16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

5. mál, skiptimynt

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að hafa langa framsögu í máli þessu. Það virðist vera ofureinfalt og óbrotið, enda geri jeg ráð fyrir, að frv. gangi í gegnum þessa hv. deild ágreiningslítið. Allshn. hefir athugað frv. nákvæmlega, og þær breytingar, sem hún leggur til, að gerðar verði á því, eru nær eingöngu orðabreytingar. Eina efnisbreytingin er sú, að í stað þess, að nú stendur í frv., að einnig sje heimilt að láta slá eineyringa, vill nefndin láta ákveða, að þeir skuli slegnir jafnsnemma og hinar mynttegundirnar. Annars get jeg látið nægja að vísa til greinargerðarinnar fyrir frv. Nefndin hefir þar litlu við að bæta. Vil jeg þó benda á það, að mönnum má vera það fagnaðarefni, að krónuseðlarnir hverfi út sögunni. Þeir vilja, eins og kunnugt er, oft verða mjög óhreinir, og stafar því af þeim smitunarhætta mun meiri en mynt þeirri, sem frv. gerir ráð fyrir. Hæstv. stjórn hefir látið nefndinni í tje uppdrætti, sem hún hefir látið gera af þessari væntanlegu skiftimynt, og geta hv. þm. fengið að skoða þá hjá mjer. En jeg vil nú nota tækifærið til að skjóta því til hæstv. stjórnar, að á uppdráttunum af 1 og 2 króna peningunum er villa. Stendur þar „konung Íslands“ í stað „konungur Íslands“. Þarf vitanlega að kippa þessu í lag. Að síðustu vil jeg geta þess, að ráð er fyrir því gert, að smápeningarnir, 25-, 10-, 5-, 2- og 1- eyringarnir, verði af sömu stærð og þessar sömu mynttegundir hafa áður verið. Hygg jeg, að svo verði einnig um 1 og 2 króna peningana.