07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

5. mál, skiptimynt

Frsm. (Jónas Jónsson):

Allshn. hefir fengið frv. þetta til meðferðar og mælir með því, að frv. verði samþykt með litlum breytingum. Málinu er svo háttað, að í mörg ár hefir verið bagalegur skortur á skiftimynt, því að eftir að íslenska krónan tók að falla hefir silfur sópast úr landinu, þangað sem gengið var hærra. Endirinn varð sá, að grípa varð til að gera 1- krónuseðla, og hefir svo gengið nokkur ár. En þessir seðlar eru óhentugir, enda var aldrei til þess ætlast, að þessi ráðstöfun yrði nema til bráðabirgða. Að vísu var fyrir nokkrum missirum slegin íslensk skiftimynt, 10- og 25-eyringar, en það er fyrst nú, að ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma á málmskiftimynt í stað seðlanna. Hefir verið unnið að framkvæmd þess máls af myntsláttunni í Kaupmannahöfn, og liggja fyrir teikningar af nýjum peningum. Eins og frv. ber með sjer, er þetta ekki silfurmynt; stendur það í sambandi við gengismálið hjer og annarsstaðar, að málminn verður að blanda. Hinsvegar verða þessir peningar alveg eins handhægir og endingargóðir og silfurmyntin, en aðalávinningurinn er sá, að losna við smáseðlana og fá í staðinn einnar og tveggja króna peninga. Á frv. hefir allshn. eftir tilmælum hæstv. stjórnar gert þá breytingu, að stjórninni sje heimilt að gera smábreytingar á gerð og efni skiftimyntarinnar frá því, sem þingið samþykkir, ef það telst óhjákvæmilegt vegna sambands okkar um peningasláttu við nágrannalöndin. Þar sem mynt þessi er ekki úr silfri, þá má vel fara svo, að önnur lönd leggi áherslu á, að peningarnir verði ekki líkir þeirra peningum, svo að ekki verði hætta á, að þeir verði teknir sem silfur í ógáti. Það verður að teljast rjett að taka tillit til þessa, og þó ekki sje formlega rjett að veita neinni stjórn almennar heimildir af þessu tægi, þá telur allshn. það rjett og hættulaust eins og sakir standa, og leggur til, að frv. með áorðinni breytingu nái fram að ganga.