í gegnum blað hans, og jeg held, að hann sje fullkomlega alls góðs maklegur.

Jeg veit þess mörg dæmi í sveitum, að ungmennafjelagar hafi hjálpað mönnum við heyskap, ef veikindi eða einhver önnur óhöpp hafa steðjað að, og lagt mönnum lið á ýmsan annan hátt, t. d. gefið fatnað o. s. frv. Auk þess láta ungmennafjelögin sjer einkarant um gróður landsins, sjerstaklega skógrækt. Nægir í því efni að benda á Þrastaskóg, auk margs annars. Þá hafa þau allskonar íþróttir á stefnuskrá sinni, og yfirleitt vinna þau að mörgum hlutum nytsamlegum, en þó einkum þjóðlegum. Í seinni tíð eru fjelögin farin að halda námsskeið fyrir fólk, t. d. ætlar samband ungmennafjelaga Suðurlands að halda hússtjórnarnámsskeið á næstunni og auk þess stunda skógrækt af meira kappi en áður.

Jeg held að þeim styrk sje vel varið, sem gengur til þessa fjelagsskapar, og vænti því, að hv. deild geti fallist á brtt. mína, a. m. k. varatill., þar sem hún fer ekki fram á hærra tillag en fjelögin fengu áður, meðan verðgildi peninga var langtum meira en nú.

Þá á jeg brtt. um að hækka styrkinn til Þórðar Flóventssonar úr 1200 upp í 1500 kr.

Þessi maður hefir nú um tveggja ára skeið unnið kappsamlega að því að glæða áhuga manna fyrir laxa- og silungaklaki og koma upp húsum í því skyni. Hann er nú 75 ára að aldri, en þó svo eru, að hann ferðast um landið sem tvítugur væri.

Hann hefir ferðast meira og minna um 12 sýslur, og árangurinn af starfi hans er undramikill. Þar sem hann hefir komið á fót klakhúsum, hafa þau gefist prýðisvel, eftir því, sem jeg best veit. Mjer er kunnugt um, að hann hefir staðið fyrir byggingu klakhúsa og kent mönnum að fara með klak austur í Ölfusi, Grafningi og víðar þar eystra. Og bóndinn í Alviðru í Ölfusi hefir sagt mjer, að í klakhúsi hans hafi lifað yfir 1/2 milj. síli eftir fyrsta veturinn.

Hv. frsm. (TrÞ) sagði, að hjer væri ekki um neina vísindamensku að ræða. Það er að vísu satt, að Þórður hefir ekki notið mentunar við neinn sjerskóla. En hann hefir það, sem öllu sjernámi reynist betra; hann hefir reynslu og hagkvæma þekkingu á þessu starfi sínu, og reynslan vitnar um hinn besta árangur, sem kosinn verður.

Í Árnessýslu er undantekning, ef nokkur hrogn hafa eyðilagst, þar sem Þórður hefir sjeð um byggingu klakhúsa. Þekking hans á þessu sviði er því jafnraungóð sem hún væri hávísindaleg, þar sem reynslan sýnir svo góðan árangur af starfsemi hans.

Hann hefir brennandi áhuga á þessu starfi og mun halda því áfram meðan líf og heilsa endast.

Þar sem hann hefir, enn sem komið er, notið lítils styrks af opinberu fje, þá þætti mjer vel farið, að hv. deild sýndi honum samúð sína með því að veita honum ekki óverulegri styrk en jeg hefi nú farið fram á.

Þá á jeg eina brtt. ásamt hæstv. forseta þessarar hv. deildar (BSv) undir XL. lið á þskj. 235, um að veita Halldóri Arnórssyni umbúðasmið 1000 kr., en 500 kr. til vara, upp í tap, sem hann hefir beðið við umbúðasmíði tvö undanfarin ár.

Við umr. um fyrri kafla frv. drap jeg á nokkrar ástæður fyrir þessari styrkveitingu, til viðbótar því, sem hv. frsm. þess kafla (ÞórJ) hafði sagt um þetta mál.

En sú till., sem þá lá fyrir, fann ekki náð fyrir augum hv. þdm.

Jeg gat þess þá, að maður þessi hefði beðið um 6000 kr. tjón við atvinnurekstur sinn tvö undanfarin ár og fór þá fram á, að þingið veitti honum styrk, sen svaraði húsaleigu þeirri, sem hann verður að greiða. Þetta gat hv. deild ekki fallist á, en jeg vona, að hún geti nú fallist á aðaltill., um að veita honum 1000 kr. styrk vegna þessa halla, sem hann hefir beðið.

