13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

104. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal strax geta þess, að frv. það, sem hjer er til umræðu nú, er ekki borið fram af mínum hvötum eða stjórnarinnar. Jeg hefði talið æskilegt, að ekki hefði þurft að hækka skattana nú frekar en orðið er. Og jeg álít, að vegna ræktunarsjóðslaganna sje það ekki öldungis óhjákvæmilegt. Jeg tel nefnilega, að hægt muni að tryggja sjóðnum þá upphæð, sem lögin gera ráð fyrir, án þess að gripið sje til skatthækkunar. Um þetta hefir mikið verið rætt, þó ekki hafi það verið á þingfundum, og niðurstaðan hefir orðið sú, að menn óska eftir, að sú ráðstöfun, sem þetta frv. fer fram á, sje gerð; telja tryggilegra, að fjeð sje nú þegar útvegað á þennan hátt. Líka hefir það verið sett í samband við væntanlega þörf ríkissjóðs á tekjuauka, þegar hann fær til rekstrar tvö eða fleiri strandvarnaskip. Þó jeg líti nú svo á, að full þörf tekjuauka í þessu skyni sje ekki fyr en 1927, þá get jeg þó ekkert haft á móti þessu, því allur er varinn góður.

Þótt frv. þetta sje nú ekki borið fram af mínu frumkvæði, heldur af tveimur nefndum í hv. Nd., þá verð jeg eigi að síður að mæla með, að það verði samþykt, til þess að ekki sje vikið frá þeim ákvæðum, sem samkomulag hefir orðið um að setja í ræktunarsjóðslögin.

Jeg hefði ekki haft meira að segja í þessu máli, ef háttv. 5. landsk. hefði ekki gefið mjer tilefni til nokkurra athugasemda með sinni frábæru ræðu við fyrri hluta þessarar umr. Þessi ræða hv. þm. var ekkert óvenjuleg. Hún hafði sama snið og vant er. En jeg gat ekki að því gert, að í þetta sinn minti hann mig á eina hina mestu andstæðu sjálfs sín, sem veraldarsagan getur um, spekinginn Demosþenes. Hann lifði á hnignunaröld hellenskrar menningar, en hv. 5. landsk. lifir á endurreisnaröld íslenskrar menningar. Demosþenes var afburða mælskumaður, en hv. 5. landsk. er ljelegur froðusnakkur. Demosþenes var lítillátur og fanst hann þurfa að æfa sig, enda þótt hann skaraði fram úr öðrum, en hv. 5. landsk. er stærilátur og finst hann ekki þurfa að refa sig í mælsku, en æfir sig í þess stað í ósannsögli. Demosþenes leitaði úr fjölmenninu niður að sævarströnd og æfði sig þar og hafði þögula kletta fyrir áheyrendur, en hv. 5. landsk. stendur hjer við sæti sitt, og þingmenn leita burt úr deildinni, svo ekkert stendur eftir nema þögulir stólarnir eins og klettar á sævarströnd. Demosþenes neytti gáfna sinna til þess að tala kjark og samheldni í landa sína, en hv. 5. landsk. notar gáfur sínar til þess að sá eiturormum sundurlyndis og úlfúðar meðal sinna landsmanna. Demosþenes varð mikið ágengt, enda þótt rás viðburðanna yrði yfirsterkari að lokum, en hv. 5. landsk. verður lítið ágengt. Sagan geymir nafn Demosþenesar sem eins hins mesta manns. Mun minning hans því ekki gleymast meðan saga er rituð, en hv. 5. landsk. gleymist að sjálfsögðu fljótt og öll hans verk.

Þessi samanburður flaug mjer í hug, þegar háttv. 5. landsk. þm. var að segja frá, hvernig lögin um hinn nýja ræktunarsjóð væru til orðin. Öll saga hans var ein samfeld æfing í ósannindum, sem ekki er fátítt hjá honum. Jeg ætla ekki að fara að rekja ræðu hans lið fyrir lið, en aðeins segja rjett og satt frá tildrögum ræktunarsjóðslaganna, án þess að fara að mótmæla ósannindunum í ræðu hv. þm.

Stofnun sjerstakrar lánsstofnunar fyrir landbúnaðinn hefir lengi verið áhugamál mitt. Jeg er uppalinn í sveit og fram eftir æfi minni var starfsemi mín bundin við framfarir í sveitunum. Mjer varð fljótlega ljóst, að framfarir í sveitunum voru mjög hægfara, samanborið við framfarir sjávarþorpanna, og að þetta myndi ekki lagast, nema sveitirnar fengju greiðan aðgang að hagkvæmum lánum til umbóta; ekki til þess að hlaða á jarðirnar eða hafa til eyðslufjár, heldur til þess að gera varanlegar umbætur.

Það atvikaðist nú lengi svo, að jeg fjekk ekki tækifæri til að bera fram þetta áhugamál mitt. Jeg hefi að vísu einu sinni boðið mig fram í sveitakjördæmi, í Árnessýslu árið 1916. Hjelt jeg þar marga þingmálafundi. sem voru mjög vel sóttir, og gerði þar grein fyrir nauðsyn slíkrar lánsstofnunar. En sem betur fór, varð jeg fyrir því láni, (JJ: Að dumpa), að forsjónin hlífði mjer við því að fara á þing í það sinn, og losaði mig þar með við alla ábyrgð á því, sem gerðist í löggjöf og stjórn árin 1917 til 1921. Og það er eitt af því marga og mikla, sem jeg er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa varðveitt mig frá.

