26.02.1925
Efri deild: 15. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

6. mál, póstlög

Frsm. (Eggert Pálsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er stjórnarfrumvarp, er jeg býst við, að samið sje af aðalpóstmeistara. Það fer fram á að breyta nokkrum ákvæðum í gildandi póstlögum. Aðalbreytingin virðist vera fólgin í því að innleiða póstinnheimtur. Í lögum frá 1921 er ákveðið, að pósthúsum sje skylt að veita móttöku: Ábyrgðarbrjefum, peningabrjefum, bögglum, póstávísunum, póstkröfum og krossbandssendingum. Póstinnheimtur eru ekki nefndar hjer, en nú er farið fram á að bæta þeim við, og það skilst mjer vera þungamiðja frumvarpsins.

Allsherjarnefnd fanst óviðkunnanlegt að hnoða öllum þessum ýmsu breytingum á mörgum greinum póstlaganna inn í eina og sömu greinina og vakti máls á því við aðalpóstmeistara. En hann taldi það ekkert saka, þar eð breytingar þessar yrðu færðar inn í póstlögin á sínum tíma.

Að því er snertir aðalefni frv., var nefndin því fullkomlega samþykk. Hinsvegar fanst henni þó ástæða til að gera nokkrar smábreytingar á frv. Aðalbreytingin, sem nefndin leggur til að gera, er sú, að ávísanagjald fyrir upphæð, sem er undir 12 kr., verði lækkað. Eftir núgildandi lögum er ekki hægt að komast af með minna gjald en kr. 0,30 fyrir hvað litla upphæð sem er, og stingur því nefndin upp á, að gjald fyrir upphæð, sem er fyrir neðan 12 kr., verði lækkað úr 0,30 niður í 0,15. En gjald fyrir upphæðir, sem eru fyrir ofan 12 kr., ætlast hún til, að standi óbreytt eins og það er í gildandi lögum.

Þá er önnur breytingin, sem nefndin vill láta gera, sú, að á eftir orðunum: „Þar af leiðandi hvorki símakostnað, sendiferðakostnað nje málskostnað“ komi: og skal eigi skylt að greiða bæturnar fyr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að póststjórnin fjekk tilkynningu um vanskilin. Orðin: „Þar af leiðandi málskostnað“ hefir póstmeistari sett inn í frumvarp sitt til þess að forðast, að menn gerðu óþarfan aukakostnað með símtölum, símskeytum, sendiferðum o. fl., eins og oft hefir viljað eiga sjer stað. En nefndinni fanst, að þessum tilgangi mætti ná með þeirri breytingu, sem hún leggur í þessu efni til að gera á frv., þeirri breytingu sem sje, að skylda til endurgreiðslu komi ekki til greina fyr en 6 mánuðum eftir, að póststjórnin fjekk tilkynningu um vanskilin.

Þá er þriðja brtt. nefndarinnar. Hún er við síðustu málsgrein 1. gr. frv. Þar er talað um, að ráðherra hafi heimild til að ákveða, að burðargjald, sem 11. gr. núgildandi póstlaga ræðir um, megi innheimta með öðrum upphæðum en þar eru settar, ef gengi íslenskrar krónu gefi tilefni til þess. Þetta orðalag fanst nefndinni gefa of mikið undir fótinn; fyrir því gerir hún þá breytingu, að í stað orðanna: „gefa tilefni til þess“ komi: gera það óumflýjanlegt.

Frekara hefi jeg ekki að segja um þetta mál, en óska, að það gangi fram með þeim breytingum, sem nefndin hefir gert á því.