02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

99. mál, innheimta gjalda af erlendum fiskiskipum

Hákon Kristófersson:

Það er ekki mjög langt síðan það heyrðist, að lögreglustjórar litu svo á, að þeim bæru þessi gjöld, og sagt er, að þeir hafi átt fund með sjer á síðasta sumri hjer í Reykjavík til þess að sameinast um það að halda þeim rjetti sínum, er þeir töldu sig hafa, fast fram. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú lýst skoðun sinni á þessu máli, og er jeg honum öldungis sammála um það, að þá er launalögin voru samin og þá jafnframt bætt laun sýslumanna, var út frá því gengið, að tekjur þær, sem hjer er um að ræða, færu óskertar í ríkissjóð. Háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir og lýst afstöðu sinni til málsins og skilningi sínum á lögum þessum, og á hverju hann hafi bygt úrskurð sinn. Þori jeg að vísu ekki að vjefengja skoðun hans, en jeg held því fram, að meining laganna sje ekki sú, að lögreglustjórum beri þessi gjöld, og ef skilja má lögin á þann hátt, þá hafi orðið vansmíð á lögunum, sem sjálfsagt hafi verið að laga til að taka af allan misskilning.

Nú hefir háttv. fjhn. haft mál þetta til meðferðar, og leggur hún til, að lögreglustjórar fái 25% af gjöldum þessum. Er því borið við, að þeir þurfi oft og tíðum að kosta ærnu fje til að ná í gjöldin. Jeg er að vísu ekki kunnugur þessu, en eftir því sem jeg þekki til, hafa þeir alls ekkert fyrir því. Annaðhvort eru gjöldin greidd þeim í skrifstofum þeirra eða alls ekki.

Hv. þm. Ak. (BL) sagði, að lögreglustjórar þyrftu oft að fara oftar en einu sinni um borð í sama skipið. Já, þeir gera nú slag í því! Það má vel vera, að eftirgangssemi lögreglustjóra sje í þessu sem öðru misjöfn. En yfirleitt held jeg, að lögreglueftirliti með skipum sje dálítið ábótavant. Jeg hefi að minsta kosti sjeð togara með vörpuna óbundna og óúrlásaða liggja við bryggju, rjett undir handarjaðrinum á einu yfirvaldinu, og fleiri dæmi mætti vafalaust telja, ef vel væri leitað.

Þá talaði hv. sami þm. (BL) um það, að altaf væri verið að hlaða störfum á lögreglustjórana. Hvað mætti þá segja um ýmsa minniháttar sýslunarmenn, eins og t. d. hreppsnefndarmenn? Það er einungis af því, að hjer eiga háttsettir embættismenn í hlut, að nú er lagt til, að Alþingi gangi frá sínum eigin ,,principum“ í launalögunum og taki aftur upp aukatekjur. Ekki er nú furða, þótt verkamenn gerist kröfuharðir, þegar þeir sjá slíkt fyrir sjer. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sjer leyfist það,“ stendur þar. Það er sorgleg reynsla, að því meira sem mönnum er veitt, því kröfufrekari verða þeir. Jeg get ekki búist við því, að neinn geri ráð fyrir því, að slík kyrstaða verði um hans embættistíð, að ekki geti bæst hitt og þetta við störf hans, og get ekki skilið annað en að hver embættismaður gæti tekið slíku með ljúfu geði.

Jeg er svo fjarri því að vera á móti því, að embættismönnum sje launað sæmilega, en þegar þeir vilja teygja sig eftir tekjum út fyrir gildandi launalög, þá finst mjer skörin færast upp í bekkinn, en því miður hefir nú reynslan sannað þetta. Má í því sambandi benda á suma læknana.

Hæstv. fjrh. talaði um það, að sýslumenn yrðu að borga umboðsmönnum sínum. Jeg þykist hafa nokkra vissu fyrir því, að þeir borgi þeim alls ekki neitt í mörgum tilfellum. Þeim er ákaflega sýnt um að hirða sjálfir sínar tekjur, án þess að kosta of miklu til embættisfærslunnar. (TrÞ: Er það svo í Barðastrandarsýslu?). Vill ekki hv. þm. Str. (TrÞ) spyrja einn hv. flokksmann sinn hjer, hvort hann þekki ekki neitt þessu líkt? Það var einmitt einn af flokksmönnum hv. þm. Str., sem stakk því að mjer rjett í þessu, að hann sem umboðsmaður sýslumanns hefði ekki fengið neina borgun í þessu skyni. (TrÞ: Það er enginn annar hjer, sem svona talar). Mjer fyrir mitt leyti er sama, hvernig orð mín eru tekin, enda býst jeg við, að æra mín standi svo föstum fótum, að mjer sje óhætt að segja sannleikann hver sem í hlut á, án þess að gera mig að aftaníhnýting einstakra manna.

Eitt er víst, að ef hreppsnefndir eða hreppstjórar ættu í hlut, að þá væri annað hljóð í strokknum. (BL: Lögin eru einmitt mikil rjettarbót fyrir hreppstjórana). Reynslan er nú þar ólygnust, en hún hefir sýnt, að sú rjettarbót er einskis virði, og kemur máske til greina í einu tilfelli af tuttugu.

Eina spurningu vil jeg bera fram að lokum, og hún er sú, hvort skylda beri til að fara út í skip, sem eru innan landhelgi, en þó ekki á höfnum inni. (BL: Já, ef ekki er brim). Mjer þykir gott að fá þessar upplýsingar; því að mjer er kunnugt um, að togarar liggja oft utan hafna, og jafnvel inni á höfnum, án þess að hafa nokkurt samband við land, og mun alls ekki farið út í þá til innheimtu á slíkum gjöldum. Enda efast jeg um, að sýslumenn sjeu til þess skyldir, þó háttv. þm. Ak. (BL) líti svo á.

Jeg er að vísu síður en vel ánægður með framkomu hæstv. fjrh. (JÞ) í þessu máli, af því að mjer finst, að hann hafi ekki gengið nógu hart að því að fá skýr fyrirmæli um þetta. Þar sem viðkomandi lög um þetta efni virðast ef til vill óljós, hefði hæstv. fjrh. átt að koma fram með frv., sem bætti að fullu úr göllunum. Hinsvegar er jeg honum þakklátur fyrir það, að hann vill, að sem allra minst af tekjunum renni til lögreglustjóra, en þó er mjer ekki grunlaust um, að hann sje þar fulleftirgefanlegur. Jeg vil alls ekki, að neitt af gjöldunum renni til innheimtumanna. Aftur á móti sje jeg ekkert á móti því, að ef viðkomendur vilja ekki ganga inn á það, að skilningur hæstv. fjrh. sje rjettur, að dómstólarnir sjeu látnir skera úr því, hverjum gjöldin beri fyrir þann tíma, sem liðinn er, en framvegis verði svo frá þessu gengið, að þau renni í ríkissjóð.