Átti jeg svo ekkert sjerstakt tækifæri til þess að framfylgja þessu áhugamáli mínu, fyr en á þinginu 1921. Þá var fleygt inn í þingið lítt undirbúnu af stjórnarinnar hálfu, og yfirleitt að öllu leyti, frv. til laga um ríkisveðbanka Íslands. Jeg gerði þá þegar alt, sem jeg gat, til þess að fá því til vegar komið, að ræktunarsjóðurinn yrði gerður að sjerstakri deild innan veðbankans, en till. mínar fengu enga eða litla áheyrn þá. Meðfram af þessu, og sömuleiðis fyrir þá sök, að jeg taldi málið ekki tímabært, varð jeg algerlega móti frv. að lokum. Reynslan hefir nú staðfest alt, sem jeg hjelt fram 1921. Lögin reyndust ótímabær, því þau eru ekki komin í framkvæmd enn, og fleira hefir komið fram af því, sem jeg sagði þá.

Á síðasta þingi var svo enn sett ný, en mjög ófullkomin löggjöf um þetta efni, og á jeg þar við lögin um búnaðarlánadeildina. Við umræðurnar um það mál í þessari háttv. deild í fyrra lýsti jeg því yfir, að gefnu tilefni frá háttv. 1. þm. Rang., að hver svo sem niðurstaðan yrði um frv. til laga um búnaðarlánadeildina, þá myndi jeg fyrir þetta þing undirbúa frv. um endanlega úrlausn á þessu nauðsynjamáli landbúnaðarins. Og var mjer ljúft að nota tækifærið til þess að beina áfram gömlu áhugamáli mínu. Bjó jeg svo til uppkast að frv. í þessa átt og sendi stjórn Búnaðarfjelags íslands. Út af því setti svo Búnaðarfjelagið nefnd þá, er síðar er kunn orðin.

Á einum af fyrstu fundum þeirrar nefndar kom hún fram með uppástungu um að hafa lánsstofnunina alveg sjálfstæða og byggja hana upp á ræktunarsjóðnum. Jeg sagði nefndinni, að jeg teldi þetta rjetta úrlausn, en að jeg hefði ekki viljað bera það fram af hlífð við ríkisveðbankann, því eftir þeim lögum var þegar búið að ráðstafa ræktunarsjóðnum. En ef þeir vildu bera hana fram, skyldi jeg leita fyrir mjer meðal minna flokksmanna, og einn nefndarmaðurinn nákominn Framsóknarfl. meðal sinna. Þetta gekk greiðlega fyrir mjer og sæmilega fyrir hinum, og eftir það afrjeð nefndin að byggja tillögur sínar á ræktunarsjóðnum. í þetta frv. sitt tók Búnaðarfjelagsnefndin mörg ákvæði, sem jeg hafði sett í uppkast mitt að lögunum, og jeg get sagt, að flest nýmæli, sem nú eru komin inn í ræktunarsjóðslögin, þau voru fyrst í uppkasti stjórnarinnar, sem búnaðarfjelagsnefndin hafði til meðferðar.

Um gang þessa máls á þingi er fátt að segja. Stjfrv. var samið á grundvelli frv., sem Búnaðarfjelagsnefndin hafði gert, og bæði frv. borin fram og vísað til nefndar, sem að meiri hl. til var andstæð stjórninni. En hún ljet ekki afstöðu sína til stjórnarinnar hafa áhrif á málið. Hún lagði frv. stjórnarinnar til gundvallar, af því að henni leist það fullkomnara.

En út af því, sem sagt var á búnaðarþingi um þetta mál, skal jeg geta þess, að stjfrv. varð síðbúið, þannig að það var ekki komið til konungs, þegar búnaðarþingið var háð. Og þar sem ekki var unt að láta frv. koma til opinberrar umræðu fyr en samþykki konungs var fengið til þess að það gæti komið fram sem stjfrv., þá var ekki hægt að leggja það fyrir búnaðarþingið, og varð að synja um, að það yrði tekið þar til meðferðar. Það var lagt hjer fram sama dag og samþykki konungs var veitt.

Þegar því hv. 5. landsk. (JJ) segir, að þetta frv. hafi verið að engu haft, þá er það vísvitandi blekking. Einnig það, að stjórnin hefði lagt mesta áherslu á að breyta til um skipun forstjóra og stofna nýtt embætti. Mjer þykir þetta undarlegt, þar sem frv. er búið að ganga gegnum 7 umræður og engin brtt. komið fram um þetta. Og jeg veit ekki annað en að flestir sjeu sammála um, að sú skipun, að hafa forstjóra með 800 kr. launum, eins og búnaðarfjelagsnefndin stakk upp á, sje ófullnægjandi. Hann gaf í skyn, að þetta væri ætlað þurfamanni nálægt stjórninni, og ljet sjer því ekki nægja að segja alla sögu málsins rangt fram til þessarar stundar, heldur hjelt út í framtíðina og spáði. Mjer þykir rjettast, að söguleg frásögn endi á þeim tíma, sem atburðirnir gerast á. Út í aðrar rangfærslur hv. þm. skal jeg svo ekki fara, en geri ráð fyrir, að umr. um þetta sje lokið af minni hálfu, enda er nú mál til umr. í hv. Nd., sem stjórnin verður að sinna