Þó að þetta sjeu ekki miklir fjármunir, þá mun það samt gera honum hægara um vik að greiða úr fjárkröggum sínum.

Það hefir oft þótt ljóður á ráði þingmanna að mæla með slíkum fjárveitingum, sem þá eru kallaðar bitlingar í óvirðingarskyni, en þó mun jeg ekki hika við að fylgja þessari till. fram, þar sem jeg er sannfærður um, að hún er rjettlát og sanngjörn.

Þessar umbúðasmíðar bæta mjög úr brýnni þörf á þessu sviði. Og jeg er viss um, að hv. þm. fyndu betur nauðsyn þessa máls, ef þeir yrðu fyrir því óláni, að þeir þyrftu að nota umbúðir frá Halldóri. En það er hart, ef menn geta ekki litið á sanngirnismál án þess að persónulegar ástæður knýi þá til þess. En þeim einstaklingum, sem verða fyrir því óhappi að þurfa að láta lækna sig með þessu móti, er nógu dýrt heilsutjónið, þó að þeir þurfi ekki að leita til útlanda til þess að fá nauðsynlegar umbúðir. Og eftir þeim vitnisburði, sem ýmsir mætustu læknar bæjarins gefa umbúðum Halldórs, finst mjer meira en lítil óbilgirni að vilja enga uppbót veita honum, ekki síst þar sem hann er afbragðsmaður í alla staði og á vísa ágæta atvinnu, ef hann verður að hverfa frá þessu starfi.

Jeg ætla ekki að lengja umr. með því að fjölyrða um nauðsyn þessa máls frekar. Jeg leyfi mjer að fullyrða um starf þessa manns, að það er eins nauðsynlegt eins og starf margs læknis. Háttv. deild gefst nú kostur á að sýna, hvers hún metur það.

Þá á jeg eftir eina litla brtt., sem jeg flyt ásamt öðrum. Hún hefir komið fram áður, og jeg bið engrar afsökunar á því, að hún kemur fram enn. Það er 600 kr. styrkur til Þórdísar Símonardóttur ljósmóður.

Þetta er gömul kona, komin á áttræðisaldur, og er einstæðingur, sem engan á að nema góða menn. Hún hefir verið yfirsetukona yfir 50 ár og leyst það starf prýðilega af hendi. Mjer fyndist það því vel fallið, að Alþingi sýndi henni einhvern sóma.

Og þó til kynnu að vera á landinu 1– 2 ljósmæður, sem jafna rjettlætiskröfu ættu til einhvers styrks, þá rýrir það ekki verðleika hennar. Jeg get því ekki sjeð, að lagt væri út á neitt hættulega braut, þótt þetta yrði veitt. Og því má bæta við, að þegar um svona gamla manneskju er að ræða, þá þarf ekki að óttast, að árin verði svo ýkjamörg, sem hún nýtur þessara fjármuna.

Mjer finst, þegar fólk hefir unnið svona dyggilega til viðurkenningar, að þá beri Alþingi að veita því einhverja umsjá í lifanda lífi. Það er betra en þó að hlaðið sje lofi á manninn látinn. Slíks þekkjast dæmi með okkar þjóð.

Jeg vona því, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. þessa brtt. Upphæðin er svo smá, að það skiftir engu fyrir ríkissjóð. En hún skiftir miklu fyrir einstaklinginn — og mestu fyrir skilning Alþingis á því, sem vel er gert og launa vert.

Jeg er ekki svo orðsjúkur, að jeg stenst það vel, þó að sagt verði um mig, að jeg sje með ýmsum bitlingum. Einmitt þegar svona upphæðir lenda á rjettum stað, er þeim best varið alls, sem veitt er úr ríkissjóði.

Þá er ein brtt., sem jeg gleymdi að minnast á. Það er um Hvítárbakkaskólann. Af því jeg þekki vel til og veit, hvað mikið þeir, sem standa að skólanum, hafa á sig lagt, þá þætti mjer vel fallið, að þeir fengju uppgjöf á þessu láni. Þeir hafa ekki fengið nema lítinn styrk til rekstrar skólans. Þessi skóli er nærliggjandi sveitum hið mesta gagn, og það er alveg sjálfsagt, að Alþingi sýni sanngirni í þessu máli.