12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

5. mál, skiptimynt

Fjármálaráðherra (JÞ):

Frv. þetta hefir tekið þeirri einu breytingu í hv. Ed., að inn var sett eftir tilmælum mínum ný grein um það, að ákvæðunum um gerð peninganna megi breyta með konungsúrskurði, ef önnur Norðurlandaríki krefjast þess, til þess að þeir sjeu ekki of líkir skiftimynt þeirra. En svo er tilskilið í myntsamningi Norðurlanda að því er snertir nýja skiftimynt, að þá skuli hvert ríki bera gerð sína undir hin ríkin, svo að myntirnar verði ekki of líkar. Þegar jeg fyrst bar fram frv., vonaðist jeg eftir, að svörin yrðu komin frá Noregi og Svíþjóð áður en umr. yrði lokið. En nú hefir sú von ekki ræst, svo að þessi varnagli hefir verið sleginn, til þess að lögin geti þegar komið til framkvæmda, jafnvel þó að síðar kunni svo að fara, að óhjákvæmilegt verði að breyta að einhverju leyti því, sem stungið hefir verið upp á um gerð peninganna.

Að svo mæltu vil jeg vænta þess, að hv. þd. vilji samþykkja frv.